21.12.1971
Neðri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

126. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Á frv. þessu voru gerðar tvær breytingar í Ed., og kemur það því aftur hér til meðferðar í hv. Nd. Fyrri breytingin var við 12. gr. frv. og er í því fólgin, að þar er ákveðið, að tekjutryggingin svo nefnda hækki ekki sjálfkrafa í samræmi við breytingar, sem verða í almennri verkamannavinnu, heldur fari hún eftir ákvörðunum ríkisstj. hverju sinni á sama hátt og fjölskyldubætur. Í sambandi við þessa breytingu víl ég láta þess getið og geri það raunar í samráði við hæstv. fjmrh., að af hálfu ríkisstj. mun verða stefnt að því að reyna að halda þannig á málum, að þessi tekjutrygging haldi a.m.k. kaupmætti sínum í sambandi við slíkar endurskoðanir.

Hin breytingin var á ákvæði til bráðabirgða, B-lið vegna sjúkratrygginga. Þar var ákvæði um það, að hvert sveitarfélag skyldi greiða tiltekna upphæð á árinu með jöfnum greiðslum, 2 125 kr. fyrir hvern samlagsmann, en á það var bent í Ed. af þm., sem kunnugir eru. starfsemi sjúkrasamlaga úti um land, að þessi upphæð mundi ekki vera í samræmi við fjárhagsáætlanir þeirra allra, og því var breytt þessu orðalagi þannig, að hvert sveitarfélag skuli greiða sjúkrasamlagi framlag sitt með jöfnum greiðslum, sem stjórn viðkomandi sjúkrasamlags ákveður með hliðsjón af áætluðu framlagi, þannig að þarna er ekki nefnd tiltekin upphæð, en að öðru leyti á ekki að vera fólgin í þessu nein efnisbreyting.

Ég vil svo fara þess á leit við hv. þd., að hún geti fallizt á frv. í þessu formi, svo að okkur verði öllum að þeirri sameiginlegu ósk okkar, að meginefni frv. geti komið til framkvæmda um áramót.