08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forsetl. Ég þarf aðeins að svara þeim fsp., sem hér hafa komið fram. Svör mín eru þau, að ríkisstj. hefur enn þá ekki gefið nein fyrirmæli til fulltrúa síns, sem væntanlega verður í þessari verðlagsnefnd. Þa8 gefur auga leið, þar sem hann hefur enn ekki verið skipaður, og hún hefur ekki tekið neina ákvörðun um það á þessu stigi málsins, hvaða meginregla skuli gilda í sambandi við endurmat á álagningu miðað við þær aðstæður, sem nú hafa komið upp, en aðeins um það, að ákveðið er að sjálfsögðu, að taka til endurskoðunar, svo sem lög gera ráð fyrir, nýjar aðstæður í þessum efnum og ákveða nýja verðlagningu í hverju einstöku tilfelli eftir því, sem ástæður þykja til.

Það er enginn vafi á því, að nokkur vandi getur verið að ákveða það, hve hér er raunverulega um mikla útgjaldaaukningu að ræða í hverju einstöku tilfelli. Hvort tveggja er það, að kjarabætur þær, sem samþykktar hafa verið, eru þess eðlis, að það liggur ekki eins hreint fyrir og stundum áður að meta það nákvæmlega, hver útgjaldaaukningin mundi vera, og það er líka alveg ljóst, að hún er mjög mismunandi í hinum einstöku greinum, t.d. í sambandi við vinnutímastyttinguna, og því liggur það að sjálfsögðu fyrir að reyna að gera sér grein fyrir þessu, og það verður að sjálfsögðu gert fyrst og fremst í verðlagsnefndinni, sem á um þessi mál að fjalla, en svo kemur auðvitað ríkisstj. til með að fjalla um það nánar í sambandi við sinn fulltrúa, hver afstaða hennar kann að verða í þeim tilvikum, þar sem ekki getur orðið um samkomulag á miili aðila að ræða.

Mér eru vel ljós ákvæði stjórnarsáttmálans í þessum efnum, og það verður auðvitað reynt að standa gegn öllum óeðlilegum eða óþörfum verðhækkunum, en hins vegar hefur það komið hér skýrt fram í umr. á Alþ. og á opinberum vettvangi, að ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, að slíkar launabreytingar sem nú hafa verið samþykktar hljóta að koma fram í ýmsum greinum í verðlagi að meira eða minna leyti, allt eftir ástæðum.

Um það atriði, hvaða áhrif þessar launabreytingar muni hafa á verðlagningu landbúnaðarafurða, get ég heldur ekki sagt. Það hefur enn ekki farið fram mat á því, hvað hér yrði um miklar kjarabætur í rauninni að ræða. Þegar það mál verður metið, verður síðan að meta, hvað teljast skuli sanngjörn og hliðstæð kjarabót á launalið í verðlagningu landbúnaðarafurða. Þetta eru verkefni, sem liggja fyrir, en um þetta hefur ekki verið tekin nein afstaða á þessu stigi málsins. Ég get því miður ekki upplýst frekar um þessi atriði, sem hér hefur verið spurt um, vegna þess að þau eru nú í athugun, en ákvarðanir hafa ekki verið teknar á þessu stigi.