18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf að segja örfá orð út af svari hv. frsm. fjvn. við spurningum mínum, sem ég hér með þakka. Varðandi fyrra svarið, um brúna á Kverká á Langanesi, þá vil ég geta þess, að ég hef fengið skýringu á því atriði. Spurningin byggðist á misminni mínu, og það liggur þannig í því, að þessi 1/2 millj., sem veitt var til þessarar brúar, var ekki á bráðabirgðaáætluninni 1972, heldur á hinni reglulegu áætlun fyrir 1971 og er því geymt fé og átti ekki að koma hér inn. Svar hv. frsm. er þá líka á misskilningi byggt, sem má vera, að megi kenna mér um.

Í öðru lagi svaraði hv. frsm. fsp. minni um skiptingu fjár til Norðurlandsáætlunar á árunum 1973, 1974 og 1975. Og hann svaraði þeirri spurningu á þá leið, að upphæðunum fyrir þessi ár væri ekki skipt, vegna þess að ekki lægju fyrir till. frá Framkvæmdastofnuninni eða fjórðungssambandinu um skiptinguna. Og þetta er eflaust svo. En það var í raun og veru ekki þetta, sem ég spurði um, heldur spurði ég um það og beindi þeirri spurningu til hv. fjvn. og hæstv. samgrh., hver mundi að lokum skipta þessu fé, en mér er það ekki fullkomlega ljóst. Verður það Alþ. og þá með hverjum hætti og hvenær, eins og það gerir nú, því að það er Alþ., sem nú er að skipta þessu fé, þó að till. komi frá öðrum, eða verður það talið heyra undir annan aðila, t.d. hæstv. ráðh.? Það var þetta, sem ég spurði um, og það er þetta, sem ég óska eftir að fá svar við og helzt frá hæstv. samgrh., sem ég vona, að hafi nú heyrt spurningu mína, en ég var að reyna að tala nægilega hátt til þess, að svo mætti verða.

Ég vil svo aðeins geta þess að gefnu tilefni frá frsm., að við þm. Norðurl. e. höfum ekki gert till. um skiptingu vegafjárins, hvorki hins almenna vegafjár í kjördæmið eða áætlunarfjárins nema hinnar svo kölluðu afgangsupphæðar, sem við vorum að gera till. um. En það eru aðrir aðilar, sem hafa annazt skiptinguna að öðru leyti.