18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

277. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er flutt af allshn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að nú sé ráðrúm til þess að kalla n. saman til þess að segja álit sitt á þeirri brtt., sem fram er komin. Þess vegna get ég ekki heldur fyrir hennar hönd sagt neitt um málið. Það, sem ég segi, er því aðeins út frá mínu sjónarmiði sagt.

Ég vil minna á það, að oftar en einu sinni á undanförnum áratugum hafa verið skipaðar nefndir til þess að endurskoða stjórnarskrána og þær hafa jafnan verið skipaðar þannig, að í þeim hafa setið fulltrúar tilnefndir af þingflokkum. Þess vegna hefur mér sýnzt, að það væri ekki vænlegt til árangurs að skipa nýja endurskoðunarnefnd á þennan hátt. Ég tel það því ekki til bóta, sem hér er lagt til, að endurskoðunarnefnd skuli kosin eingöngu af Alþ. Ég tel það ekki til bóta. Hins vegar get ég fyrir mitt leyti vel fallizt á það, að starfstími nefndarinnar sé ekki takmarkaður, svo sem gert er í till. allshn. Ég tel sem sé till., sem fram er komin, ekki til bóta, en eigi að síður er það svo, að ef hún verður samþ., þá mun ég samt fylgja till. um endurskoðun stjórnarskrárinnar með áorðnum breytingum.