08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að framlengja þau ákvæði, sem í gildi hafa verið varðandi verðlagsnefnd, níu manna verðlagsnefnd, aðeins með einni minni háttar breytingu. Nú er lagt til, að nefndin verði eins skipuð og hingað til, en það sé hins vegar opið, hvern rn. skipar sem formann nefndarinnar, en í gildandi lögum hafði það verið þannig, að það var ráðuneytisstjórinn í viðskrn., sem var níundi maður í nefndinni. Ástæðurnar til þess, að þetta er sett upp á þessa lund nú, er eindregin ósk hans um að vera ekki alveg bundinn við það að þurfa að vera í þessu starfi, og þó að ekki sé þar með sagt, að hann kunni ekki að verða í því um einhvern tíma, þá þótti rétt að verða við því, að þetta væri opið, að rn. gæti sett annan mann en ráðuneytisstjórann sem oddamann í nefndina, þar sem hann vildi mjög gjarnan vera laus við þetta starf. En að öðru leyti er hér aðeins um framlengingu að ræða, hliðstæða þeirri, sem hér hefur verið gerð í a.m.k. ein tvö ár í röð um starfsemi þessarar nefndar, og þar sem verksviðið fellur úr gildi samkv. lögum um næstu áramót, þá þykir nauðsynlegt að endurnýja þessi ákvæði enn um eitt ár.

Hér er um svo sjálfsagt mál og einfalt að ræða, að ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð, en vil leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn. til athugunar.