11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

216. mál, alþjóðlegur varaflugvöllur á Norðurlandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs vegna þess, að sá hv. varaþm., sem flutti þessa till. og þá sat hér á þingi sem varamaður minn, er nú ekki hér. Það er að sjálfsögðu frá mínu sjónarmiði eðlilegt, að ýmsir möguleikar séu athugaðir, en ég hygg, að flm. till. hafi nú einkum haft í huga þann stað, sem mest hefur verið rætt um sem varaflugvallarstæði fyrir millilandaflug. sem er Aðaldalur í Suður-Þingeyjarsýslu. En á þeim stað er talið, að sé mjög hentugt flugvallarstæði vegna þess að þar er þannig jarðlag. Flugvöllurinn í Aðaldal er á hrauni, föstum grundvelli, og aðstaða til aðflugs er talin mjög góð. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, því að þetta mun nú einkum hafa vakað fyrir hv. flm. till. og það hefur oft komið fram á Norðurlandi í umræðum um þessi mál og einnig umræðum hér syðra, þar sem málin hafa verið rædd af sérfróðum mönnum, að þessi staður muni vera e.t.v. öðrum stöðum hentugri í landinu sem staður fyrir varaflugvöll fyrir alþjóðaflug. Annað ætla ég ekki um þetta að segja. En ef þetta fer til n., sem ég á sæti í, sem flm. mun hafa lagt til, þá mun hún að sjálfsögðu athuga þá brtt. sem hefur komið fram.