08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

119. mál, verðlagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér kemur það ekki á óvart, þó að hæstv. viðskrh. hafi ekki auðveldlega getað svarað þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, og það mun áreiðanlega vefjast meira en lítið fyrir þeim mönnum, sem um þessi mál eiga að fjalla, að svara þeim í framkvæmdinni á næstunni.

Um þetta frv. vil ég að öðru leyti segja það, að skipun verðlagsnefndar, sem hér er verið að framlengja með nokkrum breytingum, var ætíð hugsuð til bráðabirgða, og okkur sjálfstæðismönnum var fullkomlega ljóst, að þetta var mesti óburður. Á þessu máli þurfti að taka á allt annan veg, og það var unnið að því að hálfu fyrrv. ríkisstj. að endurskoða þessi verðlagsmál og verðgæzlumál í landinu frá rótum og reyna að skipa þeim málum með skaplegri hætti og í svipuðum dúr eins og kunnugt var, að tíðkaðist hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum með miklu betri árangri, þá fyrst og fremst til þess að koma á skaplegri verzlunar- og viðskiptaháttum hér, sem yrði öllum til góðs, bæði verzlunarstéttinni og neytendunum í landinu í heild. En það fór sem fór, og ég skal ekki rekja hér, að tilraunir til þess að koma þessum málum í skaplegra horf mistókust á sínum tíma hjá fyrrv. ríkisstj. En hún vann þó áfram að athugunum á áframhaldandi endurbótum, þó að henni entist ekki aldur til þess að koma þeim inn í þingið.

Við sjálfstæðismenn höfum unnið að því að reyna að koma þessum málum í skaplegra horf og munum sæta fyrsta tækifæri til þess, sem okkur gefst, og við munum e.t.v. síðar á þessu þingi bera fram tillögur, sem hér að lúta og kynnu að móta einhverja áfanga í þessu máli, þó að við vitum, að eins og nú er háttað pólitískum völdum hér í þingi, er ekki líklegt, að við komumst að leiðarenda með þeim hætti, sem við teljum, að bráðnauðsynlegt sé og yrði öllum almenningi í landinu til góðs og mundi leiða til lægra verðlags almennt í landinu. Það verðlagseftirlit, verðgæzla og þetta kerfi, sem við búum við, er orðið margsinnis úrelt og leiðir í mýmörgum tilfellum til þess, að almenningur þarf að borga miklu hærra vöruverð en ella mundi verða.

Út í þetta skal ég ekki meira fara nú, en ég vil segja það, að þessi framlenging er auðvitað stórum verri og sú breyting, sem hér er gerð, heldur en áður var, því að mér dettur ekki í hug, að núv. hæstv. ríkisstj. finni hlutlausan oddamann á við ráðuneytisstjórann í viðskrn., og mæli ég það af tvennu, af teynslu minni af starfsháttum þessa ágæta embættismanns, svo og einnig af því hugarfari, sem hefur ekki farið neitt leynt hjá núv. hæstv. ríkisstj., sem ég hef ekki mikla trú á og miklu minna traust á en hæfileikum ráðuneytisstjórans í viðskrn. Það getur vel verið, að hæstv. stjórn takist að finna einhvern góðan mann, ef hún hefur þá einhvern áhuga á því að finna góðan mann. Er það þá ekki einn pólitískur dyndill í viðbót? Það gildir um marga, sem þegar er búið að setja á jötuna, og margir eiga eftir að koma, sem m.a. sýnir sig í því frv., sem nú er til meðferðar í hv. Ed., um þann óskapnað, sem kallaður er Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ég geri ráð fyrir því, að við munum láta þetta frv. lönd og leið. Að sjálfsögðu er ekki hægt að fella það eins og er, því að eitthvað verður að halda áfram, en við munum að sjálfsögðu ekki greiða fyrir því, að það fái framgang í þinginu, við sjáifstæðismenn.