08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

119. mál, verðlagsmál

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við þær hliðarumr., sem hér hafa orðið um þetta litla frv., sem ég lýsi fylgi mínu víð.

En ef undrazt er um það, að ekki væru gefin svör við tilteknum spurningum hv. 7. þm. Reykv., held ég nú, að það sé ósköp augljóst mál, að þessum spurningum er ekki hægt að svara, eins og á stendur. Í fyrsta lagi vegna þess, sem hæstv. viðskrh. tók fram, að einn meginþáttur þeirra samninga, sem nú fóru fram, var vinnutímastyttingin, en hún tekur ekki gildi fyrr en um áramót. Í öðru lagi er kjarasamningum verzlunarfólks, sem hvað helzt hafa veruleg áhrif a.m.k. á álagningarreglur verzlunarinnar, ekki lokið. Kaupgjald verzlunarfólks var ekki ákveðið með þessum samningum. Samningsaðilar urðu ásáttir um að vísa þeim efnum til gerðardóms, og úrskurður hans kemur í fyrsta lagi í janúarlok. Hvernig ríkisstj. á að gera sér grein fyrir því í dag, hvað út úr þeim málum kemur, það get ég ekki skilið.

Þegar við stóðum í þessum samningum nú fyrir nokkrum dögum, urðum við fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar þess mjög varir, að atvinnurekendur eða fulltrúar þeirra töldu sig ekki fá þau jákvæðu svör einmitt varðandi álagningarreglur eftir hina nýju samninga, sem þeir óskuðu eftir, mjög fjarri því. Og ég held a.m.k., að það, sem þeir sögðust hafa eftir stjórnvöldum, gæfi ekki neinn byr undir vængi því, sem hér var sagt, að miklar verðhækkanir væru í vændum af völdum samninganna.

Hitt held ég sé svo alveg augljóst mál, að um leið og verkalýðshreyfingin gerir þær kröfur til stjórnvalda, nú eins og áður, við nýja samningagerð, að allt verði gert til þess að halda verðlaginu í skefjum, er okkur ákaflega vel ljóst, að það er ekki framkvæmanlegt í þjóðfélagi okkar, eins og allt er í pottinn búið, að verðlag breytist ekki eitthvað við þessa samninga. Það væri þá mikið breytt frá tíð fyrri stjórnar a.m.k.

Ég held, að samningarnir fyrir hálfu öðru ári síðan hafi ekki gefið tilefni til allra þeirra verðhækkana, sem þá urðu. Það er mitt mat og var þá líka, en ég vonast til þess, að ríkisstj. reyni nú að halda þessum málum í eins þröngum skorðum og mögulegt er, en það er sjálfsagt að fara ekki að halda þeim í svo föstum skorðum, að til stöðvunar leiði, kannske í einstökum greinum, og það er ekki það, sem verkalýðshreyfingin óskar, en hins vegar, að aðhald verði eins sterkt og mögulegt er. Og það þekkjum við frá fyrri tímum og sjálfsagt ekki sízt hv. 7. þm. Reykv., að á svona breytingatímum, þegar verðlag verður að breytast eitthvað, vill gjarnan fylgja með ýmislegt annað, þar sem notað er þá þetta tilefni til þess að hækka vörur og þjónustu.