08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er nú út af fyrir sig býsna athyglisvert að heyra hér tvo fyrrv. ráðh. tala um ástandið í verðlags- og viðskiptamálum þjóðarinnar á þá lund, sem menn hafa heyrt hér. Annar segir, nýkominn frá því að stjórna þessu, að þetta sé allt saman meingallað og úrelt, en hinn segir, að Sjálfstfl. hafi unað illa þessu ástandi, en vilji ekki una við það lengur. Það er nú mál út af fyrir sig, að þeir skuli hafa stjórnað þessu á þá lund, en búist nú fyrst við verulegum breytingum, þegar þeir eru farnir frá.

Ég get hins vegar tekið undir með þeim að því leyti, að ég tel margt meingallað í þessu kerfi. En hins vegar er það mín skoðun, að það væri alveg fráleitt að afnema það, sem þó er eftir hér af verðlagseftirliti í landinu, og alveg sérstaklega teldi ég, að það væri háskalegt áslíkum tímum eins og nú ganga yfir hjá okkur.

Varðandi það, sem hér hefur verið sagt um framlengingu ákvæðanna í gildandi lögum um verðlagsnefnd, og var jafnvel látið liggja að því, að það sé einhver stórbreyting, að þar er gert ráð fyrir því, að fulltrúi ríkisstj. kunni að verða annar maður en ráðuneytisstjórinn í viðskrn., sem óskar eftir því að vera laus við starfið, vil ég minna á það eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði hér í sinni ræðu, — og hann er fyrrv. viðskrh. og þekkir því þessi mál alveg út og inn, — að hér var um að ræða fulltrúa ríkisstj., sem var að framkvæma stefnu hennar, og auðvitað á hennar ábyrgð, og varð hann að gera margt annað en það, sem hann hefur kannske sjálfur viljað gera, af því að hann varð að fara eftir stefnu ríkisstj., og er þá kannske ekki ýkja mikill munur á því, hvort það er, við skulum segja, deildarstjóri, fulltrúi eða ráðuneytisstjóri úr rn., sem kynni að sitja í þessari nefnd á, ábyrgð ríkisstj. En það er nú ekkert útséð um það enn þá, hvort ráðuneytisstjórinn fæst til þess að vera í nefndinni, og engin hugmynd er það frá minni hálfu, að hann verði ekki áfram í þessu starfi. Hins vegar er mér það alveg lóst, að hann hefur miklum störfum að gegna og mörgum, og það er engan veginn þægilegt, að hann sé bundinn í þessu starfi, og ég get vel skilið sjónarmið hans. Hér er því auðvitað ekki verið að leggja til neina sérstaka breytingu í þessum efnum nema þá, sem verður að teljast minni háttar.

Það er alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sag8i, að hér er í rauninni aðeins um að ræða verðlagsnefnd, en ekki breytingu á hinum almennu lagaákvæðum varðandi verðlagseftirlit og verðlagsmál. Og hvort sem að því verður horfið eða ekki að breyta skipun verðlagsnefndar einhvern tímann í framtíðinni, um það get ég ekkert sagt, þá er það skoðun ríkisstj. nú, að ekki komi til mála að raska því samkomulagi, sem enn er byggt á milli þeirra aðila, sem þarna eiga fulltrúa í verðlagsnefnd, og það sé rétt að halda því áfram, á meðan ekki eru gerðar einhverjar meiri háttar breytingar á kerfinu sem heild.

Þá lýsti hv. 7. þm. Reykv. því hér yfir, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með svör mín við þeim spurningum, sem hann lagði hér fyrir. En ég held, að svör mín hafi verið fullkomlega eðlileg. Það væri í rauninni alveg fjarstætt, að ríkisstj. gæti farið að gefa út einhver fyrirmæli á þessu stigi málsins um beint efni þess, hvernig ætti að verðleggja vörur nú á næstunni, þegar ekki hefur einu sinni verið gengið frá kjarasamningum til fulls, og þeir aðilar, sem með þessi mál hafa að gera, eru ekki búnir að skila af sér enn. Og það er auðvitað enginn vafi á því, að mjög mikilvæg atriði í þessum kjarasamningum eru þess eðlis, að það er nokkur vandi að meta þau til útgjalda. Og ég hygg, að allir viðurkenni það, að t.d. stytting vinnuvikunnar er mjög mismunandi til útgjalda l hinum ýmsu tilvikum.

En stefnan, sem að sjálfsögðu verður fylgt og hefur komið fram af hálfu ríkisstj. við aðila í þessum efnum, er sú, sem við erum enn bundnir af í þeim verðlagslögum, sem við störfum eftir, og það er, að í meginatriðum á að ákveða verðlagningu þannig, að eðlilega rekin viðskiptastofnun hafi starfsgrundvöll. Það verður að taka tillit til þeirra aðstæðna, sem eru fyrir hendi á hverjum tíma. Eins og útgjöld geta hækkað að hækkuðum launum, geta vítanlega aðrir þættir spílað hér inn í, sem verka aftur til lækkunar, og þetta ber að meta, þegar ákvörðun verður tekin um starfsgrundvöll í þessum efnum.

Ég vil svo segja það í tilefni af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér, að það er rangt, að það væri hægt að skilja orð mín svo, að ég hafi verið hér að búa landslýð undir það, að nú stæðu fyrir dyrum verulegar verðhækkanir. Ekkert slíkt hef ég sagt. Ég hef aðeins sagt það, sem hér hefur verið margsagt áður í umr. um þessi mál, áður en endanlega var samið, að það megi að sjálfsögðu búast við því, að eftir allverulegar kauphækkanir kunni að verða einhverjar verðhækkanir, en við vítum ekki, hversu miklar þær verða. Það ber vitanlega að athuga það, eins og ég segi, í hverju einstöku tilfelli. Mín orð hafa ekki gefið neitt tilefni til þess að hægt sé að segja, að menn séu nú með ugg í brjósti í tilefni af því, sem að ég hef sagt.

Ég ætla, að ýmsir aðrir hafi látið sterkari orð falla og meiri en ég l þessum umr. um það, að nú standi fyrir dyrum stórkostlegar verðhækkanir. Það getur hver og einn getið sér til þess, sem honum sýnist í þessum efnum, en um það, að fyrir dyrum standi nú stórkostlegar verðhækkanir, hef ég ekkert sagt. Ég hef aðeins sagt það, að beiðni um verðlagshækkanir verða teknar fyrir og athugaðar með það að meginmarkmiði af hálfu ríkisstj. að halda verðlagi eins mikið niðri og tök eru á.

Ég hélt nú satt að segja og á alveg von á því, að við í ríkisstj. eigum eftir að heyra það frá þeim, sem eru í stjórnarandstöðu miklu fremur, að við höfum verið of harðhentir eða of skilningslitlir við þá, sem sækja um heimildir til hækkunar, en það, að búast megi við, að við sleppum nú öllu lausu og séum sérstaklega hættulegir í þeim efnum að leyfa allar verðhækkanir. En reynslan ein verður auðvitað að skera úr um það, hvort við komum til með að leyfa meiri verðhækkanir en t.d. hafa verið leyfðar af fyrrv. ríkisstj. við eitthvað svipaðar aðstæður. Reynslan á eftir að skera úr um það.

Ég endurtek svo það, sem ég sagði áður, að ég get ekki gefið frekari upplýsingar um þessi mál en ég hef gert. Þau eru núna á fyrsta athugunarstigi. Það liggja ekki einu sinni fyrir beiðnir frá hinum einstöku aðilum um verðhækkanir enn þá. Eins og venja er til, verða þeir ábyggilega fyrstir á ferðinni, sem framselja vinnu og hafa aðeins álagningu á þau millistörf, að þeir útvega menn í vinnu og selja þá vinnu auðvitað eftir hinum nýju kaupgjaldstöxtum.

Vinnuvikustyttingin kemur ekki í gildi fyrr en um áramót, og því er alveg augljóst, að það er ekki ýkja margt, sem kallar þar á breytingar nema þá í sambandi við útselda vinnu fyrr en upp úr því, að sá útgjaldaliður kemur í framkvæmd. Það getur því varla verið neitt undrunarefni, þó að það liggi ekki fyrir á þessu stigi, að hægt sé að upplýsa um það, hvaða álagning verði t.d. almennt leyfð eða annaðslíkt, eða að hægt sé að draga af því einhverja ályktun um það, hvað landbúnaðarvörur mundu hækka mikið í verði. Það er engin aðstaða til þess að gefa upplýsingar um slíkt á þessu stigi málsins.