17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

216. mál, alþjóðlegur varaflugvöllur á Norðurlandi

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. á þskj. 439 um gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Norðurlandi, og vil ég leyfa mér að lesa till. með leyfi forseta. Hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á gagnsemi þess og hagkvæmni, að gerður verði alþjóðlegur varaflugvöllur á Norðurlandi, og heimilar ríkisstj. að hefja undirbúning fjármagnsútvegunar og framkvæmda, ef niðurstöður könnunarinnar verða jákvæðar.“

Um alllangt skeið hefur verið um það rætt manna á meðal, m.a. hjá íslenzku flugfélögunum, að nauðsyn væri á bættri aðstöðu til flugþjónustu í landinu og þessi bætta aðstaða gæti m.a. komið fram, ef gerður yrði varaflugvöllur fyrir millilandaflug utan Reykjavíkursvæðisins. Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir um það, hvar slíkur varaflugvöllur yrði bezt staðsettur, og þess vegna er það, að hér er farið fram á, að það verði kannað hvað Norðurlandi viðkemur. Sá áhugi, sem hefur verið fyrir gerð slíks flugvallar, hefur beinzt einkum að tveim þáttum, annars vegar og raunar fyrst og fremst að auknu öryggi millilandaflugsins, bæði þess millilandaflugs, sem framkvæmt er af íslenzkum aðilum og þess almenna millilandaflugs, sem fram fer hér yfir norðanverðu Atlantshafi. Í öðru lagi hafa verið uppi hugmyndir um það, að gerð varavallar á norðanverðu landinu mundi auka hina almennu flugumferð um Keflavíkurflugvöll og bæta þannig afkomumöguleika þess vallar. Loks er það ekki sízt nú á síðustu árum, að opnazt hafa augu manna fyrir því, að bættar flugsamgöngur við Norðurland mundu auka á jafnvægi í ferðamálum og gera hlut norðanverðs landsins sterkari gagnvart Suðurlandi í hinni almennu ferðamálaþjónustu.

Eins og mönnum er sjálfsagt yfirleitt kunnugt, þá er nú í undirhúningi athugun á því, hvernig bezt verði fjármögnuð ferðamannaþjónusta í landinu. Þessi athugun fer fram með stuðningi Sameinuðu þjóðanna, sem hafa veitt óafturkræft fé til athugana í þessu efni. Ég tel mikilvægt, að samgöngumál og þá ekki sízt flugsamgöngumál verði einmitt athuguð í sambandi við þessa könnun á fjárfestingu í ferðamálum almennt. Það er gert ráð fyrir því, að þessi athugun nái einkum til fjögurra þátta ferðamála. þ.e. til byggingar heilsuhæla. til ráðstefnuþjónustu, veiðimála og vetraríþrótta. Ef væntanlegri uppbyggingu ferðaþjónustu verður dreift um landið. svo sem gera verður ráð fyrir, að hljóti að verða af ýmsum ástæðum, sem óþarft er upp að telja, þá hlýtur það að liggja í augum uppi, að nauðsynlegt er, að samgöngumál og þá ekki sízt flugmál komi inn í þessa athugun.

Það hefur verið, eins og ég sagði áður, nokkuð rætt um gerð flugvallar annars staðar á landinu, en hér á Reykjavíkursvæðinu og hafa ýmsir staðir verið nefndir í því sambandi. Mun það vafalaust gilda um þetta eins og margt annað, að hverjum sýnist sinn fugl fagur í þessu efni. Ég get ekki neitað því, að einn af þeim stöðum, sem mér finnst mikil nauðsyn, að kannað verði, hvort heppilegt sé að byggja flugvöll á, er Aðaldalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar er þegar flugvöllur fyrir innanlandsflug. og mér er kunnugt um, að ýmsir þeir, sem sérfróðir eru um flugmál, hafa litið til aðstöðunnar þar sem líklegrar aðstöðu fyrir millilandaflug. Ástæðurnar fyrir því að þessi staður hefur mjög komið til greina, eru m.a. þær, að þar er flugvallargerðin sjálf talin auðveld. Þar er flugvöllur gerður á hrauni, sem er þannig, að það er tiltölulega auðvelt að jafna það, án þess þó að undirstaðan sé of veik, og gott um aðdrætti þess efnis, sem þarf að bera ofan í flugbraut. Auk þess eru veðurskilyrði þarna, eftir því sem næst verður komizt, mjög svipuð því, sem þau eru annarsstaðar um norðan— og norðaustanvert landið, þar sem helzt er gert ráð fyrir, að slíkur flugvöllur kæmi.

Þá finnst mér rétt í þessu sambandi að benda á það, að verði slíkur varaflugvöllur fyrir millilandaflug gerður, þá er líklegt, að öðrum þræði verði hann notaður í sambandi við hina almennu ferðamannaþjónustu og þá e.t.v. á þann veg. að ferðir erlendra ferðamanna yrðu skipulagðar. annars vegar komustaðurinn hér á Suðvesturlandi, brottfararstaður í öðrum landshluta eða öfugt, og eins er líklegt, að hópferðir verði skipulagðar til flugvallar, sem kynni að verða gerður t.d. í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Og ástæðan til þess, að ég álit, að slíkur flugvöllur væri mikilvægur í sambandi við ferðamál, er m.a. sú, að einmitt á þessu svæði í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði eru ýmsir staðir, sem mjög eru eftirsóttir af erlendum ferðamönnum og full ástæða til að ætla, að grundvöllur sé fyrir skipulagningu á ferðum erlendis frá til þessa landshluta sérstaklega.

Á þessu svæði er nokkur vísir að ferðamannaþjónustu. Þar hafa verið byggð nokkur hótel. önnur eru í byggingu. og ferðamannastraumur á þetta landssvæði er mikill nú þegar, bæði erlendra ferðamanna og innlendra. Með bættum samgöngum yrði flugvöllur í Aðaldal tiltölulega miðsvæðis fyrir þá þjónustu. sem hægt er að veita ferðamönnum, bæði í Þingeyjarsýslu og við Eyjafjörð. Eins og er, mun að vísu vera um 11/2 klst. akstur frá þessum flugvelli til Akureyrar, en með þeim vegabótum. sem fyrirhugaðar eru á þessari leið, þá munu í fyrsta lagi samgöngur þangað verða miklu öruggari en verið hefur allan ársins hring, og einnig mun leiðin styttast og verða fljótfarnari.

Ég ætla ekki að tefja hér tímann með langri ræðu um þetta mál. Ég vil endurtaka það og benda enn á, að hér er farið fram á könnun aðstæðna og þá sérstaklega með úlliti til gagnsemi og hagkvæmni. Slíka könnun tel ég sjálfsagt að gera. Ég álit, að könnunin sem slík hljóti að verða einn liður í því að gera sér grein fyrir því, hvernig við byggjum upp atvinnulifið í landinu og undir þessum sérstöku kringumstæðum þann þátt, sem að ferðamálum snýr. Ég tel það mikla og tímabæra nauðsyn, að heildaryfirlit fáist yfir framtíðarskipulagningu ferðamála okkar og heildaryfirlit jafnframt yfir framtíðarskipulagningu samgöngumála okkar innanlands og við önnur lönd. Mér sýnist nauðsynlegt. að það verði enn fremur kannað, hvernig og hvort sé auðvelt að fá erlendis frá fjármagn til slíkra framkvæmda. sem hér er farið fram á, að verði kannaður grundvöllur fyrir. Það kann vel að vera, að af öryggisástæðum þyki mikilvægt að fjármagna slíka framkvæmd, sem hér er talað um og erlendir aðilar og á ég þar fyrst og fremst við Alþjóðlegu flugmálastofnunina og þær stofnanir, sem taka tillit til álits hennar, veittu hugsanlega fjármagn til slíkra framkvæmda sem þessara, að einhverju leyti e.t.v. óafturkræft, en annars sem lán.

Um kostnað við flugvallargerð, ef fram færi í Aðaldal, get ég auðvitað ekki nefnt neinar tölur, en eins og ég gat um áðan, er talið, að undirbygging og gerð sjálfrar flugbrautarinnar mundi verða þar sérstaklega hagkvæm fjárhagslega.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta að sinni. Ég vil leyfa mér að fara fram á, að till. þessari verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og til allshn. Ég læt svo máli mínu lokið.