18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3830)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér nú ekki að taka þátt í þessum umr. að þessu sinni, taldi þess ekki þörf, en ég er nú sannast sagna mjög óvanur því, að mér sé brugðið um það, að ég sé sérdrægur maður, þegar um það er að ræða að leggja á skatta. Þegar það gerist hér í Alþ., þá kann ég ekki við að þegja undir því alveg.

Annar hv. þm., sem hér talaði áðan, var með fyrirbænir til okkar Sunnl. og óskaði þess, að okkur veittist hjartastyrkur til þess, að við þyrðum að mæta kjósendum okkar heima í héraði. Ég þakka að sjálfsögðu fyrir þessa góðu bæn, en sem betur fer hef ég aldrei verið hræddur við að fara austur yfir heiði, þó að ég væri staddur í Reykjavík. Ég hef ekki þurft að hugsa til þeirra verka unninna hér, að ég þyrfti þess við. Og ég verð sannast sagna að segja það, að ég furða mig mjög á því, þegar maður langt utan af landsbyggðinni talar um það, að með því að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir um afnám vegtollsins, þá sé verið að skattleggja vegleysið. Hefur þessi sami maður og þeir menn, sem eru mestu talsmenn veggjaldsins, ekki gert sér það ljóst, að það eru einmitt þeir, sem lengstar leiðirnar eiga, sem þetta kemur óréttlátast við, skattgjaldið.

Mér sýnist, að það séu ráðagerðir uppi um það, ef skattgjald verður lagt á þrjá vegi á annað borð, að innheimtuskýlin verði fyrir sunnan Straum, eins og verið hefur á Reykjanesbraut, annað verði austur undir Hveragerði á Suðurlandsvegi og hið þriðja verði líklega uppi hjá Laxá í Kjós á Vesturlandsvegi. Og hvað þýðir þetta? Það þýðir ekkert annað en það, að allur aðalfjöldi bíla í landinu snýst innan þessara tollskýla án þess að greiða nokkra krónu, en mennirnir, sem koma norðan af Þórshöfn eða vestan af fjörðum og ætla heim aftur, þeir verða að greiða gjaldið fyrir þann stutta spöl, sem þeir hafa af góðum vegi. Ég verð að segja það, að þar sem ég stend að þeirri till., sem hér hefur verið rædd, um niðurfellingu skattgjaldsins, þá tel ég ekki að það lýsi neinu ábyrgðarleysi að gera ráð fyrir því, að það fé, sem annars fengist af veggjaldinu, yrði lagt fram úr ríkissjóði. Ef það þykir ekki fært við næstu fjárlagaafgreiðslu, þá eru til ýmis ráð til þess og hafa oft verið notuð í sambandi við skattlagningu og vegáætlanir, og ég sé ekki, að það lýsi neinu ábyrgðarleysi. Og ég verð að segja það; eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Sunnl. hér áðan, að sú var tíðin, að þeir, sem nú hafa völd í landinu, töldu ekki, að 30 millj. kr. framlag á einu ári úr ríkissjóði væri stórt framlag.

Ég ætla svo ekki að þreyta hv. þdm. á meira máli um þetta efni, en ég vil taka það fram. um leið og ég lýk máli mínu, að ég mótmæli því algerlega, að það sé af sérdrægni eða til þess að losna undan eðlilegum og sanngjörnum gjöldum, að ég stend að því að flytja þá till., sem hér er til umr.