16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (3839)

123. mál, endurgreiðsla söluskatts til rithöfunda

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. á þskj. 166 um endurgreiðslu söluskatts til rithöfunda. En till. er þess efnis, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun. Allshn. gerði tilraun til þess að afla umsagna um þetta mál. Það var sent til umsagnar Bandalagi, held ég, að það heiti nú, rithöfunda og þeir sendu eins og vænta mátti mjög jákvæða umsögn um till. Einnig sendum við þetta skattayfirvöldum til umsagnar, ég held til ríkisskattstjóra, ef ég man rétt. Ég hef því miður ekki þessar umsagnir hjá mér. en sú umsögn, sem við fengum þaðan, var fremur óákveðin. Er þó á það bent, að hér kynni að vera á ferðinni eitthvert fordæmi, sem skapaði vanda við innheimtu skatta, sem þó var ekki nánar tilgreint.

Þegar n. fór að taka þessa till. til afgreiðslu, var allmikið um það rætt, hvað gera skyldi og hvernig taka skyldi þessu nýmæli. Meiri hl. var þeirrar skoðunar, að hér væri nokkur vandi á ferðum og réttast mundi vera að hlutaðeigandi rn. öfluðu upplýsinga um þetta mál, áður en Alþ. tæki afstöðu til þess. Þess vegna er það, að meiri hl. hefur gefið út nál. á þskj. 725, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Að athuguðu máli og fengnum umsögnum telur meiri hl. n. hyggilegt, að það viðfangsefni, sem till. fjallar um, komi til sérstakrar athugunar í fjmrn. og menntmrn., áður en Alþ. tekur afstöðu til till., og leggur til, að till. verði vísað til ríkisstj.

Það leiðir af sjálfu sér, að ef þessi till. okkar um að vísa málinu til ríkisstj. yrði samþ., þá mundi náttúrlega ekki till. rn. um þetta liggja fyrir fyrr en á næsta þingi.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð. Það má segja, að þetta sé kannske ekki stórmál, en það hefur nú verið höfð önnur aðferð við þetta hingað til, þ.e. að styrkja rithöfunda með beinni fjárveitingu á fjárlögum. sem hefur farið heldur hækkandi, einkum nú á þessu þingi, sem nú er að ljúka, ef ég man rétt, en þetta er auðvitað hægt að gera á ýmsan hátt. Hins vegar er uppi spurning um það m.a. hvaða fordæmi kynni að felast í þessu efni. Till. er í raun og veru um það, að söluskatturinn, sem lagður er á, á lokastigi hverrar vöru og í þessu tilfelli á bækur, hvort það sé heppilegt að ákveða í einhverju tilfelli, að hann skuli endurgreiddur til þeirra, sem hráefnið framleiða, ef svo mætti segja. Í þessu tilfelli eru það rithöfundarnir, sem framleiða hráefnið. Nú koma þar náttúrlega fleiri við sögu, sem framleiða vöruna. og söluskatturinn er í raun og veru lagður á alla þessa liði. Hann er lagður á hina andlegu vinnu, hann er lagður á prentunina og útgáfuna og allt það, sem til kemur í sambandi við þetta og það efni, sem til þess þarf.

Það er hægt að hugsa sér, að fleiri aðilar, sem framleiða hráefni, kynnu að vilja nota þetta fordæmi til þess að bera fram óskir, sem telja mætti hliðstæðar. Einhvers staðar sá ég því hreyft, í einhverju blaðinu held ég, að bændur fengju nú lágt verð fyrir ull, en hins vegar væru vörur úr íslenzkri ull dýrar vörur, og af þessum vörum er greiddur söluskattur í ríkissjóðinn. Mér sagði bóndi fyrir tveimur eða þremur árum. — það kann að hafa breytzt eitthvað síðan. — að hann hefði í eitt skipti fengið kaupamann til þess að rýja féð og þá með nýtízku rafmagnsklippum. og þegar hann lagði svo ullina inn, þá stóðst það nokkurn veginn á endum. að hann þurfti að borga manninum fyrir að rýja féð með því, sem hann fékk fyrir ullina. Þarna hefði nú verið þörf á að bæta hráefnið upp kannske með einhverju af því, sem fæst hér í búðunum fyrir fallegar og dýrar vörur úr íslenzkri ull. Þetta er nú ofurlítið breytt. Ullin er kannske eitthvað hærri núna. Ég nefni þetta sem dæmi, af því að ég sá um þetta skrifað í gamni eða alvöru og þetta er í raun og veru alveg hliðstætt. Þarna er ullin hráefnið, en í hinu tilfellinu er það hið ritaða mál. Það mætti nefna fleiri dæmi en þetta. Á þetta vil ég aðeins leyfa mér að benda. án þess að við höfum tekið upp röksemdir af þessu tagi í nál., en það getur verið dálítið varhugavert að ætla sér að fara að endurgreiða framleiðendum hráefnis söluskatt af fullunninni vöru, sem unnin er úr hráefninu.

Í till. er nú ekki alveg glöggt, hvernig þessi endurgreiðsla er hugsuð, hvort það er hugsað þannig, að hver rithöfundur fái þann söluskatt, sem innheimtist af þeirri bók. sem hann skrifar, sem auðvitað er eðlilegast, eða þá að þetta ætti að fara í sameiginlegan sjóð, sem svo yrði úthlutað úr síðar, sem mér finnst, að væri nú vafasamara. En ef þetta ætti að renna til hinna einstöku rithöfunda, þá er nú kannske alveg eins einfalt að afnema hreinlega söluskattinn af íslenzkum bókum, sem eru taldar þess eðlis, að það eigi ekki að borga skatta af þeim. og það finnst mér, að væri nú í raun og veru hreinlegri aðferð. Þá er það mál á milli bókaútgefenda og höfundanna, og væntanlega mundu þá höfundar fá sinn hlut eða fá þeim mun hærri ritlaun, sem næmi söluskattinum. sem niður væri felldur. Mér finnst það eðlilegri leið.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál frekar, en komið hefur fram núna, líklega í dag, brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. við þessa till., um að tillgr. orðist á aðra lund, sem einnig mundi koma höfundunum til hagsbóta. Í þeirri till. er ekki heldur tilgreint, hvernig eigi að úthluta þessu fé, hvort hver höfundur eigi að fá sinn söluskatt eða þetta eigi að vera sameiginlegur sjóður, sem úthlutað verði úr. En n. hefur ekki haft ráðrúm til þess að athuga þessa till. Minni hl. n. hefur hins vegar lagt til, að till. verði samþ., og mun gera grein fyrir sínu nál.