16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3845)

123. mál, endurgreiðsla söluskatts til rithöfunda

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það verða nú aðeins nokkrar setningar, sem ég kem til með að segja hér um þetta mál. Ég viðurkenni það, að ég hef ekki haft tök á því að hlusta vel, þegar umr. um þetta var, hef líkast til ekki verið hér viðstaddur, þannig að vel má vera, að það hafi komið fram áður, sem ég hefði viljað um þetta segja. En mér finnst, að þetta sé ágæt till. Það má auðvitað koma launum til rithöfunda fyrir með ýmsu móti, og við höfum nú fengið undanfarin ár og áratugi smjörþefinn af því, hversu vel það hefur tekizt að úthluta svokölluðum listamannalaunum. og þar með eru auðvitað rithöfundar í þeim flokki. Það hefur verið lagt á herðar nokkurra manna að meta það og vega, hvers virði hver rithöfundur sé þjóðfélaginu og draga menn þannig í dilka.

Ef ég skil þessa till. rétt, þá gengur hún út á það að hver maður njóti afrakstursins af sínum hugverkum. þannig að hver fái í sinn hlut þann söluskatt, sem innheimtur er af hans bók, þannig að með þessu móti fengju þeir þá meira, sem hafa unnið þannig, að fólk vill kaupa bækur þeirra. Þetta finnst mér vera ágæt hugmynd. Hitt er svo annað mál, að það kann að verða erfitt að framkvæma þetta. Ég hef ekki haft nein tök á því að setja mig inn í það, hvernig því verði fyrir komið. Þó finnst mér, að það geti engan veginn verið óframkvæmanlegt. engan veginn. Og ég hef nú ekki heyrt frá flm.. hvernig þessi dreifing er hugsuð, en ég vil leyfa mér að skilja till. svona, að það eigi hver að fá endurgreiðslu í hlutfalli við það, sem hans verk hafa selzt og söluskattur hefur innheimzt af. Þetta finnst mér vera a.m.k. til viðbótar þeim rithöfundalaunum, sem tíðkast, nokkur trygging fyrir því, að þeir, sem semja hugverk, sem fólk vill og hefur ánægju af að eignast, beri meira úr býtum en aðrir.

Ég held. að sú brtt., sem hv. 5. þm. Reykv. hefur borið fram, sé heldur til bóta. Hún kveður alveg skýrt á um það, að hér er ekki verið að ráðstafa því fé, sem með fjárlögum á þessu ári hefur verið ráðstafað til annarra hluta, en þarflaust er að vera að teygja lopann um það, þar sem 1. flm. hefur þegar og hv. frsm. minni hl. hefur þegar tjáð sig samþykkan þeirri tillögu.

Mér hefur virzt þess nokkuð gæta hér, að því væri haldið fram, að hér væri um flokkspólitískt mál að ræða. Mig minnir, að ég hafi heyrt lesna forustugrein úr Alþýðublaðinu, þar sem þetta mál er tekið sem dæmi um það, hverjir séu nú raunverulegir umbótamenn og hverjir séu afturhaldssinnaðir, þannig að það séu framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, sem séu dragbítar á allar framfarir og alla menningarstarfsemi, en aftur á móti séu það þm. og fylgismenn annarra flokka, sem haldi uppi merkinu. Það hefur nú komið hér fram, að þetta er auðvitað ekkert flokksmál, en hafi einhverjum dottið það í hug, að allir framsóknarmenn væru á móti þessari till., þá hafa þeir ekki lesið sjálfa till., því að ég bendi bara á það í allri hógværð, að einn af flm. till. er Ingvar Gíslason. hv. 3. þm. Norðurl. e. og hann situr á þingi fyrir Framsfl., hvaða skoðanir sem hann kann að hafa, svoleiðis að ég held, að menn ættu og rithöfundar sérstaklega, algerlega að spara sér það að vera að draga menn í einhverja framfaradilka eða afturhaldsdilka eftir því, hvaða afstöðu þeir halda, að menn hafi til þessa máls. Ég mótmæli því fyrir hönd okkar framsóknarmanna, að við séum nokkrir dragbitar á menningarstarfsemina í landinu.