17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3876)

165. mál, efni í olíumöl

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vona, að það verði virt mér til hins betri vegar, þótt ég tjái mig um þessa till., sem hér er til umr., þrátt fyrir tengsl mín við það fyrirtæki, sem er það eina, sem á vélar til að blanda olíumöl hér á landi. Ég vil fagna þessari till., sem hér var fylgt úr hlaði áðan, og það er sýnilegt, að á þessu þingi er verulegur áhugi fyrir vegamálum. Mér telst til, að það séu komnar einar fjórar till. fram á þinginu núna, sem allar varða vegamál og uppbyggingu þjóðvegakerfisins.

Efni þessarar till. hefur verið rakið hér af hv. 1. flm. Það er í fyrsta lagi að fela ríkisstj. að stefna að því að fullnýta þær vélar, sem til eru í landinu til að leggja olíumöl á þjóðvegi landsins. Í öðru lagi, að það verði valdir vegakaflar með breytilegum jarðvegi í tilraunaskyni og í þriðja lagi, að gerð verði skipuleg leit að efni og það rannsakað fyrir þessa starfsemi.

Ég held, að segja megi, að tilraunir með olíumöl hafi nú staðið yfir það lengi, að menn ættu að fara að viðurkenna þetta sem fullgilt efni í slitlag á vegi, vel að merkja, þar sem það á við, þar sem umferðarþungi er ekki of mikill. Ég held, að ég megi segja, að olíumöl hafi fyrst verið lögð á götur og vegi í einhverjum mæli árið 1963. Það eru til vegakaflar frá 1965, sem lítið sem ekkert viðhald hafa þurft. Það er reynsla frá 1963 í Garðahreppi og í Kópavogi frá 1965, eins og hér var drepið á áðan.

Það hefur verið lögð olíumöl á vegi, sem eru fyllilega undirbyggðir fyrir hvaða slitlag sem er, og eins hafa verið gerðar tilraunir með að leggja olíumöl á vegi, sem ekki eru undirbyggðir. Við höfum reynslu af slíkum vegi, svo að ég nefni dæmi, Vífilsstaðaveginn í Garðahreppi. Þar var lagt á 1967. Þar er nú umferð þreföld miðað við það, sem olíumöl á að þola, en þar hefur ekkert viðhald verið síðan olíumölin var lögð. Í Kópavogi hefur verið gert mikið að þessu leyti. Árið 1971 eða á s.l. ári var lögð olíumöl á allmarga km, án þess að nokkuð væri undirbyggt, og þetta virðist gefast vel.

Það fyrirtæki, sem á þessar vélar, var stofnað árið 1970 af 12 sveitarfélögum af 15 í Reykjaneskjördæmi auk þriggja verktakafyrirtækja, sem þar eiga hlut í. Tilgangurinn með stofnun þessa fyrirtækis var sá, að sveitarfélögin, sem að því stóðu, gætu verið viss um það, að þau fengju olíumöl afgreidda, en það var aldrei öruggt áður.

Hér hefur verið lýst þeim tækjum, sem til eru, og afkastagetu þeirra, og ég hef þar engu við að bæta. Það er ljóst, að þau afkasta meira en verður notað hér í náinni framtíð, þ.e. um 100 km á ári. Þrátt fyrir þessa afkastagetu var engu að síður ástæða til að kaupa þessi tæki. Þau fengust á mjög góðu verði, en verðmæti þeirra, ef þau væru keypt ný núna, er örugglega nálægt 40 millj. kr.

Það blasa við mörg verkefni fyrir þessi tæki, bæði fyrir sveitarfélögin og aðra aðila, verktaka á vegum Vegagerðar ríkisins og fyrir Vegagerðina sjálfa og ýmis sveitarfélög. T.d. eru nú sveitarfélög á Austurlandi að ganga frá sínum áætlunum, sem eru í stuttu máli þær, að þau bindast samtökum, sveitarfélögin þar, um að fá keypta olíumöl á flesta þéttbýlisstaði fyrir austan. Eins er hreyfing á Vestfjörðum og víðar. Þrátt fyrir þetta má segja, að nýting þessara tækja sé ekki nægileg. en samt, eins og ég sagði áðan, var verjandi að kaupa þau. .

Spurningin, sem mér sýnist liggja hér fyrir, er sú, hvað ríkisvaldið geti gert til þess að tryggja nýtingu þessara tækja, og mér sýnist það nú einfaldlega vera það, að ríkið verji meira fé til vegamála af þeim tekjum, sem það hefur af umferðinni. Það liggja fyrir upplýsingar um, að það eru 4—5 þús. millj., sem hafa farið í annað en vegi af tekjum af umferðinni s.l. 10 ár. Jafnframt gæti ríkisvaldið tekið ákvörðun um það, hvernig að framkvæmdum ætti að standa, og þar á ég fyrst og fremst við það, að ekki verði gerðar of miklar kröfur til undirbyggingar veganna, ef við ætlum að gera eitthvert verulegt átak í þessum efnum. Við getum litið til annarra þjóða og lært af reynslu þeirra, hvernig við eigum að haga okkur í þessum efnum. Svíar hafa langa reynslu af notkun olíumalar og þeir hafa tiltölulega einfalda formúlu fyrir því, hvernig þeir standa að sínum verkum. Ef ákveðinn vegur er ekki á áætlun um endurbyggingu næstu 5—10 árin, þá leggja þeir á hann olíumöl, og mér sýnist, að slík regla gæti mætavel gilt fyrir okkur líka. En þetta fáum við nú tækifæri til að ræða betur, þegar vegáætlunin verður hér til umræðu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Þetta fyrirtæki, sem á þessar vélar, þarf ekki á neinum ríkisstuðningi að halda. Það hefur komizt af án þess, en það er vissulega allra hagur, að tækin, sem til eru í landinu, verði nýtt sem bezt, og þar getur ríkisvaldið að sjálfsögðu stuðlað að.

Ég vil svo aðeins ítreka ánægju mína með þessa till. og þann áhuga, sem fram hefur komið á þessu þingi fyrir vegamálum almennt.