18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Jón Árnason:

Herra forseti. Segja má, að það sé ekkert óeðlilegt, að nokkuð miklar umr. séu um þetta mál, vegáætlun til fjögurra ára, sem hér er nú til umr. í hv. Alþ., þegar á það er litið, hve upphæðin er stór, sem við erum með, þó að okkur finnist hún vissulega mætti vera enn þá stærri. Við þurfum ekki að líta langt til baka til þess tíma, þegar þessi upphæð var nokkuð mikið upp í það, sem öll heildarfjárlög ríkisins voru. En í sambandi við þessar umr. og afgreiðslu vegáætlunarinnar nú og áður má segja, að það sé Alþ. mikið til sóma, hvað þm. koma sér yfirleitt vel saman um að skipta þeirri köku, sem um er að ræða hverju sinni, því að sannleikurinn er sá, að það hefur ekki verið mikið deilt um það á milli þm., í hvaða framkvæmdir það fjármagn skuli fara, sem um er að ræða hverju sinni. Vissulega er það rétt, að hér er um meiri fjárhæðir að ræða en dæmi eru til um áður til vegaframkvæmda á næsta áætlunartímabili, eða hartnær 2 milljarðar kr. á hverju ári. Um hraðbrautaframkvæmdirnar er,það að segja, að verulegur hluti þeirra framkvæmda byggist á væntanlegri lántöku frá Alþjóðabankanum: Sama má segja um stóran hluta annarra vegaframkvæmda, sem vegáætlunin nær yfir. Má þar til nefna vegaframkvæmdir samkv. Austurlands– og Norðurlandsáætlunum, þá er það hinn svo kallaði hringvegur yfir Skeiðarársand, sem gert er ráð fyrir að kosti um 647 millj. kr., og þá er það Djúpvegurinn, en til hans er gert ráð fyrir að taka samtals um 100 millj. kr. á áætlunartímabilinu. Þegar um það er rætt, að með þessari vegáætlun sé stigið stærra spor í vegaframkvæmdum en dæmi eru til um áður, þá er það eins og ég sagði áðan, og ég held því fram, að það sé vissulega rétt. En hinu skulum við ekki gleyma, að með þessari vegáætlun erum við vissulega að taka, eins og hæstv. fjmrh. sagði einu sinni, að vísu í öðru sambandi, við erum að taka forskot á sæluna. Það má segja það.

Sumir hafa haldið því fram, að þessar miklu lántökur til vegaframkvæmda sem hér um ræðir, séu okkur ofviða og þenslan í efnahagsmálunum sé nú þegar komin á það stig, að hún muni ekki þola þá viðbót, sem felst í þeim miklu lántökum, sem vegáætluninni eru samfara. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á þeirri skoðun. Með nútímatækni eykur vegagerð nú miklu minna spennu á vinnuaflsmarkaðinum en áður átti sér stað. Það eru nýtízku vélar, sem að vísu kosta mikið, en eru ekki mannfrekar, sem gera í dag þessar vegaframkvæmdir mögulegar.

Þegar um það er rætt, á hvern hátt eðlilegast sé að fjármagna Vegasjóð, þá koma vissulega fleiri en ein leið til greina, eins og nú á sér stað. Sumir hafa t.d. haldið því fram. að allt fé, sem kemur af umferðinni í einu eða öðru formi eigi að renna í Vegasjóð, og einn af þeim er hæstv. fjmrh., eins og hann gat um hér áðan. En ég tel, að það vanti enn verulega á það, að allt fjármagn, sem kemur af umferðinni, renni í Vegasjóð. Leyfisgjaldið af bifreiðum, innflutningsgjaldið, er bara hluti af tolli, sem leggst á bifreiðar, sem fluttar eru til landsins. Og þess vegna vitum við, að það vantar enn verulega á það. Það er líka hluti af benzíngjaldi, eins og hér hefur verið bent á, sem rennur í ríkissjóð. Og þess vegna vantar enn nokkuð á það, að Vegasjóður fái allt það fjármagn, sem margir hafa talað um, að þyrfti nú að renna í Vegasjóð.

Á síðari árum má segja, að tekjur af umferðinni fari samt sem áður að verulegu leyti í Vegasjóð. En ég tel, að innflutningsskattur af bifreiðum sé of hár, og nýhækkaður innflutningsskattur af bifreiðum er að verulegu leyti hluti af því fjármagni, sem ríkissjóður leggur fram samkv. þessari vegáætlun. Með því að leggja á nýjan skatt, innflutningsgjald á bifreiðarnar, var hægt að auka það, sem ekki var gert ráð fyrir, að kæmi í fjárlögum, þegar þau voru afgreidd á s.l. vetri. Ég tel óréttlátt, eins og ég hef þegar sagt, að hafa háa innflutningstolla af bifreiðum. Það er staðreynd, að eins og nú er komið, ekki aðeins hjá okkur Íslendingum, heldur einnig hjá fjölmörgum öðrum þjóðum, þá verður bifreiðaeign ekki talin lúxus. Það á ekki síður að auðvelda þeim efnaminni að eignast bifreiðar en þeim, sem betur mega sín. Þess vegna er það óréttlátt að hafa háa innflutningstolla á bifreiðar, og Vegasjóð á ekki að byggja upp eða fjármagna með slíkum hætti.

Á síðari árum hefur benzín skatturinn verið veruleg uppistaða í því fjármagni, sem í Vegasjóð hefur komið. Vissulega er það rétt, að einhver takmörk eru fyrir því, hvað má leggja háan skatt á benzínið, eins og aðrar neyzluvörur. En ég tel, að það væri ekki óeðlilegt, þó að benzínskattur eða benzín verð væri nokkru hærra hjá okkur Íslendingum en ýmsum öðrum. Og það er sérstaklega þá með tilliti til þess, að allt það fjármagn, sem kæmi inn, gengi til þess að leggja betri vegi. Það hefur verið svo í undanfarin skipti, þegar til þess hefur komið, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, að hækkaður hefur verið benzínskattur, þá hafa þm. yfirleitt verið á einu máli um þá skatthækkun. Og hvers vegna haldið þið, að það sé? Auðvitað er það ekki af neinu öðru en því, að menn sjá þörfina fyrir meiri og betri vegi og menn sjá, að það borgar sig að færa nokkra fórn í þeim efnum og leggja á sig byrðar til þess að koma betri skipan á vegamálin í okkar landi.

Ég held, að það hafi verið síðasti hv. ræðumaður, sem var að tala um vegagjaldið, og hér hafa eiginlega allir, sem til máls hafa tekið, aðallega rætt um þetta gjald. Ég tel nú, að það séu margar aðrar hliðar á þessari vegáætlun, sem hér liggur fyrir, en einungis þessi skattur. Þó að það verði að viðurkennast, að það sé ekki stór upphæð á hverju ári, þá nemur það nokkurri upphæð allt tímabilið. En mér finnst, að það sé ýmislegt fleira, sem við megum ræða og velta fyrir okkur í sambandi við þá afgreiðslu á vegáætlun, sem hér á sér stað. Vissulega er það svo með vegaskattinn eins og aðra skatta og önnur mál, að á þeim eru fleiri en ein hlið.

Ég hygg, að það hafi verið hæstv. síðasti ræðumaður hér, sem var að tala um réttlæti í vegaskattinum. Hann var að tala um, að þegar menn væru að koma vestan af fjörðum eða norðan af landi á mjög vondum vegi, þá hefðu þeir ekkert á móti því kannske að greiða verulegt gjald eða nokkurt gjald til þess að komast síðan á góðan endasprett. Ég held því fram, að það sé bæði hægt að hafa uppi rök með og móti þessu máli, eins og ég sagði áðan, og það væri m.a. hægt að réttlæta það, að þegar menn væru búnir að keyra langan, vondan veg, þá ættu þeir að fá „gratís“ seinasta spottann, sem væri góður. Menn geta haft alls konar slík rök á takteinum, ef menn vilja ræða málin svona aftur á bak og áfram. Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu í þessu máli. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og eins og hv. frsm. fjvn. gat um í sinni framsöguræðu, þá var ágreiningur innan n. Ágreiningurinn var á þann hátt, að það vildu allir hafa óbundnar hendur í þessum málum. Það lýsti enginn yfir eindreginni afstöðu til málsins, þegar það var til umr. í n., en hins vegar var um það rætt, að menn mundu meta málið og taka síðan afstöðu til þess, þegar það endanlega kæmi til afgreiðslu hér í Sþ.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega þetta gjald og ekki hafa þessi orð öllu fleiri en ég hef þegar gert, en til þessa máls, sem ég hef nú síðast vikið að, mun ég taka afstöðu við afgreiðslu þess.