18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (3827)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh., því að hann vildi nú neita því, að hann hefði haldið því fram. að vegirnir ættu að fá tekjurnar af umferðinni. Nú sagði hann, að hann hefði átt við, að vegirnir hefðu átt að fá sérskatta af umferðinni. En ég vil bara aðeins vekja athygli á því, að þau orð, sérskattar af umferðinni, sáust ekki í blaði hæstv: ráðh., Tímanum, fyrr en eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Áður var alltaf talað um tekjur af umferðinni, og þarf ekki annað en fletta upp í þingtíðindunum til þess að sannfæra sig um það, hvort ég fer hér með rétt mál eða ekki.

Nú er það síður en svo, að ég vilji vanþakka hæstv. fjmrh, fyrir góða samvinnu, á meðan ég var samgrh. Ég skal alveg viðurkenna það, að þessi hæstv. ráðh., hv. 3. þm. Vesturl. þáv., gekk oft fram í því að koma málunum saman og það var alltaf góð samvinna á milli okkar. Ég vil líka halda því fram, að ég hafi ekki lagt stein í götu samkomulags hér á þessu þingi, enda þótt ég hafi ekki alltaf verið á sömu skoðun og ráðherra. Ég hef ekki hindrað það, að fjárlög gætu verið samþ. á eðlilegan hátt og ekki tafið fyrir því. Ég hef ekki heldur viljað tefja fyrir því, að vegáætlunin gæti gengið fram á eðlilegum og réttum tíma. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að orðið sérskattar í hans munni og í blaðinu Tímanum kom ekki fyrr en eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. En kannske má afsaka þetta allt saman. Þá vil ég einnig minna hæstv. ráðh. á það, að það er ekki rétt í rauninni, að ríkissjóður leggi Vegasjóði til 200 millj. kr. Það vita allir, að helmingurinn af þessari upphæð er tekinn með nýjum sköttum af bifreiðaeigendum. Hin raunverulega hækkun til Vegasjóðs, sem fjmrh. hefur beitt sér fyrir, eru 53 millj. kr. að viðbættu því, að ríkissjóður hefur tekið að sér að greiða vexti og afborganir af lánum nokkru meira en áður var. Á s.l. ári greiddi ríkissjóður 101 millj. kr. í vexti og afborganir af lánum. Á þessu ári munu það verða um 160 millj. kr., vegna þess að lánin voru hærri, sem nú er um að ræða, en áður. Þetta er þessvegna ekki nein ný stefna. Stefnan var áður orðin sú, að ríkissjóður borgaði meginhlutann af vöxtum og afborgunum af þessum lánum, sem Vegagerðin hafði tekið.

En þá vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að það er Alþ. á hverjum tíma, sem ákveður það endanlega, hvernig fjár skuli aflað, og það er ekki viðeigandi fyrir hæstv. ráðh. að segja hér við hv. Alþ.: Nú skuluð þið hv. alþm. standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að annaðhvort verðið þið að fella þá till., sem hér er um að ræða, sem margir hv. þm. hafa flutt, eða hækka benzínið. Það er vitanlega endanlega Alþingis að ákveða það, hvernig teknanna er aflað, og ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er ekki viðeigandi fyrir hæstv. ráðh. að reyna að setja hv. alþm. á þennan hátt upp við vegg.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, en ég taldi ástæðu til að vekja athygli á þessu.