04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (3909)

27. mál, fóstureyðingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Af því að þetta mikilvæga mál hefur hér borið á góma á hinu háa Alþingi, langar mig til að leggja örfá orð í belg. Þessi till. er að vísu ástæðulitil, þar eð upplýst er, að nefnd á vegum rn. vinnur nú að endurskoðun þessara laga, sem um fóstureyðingar fjalla. Það eru nú í raun og veru tvenn lög, lög um fóstureyðingar og lög um, að unnt sé að koma í veg fyrir í viðeigandi tilfellum, að fólk geti aukið kyn sitt. Ákvæði um fóstureyðingar eru í hvorum tveggja í þessum lögum. Nú er það svo, að oft er á það bent, að full ástæða sé til þess, að í lögunum sé rýmkuð heimild til að fá framkvæmda fóstureyðingu af félagslegum ástæðum. Margir halda, að þessi heimild sé mjög lítil og jafnvel ekki fyrir hendi í íslenzkum lögum, en hún er þó í íslenzku fóstureyðingarlögunum. Þar er heimilt að taka tillit til félagslegra ástæðna móðurinnar, barnafjölda, efnahags og auk þeirra annarra ástæðna, sem viðurkenndar eru í lögunum, heilsufarsástæðna, siðferðilegra ástæðna o.fl., sem kemur til. Það, sem ég vildi láta hér koma fram og mér finnst verulegu máli skipta í þessu tilliti er, að þær heimildir, sem nú eru þegar fyrir hendi, séu í raun og veru framkvæmanlegar. Því er stundum haldið fram. að heimild til fóstureyðingar sé mjög illframkvæmanleg á okkar landi, og virðist mér það vera af því, að kona, sem hefur í höndum leyfi til fóstureyðingar, getur átt í erfiðleikum með að fá hana framkvæmda. Ég skal ekki segja, hvað hæft er í þessu, en víst er um það, að hvergi er í lögunum lögð nein skylda á lækni eða tiltekna heilbrigðisstofnun til þess að framkvæma fóstureyðingu, sem þegar hefur verið leyfð af þar til bærri nefnd. Þetta atriði finnst mér skipta verulegu máli og þurfi að athuga, hvort ekki sé unnt að koma inn í löggjöfina.

Annars vil ég, fyrst á annað borð er rætt um þetta mál, taka fram, að þótt ég sé fylgjandi því, að heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum sé í lögunum og taka beri tillit til ýmiss konar aðstæðna, heilsufarslegra, andlegra og líkamlegra, þá er ég mótfallin því, að svo nefnd frjáls eða opin heimild til fóstureyðinga sé í íslenzkum lögum. Ég held einmitt, að það sé nauðsynlegt, að heimild til fóstureyðingar sé háð sérstöku leyfi, það þurfi nokkuð fyrir því að hafa að fá leyfi til fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Því að kona, sem verður þess áskynja, að hún er barnshafandi og á í einhverjum félagslegum örðugleikum, sem kannske stundum eru tímabundnir, veit e.t.v. ekki, hvaða fyrirgreiðslu hún getur fengið hjá samfélaginu til uppeldis barns síns, og henni hættir til í örvæntingu sinni að óska þess, að fóstureyðing sé framkvæmd. Og við vitum ekki, hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir konu, sem lætur framkvæma slíka aðgerð, að hugsa til þess eftir á, að hún hafi látið eyða því lífi, sem með henni hefur kviknað, og eiga e.t.v. ekki kost á því síðar að eignast annað barn. Þetta er, að mér finnst, mjög alvarlegur hlutur. Eftir því sem ég hef leitað mér upplýsinga um í heilbrmrn., þá held ég, að í gangi sé mjög merkileg rannsókn einmitt til þess að renna stoðum undir það, hversu víðtæka heimild þarna getur verið um að ræða. Mér skilst, að fram fari athugun á afdrifum og ýmsum atriðum í lífi þeirra kvenna, sem þegar hafa fengið leyfi til og látið framkvæma fóstureyðingu. Slík rannsókn hlýtur að taka alllangan tíma, virðist mér. Við höfum svo litla reynslu við að styðjast í þessum efnum. Ég vil sérstaklega taka fram, að ég óttast það fyrirkomulag, sem margir eru hrifnir af og tíðkast sums staðar með öðrum þjóðum, að heimild til fóstureyðingar sé mjög rúm og jafnvel alveg opin. Segja má, að það hafi ekki verið svo lengi í gildi slík heimild meðal annarra þjóða, að við vitum nægilega, til hvaða þróunar það er að leiða og getur leitt. Þess vegna hygg ég og vil leggja áherzlu á, að við förum mjög varlega í þessum efnum.