11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

216. mál, alþjóðlegur varaflugvöllur á Norðurlandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Við eigum nokkrir þm. brtt. við þessa þáltill., og hún fjallar um, að tillgr. breytist þannig, að skorað verði á hæstv. ríkisstj. að láta fara fram könnun á því, hvar hagkvæmast sé að gera varaflugvöll fyrir millilandaflug. Niðurstöður þessarar könnunar verði svo lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má. Við erum að sjálfsögðu fylgjandi því, að athugun fari fram á því flugvallarstæði, sem nefnt er í þáltill., eins og hún liggur fyrir. Við álitum, að nauðsynlegt sé, að það fari einnig fram könnun á öðrum möguleikum, sem kunni að vera fyrir hendi og það sé skynsamlegra fyrir Alþ. að álykta í þá stefnu, að ríkisstj. láti fara fram könnun á öllum þeim leiðum, sem þarna koma til greina, og gerður verði samanburður á þeim. Vonumst við eftir því, að hv. n. vilji taka þetta viðhorf okkar til skoðunar. Því er ekki að leyna, að það eru þm. af Austurlandi, sem flytja þessa þáltill. og þá með það fyrir augum m.a. að skoðað verði, hvort til greina komi, að slíkur flugvöllur ætti að vera á Austurlandi, á Egilsstöðum, en við viljum, að í þessu efni ráði það, sem bezt verður talið fyrir heildina.