08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

119. mál, verðlagsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég lýsi fylgi mínu við þetta frv. Hér er um að ræða staðfestingu á skipan, sem tekin var upp af fyrrv. ríkisstj. í samráði við samtök launþega. Gert var ráð fyrir því, að launþegar ættu fjóra fulltrúa í verðlagsnefnd og atvinnurekendur aðra fjóra, en oddamaður skyldi vera samkv. núgildandi lögum ráðuneytisstjórinn í viðskrn. Ég hef ekkert við það að athuga, að því ákvæði sé breytt, fyrst svo er, sem hæstv. ráðh. hefur skýrt frá, að ráðuneytisstjórinn hefur óskað þess, að það væri ekki lögbundið, að hann skyldi gegna því starfi. Hins vegar hefði ég kosið, að lögin hefðu getað orðið óbreytt áfram, vegna þess að mér er persónulega kunnugt um, af hve frábærri samvizkusemi og heilladrjúgri þekkingu ráðuneytisstjórinn hefur stýrt málefnum verðlagsnefndar. En fyrst það er ósk hæstv. ráðh. og hans, að þetta verði með öðrum hætti, þá sé ég enga ástæðu til annars en fallast á það og samþykki frv., þótt með þessari breytingu sé. En augljóst er, að áfram verður oddamaður í verðlagsnefnd skipaður af ríkisstj. eða viðskrh. og þar með fulltrúi hennar með nákvæmlega sama hætti og ráðuneytisstjórinn var áður fulltrúi ríkisstj. í verðlagsnefnd og oddamaður þar milli fjögurra fulltrúa launþega og fjögurra fulltrúa atvinnurekenda.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að nýlega hafa orðið nokkrar breytingar á kaupgjaldi, og von er á meiri breytingum samkv. þegar gerðum samningum.

Þá þekkingu hef ég og raunar allir, sem láta sig þau mál einhverju skipta, á störfum verðlagsnefndar á undanförnum árum, að fastlega má gera ráð fyrir því, að fulltrúar launþega í verðlagsnefnd óski þess, að atvinnurekendur beri kostnaðaraukann af orðnum og væntanlegum launahækkunum. Hins vegar mun það án efa verða sjónarmið fulltrúa vinnuveitenda í verðlagsnefnd, að þeir eigi að fá uppi borinn aukinn kostnað að einhverju eða öllu leyti. Þannig hefur reynslan verið um skoðanaskipti í verðlagsnefnd á undanförnum árum. Það hefur því fallið í hlut oddamanns, fulltrúa ríkisstj., í mörgum tilvikum að fella úrskurð, þ.e. atkv. hans hefur ráðið.

Viðslíkum viðfangsefnum má tvímælalaust búast alveg á næstunni, og þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi þegar rætt það, hvort hún hugsi sér að gefa væntanlegum fulltrúa sínum fyrirmæli um það, hvernig hann skuli haga atkv. sínu í átökum um þetta efni, og ef svo er, þá hvernig þau fyrirmæli muni verða. Í þessu sambandi vil ég einnig minna á mjög skýlaus og ákveðin ákvæði stjórnarsáttmála ríkisstj. um það að stöðva háskalega verðlagsþróun og hafa hemil á hækkandi verðlagi.

Jafnframt vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort athugað hafi verið og hvort nokkrar niðurstöður liggi fyrir um það, hver áhrif þær kauphækkanir, sem þegar hafa verið ákveðnar og samið hefur verið um, muni hafa á verð landbúnaðarvöru, hvort það muni hækka, og ef svo er, þá hversu mikið og hvenær slíkar hækkanir muni koma til framkvæmda. Ég vona, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að greiða úr þessum spurningum.