16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3900)

216. mál, alþjóðlegur varaflugvöllur á Norðurlandi

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. á þskj. 439, gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Norðurlandi, og leitað um hana umsagnar flugmálastjóra og flugfélaganna, sem annast millilandaflug, Flugfélags Íslands og Loftleiða. Nefndin hefur einnig kynnt sér brtt., sem fyrir lá á þskj. 511 frá nokkrum hv. þm. Niðurstaðan er sú, að n. leggur til, að till. verði samþ. með nokkurri breytingu á aðaltillögugreininni, þannig að tillögugreinin orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á því, hverja nauðsyn beri til og hvar hagkvæmast sé að gera hér á landi varaflugvöll fyrir millilandaflug. Niðurstöður könnunarinnar verði lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má.“ Og að fyrirsögnin verði: „Till. til þál. um gerð alþjóðlegs varaflugvallar hér á landi.“

Nefndin er sammála um þessa afgreiðslu málsins.