18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3824)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða veggjaldið. Ég gerði það áðan og hef engu við það að bæta. En hv. 1. þm. Norðurl. e. bar fram hér tvær fsp. Í fyrsta lagi, hvers vegna fé samkv. Norðurlandsáætlun væri aðeins skipt á einstök verk fyrir árið 1972, en ekki síðari árin. Því er til að svara, að frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hefur með þessa áætlun að gera, hafa ekki komið nein gögn, sem gera það kleift að skipta fyrir þau ár, en þetta kemur að sjálfsögðu til endurskoðunar á næsta ári, og við verðum þá að vona, að þessum störfum verði þá komið lengra áleiðis.

Þá gat hv. þm. þess, að í bráðabirgðavegáætlun væri gert ráð fyrir framlagi til að byggja brú á Kverká á Langanesi, veittar 500 þús. kr., en það væri ekki í till. n. nú. Það er rétt, að á bráðabirgðaáætlun er gert ráð fyrir 500 þús. kr. framlagi til brúarinnar 1972, en í till. n. er á bls. 17, lið 46 gert ráð fyrir framlagi til þessarar brúar á árinu 1974, 3.8 millj., og ég veit ekki betur en þm. kjördæmisins hafi staðið að þessari skiptingu.