08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

119. mál, verðlagsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar einvörðungu um skipan verðlagsnefndar, en ekki um verðlagseftirlitskerfið sjálft. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég hefði kosið, að frv. væri algjörlega samhljóða gildandi lögum og að ráðuneytisstjórinn í viðskrn. yrði áfram oddamaður í verðlagsnefnd. Ég leyfi mér að láta uppi ósk um, að ríkisstj. skipi hann, þótt henni sé það ekki skylt, ef þetta frv. verður að lögum, því að betur, hygg ég, að hlutleysi og þekking í afgreiðslu mála í þessum efnum verði ekki tryggð.

Um verðlagseftirlitskerfið, verðlagslögin í heild, er það kunnara en frá þurfi að segja, að ég tel gildandi lög í þeim efnum vera meingölluð og mjög úrelt, en um það mál fjallar frv. ekki, svo að ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál frekar.

En ég hlýt að segja, að ég er ekki ánægður með svör hæstv. ráðh. við spurningum mínum. Ég get að vísu skilið það, að hann geti ekki skýrt frá fyrirmælum til embættismanns eða til fulltrúa ríkisstj., sem enn hefur ekki verið skipaður, en hitt urðu mér vonbrigði, að ríkisstj. skuli ekki enn í alvöru hafa rætt þau grundvallarvandamál, sem hér eru augljóslega á ferðinni, að hann skuli ekki geta talað með ákveðnari hætti um það, hvaða stefnu ríkisstj. muni fylgja í þessum efnum, með sérstöku tilliti til mjög ákveðinna ummæla um verðlagsmál í málefnasamningi ríkisstj. Þó hlýt ég að vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. gaf í skyn, ég vil nú ekki segja, bjó þingheim og þar með landslýð allan undir það, að í kjölfar þeirra samninga, sem nýlega hafa verið gerðir, muni sigla verulegar verðhækkanir. Ég gat ekki skilið lausleg ummæli ráðh. öðruvísi en þannig. Ég hef enga löngun til þess að rangtúlka þau, ekki hina allra minnstu, en ég hygg, að þau verði ekki skilin öðruvísi en þannig, að hann hafi með þeim verið að búa landslýð undir það, að innlent vöruverð almennt og landbúnaðarverð líka muni hækka, misjafnlega mikið þó að vísu, í kjölfar þeirra samninga, sem gerðir hafa verið. Ef ummæli hans e'u rétt skilin með þessum hætti, og það hygg ég vera, þá hygg ég, að það hljóti að vekja ugg í brjóstum margra þeirra, sem hafa bundið miklar og góðar vonir við farsæla lausn síðustu kjaradeilu. En reynslan mun sýna, hver niðurstaðan verður í þessum efnum, en ummæli ráðh. hljóta að vekja nokkurn ugg í brjósti þeirra manna, sem vilja stuðla að því, að verðlag á Íslandi haldist sem stöðugast og kaupmáttur kaupgjaldsins sem traustastur.