16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3921)

47. mál, málefni barna og unglinga

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil nú fagna flestu því, sem hv. þm. hafði um þessa þáltill. okkar að segja. Ég horfi gjarnan yfir það, sem ég tel aukaatriði í hennar máli, eins og upphaf ræðunnar, að við Alþfl.menn værum sérstakir kjarkmenn. Ég þakka þá yfirlýsingu og vona, að þm. verði ekki fyrir vonbrigðum í þeim efnum. á meðan hún á samleið með okkur hér á þingi, en ýmis önnur atriði mundi ég vilja gera að umtalsefni.

Það virðist vera föst uppistaða hér í ræðum hv. stjórnarliða að benda á loforðalistann,—ég nefni hann einu sinni því réttnefni, — sem núv. stjórnarflokkar gerðu á milli sín, þegar þeir settust að völdum, þar megi finna einhver orð um þetta efni. Í umr. um annað mál hér á undan hefur verið gerð grein fyrir skoðun minni á því, og hún er óbreytt í þessu tilefni. Þó að með loðnu orðalagi megi finna einhverja slíka hluti nefnda í þessum loforðalista, þá hefur það ekki sannfært mig um. að ríkisstj. geri eitthvað raunhæft í þessum efnum. Ég hef nefnilega átt samleið með þeim stjórnmálaflokkum. sem nú sitja á hv. Alþ., á undanförnum árum, og ég hef ósköp vel séð, hvernig þeir hafa staðið að málefnatilbúnaði þar. Þeir hafa líka allir átt sæti í öðrum ríkisstj. á undan og haft aðstöðu til að koma fram málum með meirihlutavaldi á Alþ. En það hefur staðið á þeim að framkvæma það, þegar þeir hafa valdaaðstöðuna.

Nú fer það ekkert á milli mála meðal okkar þm., að menn eru kannske svona heldur frjálsari í samningu till. og frv., þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Það er a.m.k. reynsla okkar frá síðasta kjörtímabili og það var ekkert sjaldan, sem það kom fyrir, að þegar ríkisstj. eða tiltekin rn. voru að ljúka undirbúningi mála, þá birtist hér á hv. Alþ. till. hliðstæðs efnis, þannig að ég ítreka það, sem ég sagði í minni ræðu, að vísu um nokkuð óskylt mál. hér áðan, að þessi loforðalisti, hann fær okkur ekki til að leggja upp laupana og hætta að gegna okkar þingstörfum. Þó að slíkar till. sem þessi væru ekki til annars en að herða á núv. ríkisstj. að framkvæma þessi loðnu loforð sín, þá hefði till. þegar náð þeim árangri, sem til er ætlazt.

Nú hafði þm. ekkert að athuga við þáltill. sjálfa og staðfesti í meginefni máls síns nauðsyn á þessari rannsókn. Hvort það var að kenna fyrrv. vinstri stjórn, síðustu viðreisnarstjórn eða ríkisstj. undanfarinna áratuga, það verður sagan að sanna. Ég held, að okkur færi það bezt að leggja ekki neinn dóm þar á.

En það var ein tiltekin tala, sem þessum kjörkuðu Alþfl.-mönnum var kennt um, sem þm. minntist á. Ég minnist þess ekki frá því að Kópavogskaupstaður hlaut sín réttindi, að honum hafi verið stjórnað af Alþfl.-mönnum. Ég held, að þeir séu stjórnmálalega skyldari hv. þm. en t.d. mér, sem á að hafa aukizt kjarkur við að hafa farið úr fyrrv. ríkisstj. Að við séum kaþólskari en páfinn og annað slíkt tel ég nú minni háttar atriði í ræðu og óþarft að eyða orðum að því, en í umræddum kaupstað virtust nú flokksbræður hv. þm. ekki hafa staðið betur að hlutunum, úr því að þar vantaði 590 pláss.

Ég held, að það hafi ríkt töluverður misskilningur um efni þáltill. í ræðu hv. þm., því að megin bakgrunnurinn að flutningi þessarar till. er sá, að ríkið hefur til þessa styrkt flestar tegundir barnaheimila, þó ekki allar, eins og þm. gat réttilega um, en vandamálið hefur ekki á öllum tímum verið sjálfur reksturinn, þó að ég skuli sízt úr honum draga og ekki efast um tölur þm. í því efni. En vandinn hefur verið sá, að ríkið hefur ekki styrkt byggingu heimilanna. Ríkið hefur ekki styrkt sjálfan stofnkostnaðinn eða komið þar til og þess vegna haft svo lítið um heildarskipulagningu þessara mála að segja. Með tilkomu ríkisstyrks eykst hlutur ríkisins eða hlutdeild í því að skipuleggja eða hafa hönd í bagga með skipulögðum byggingum í þessu efni, og heilsusamlegar byggingar í þessu efni eru grunnurinn að öllu öðru starfi. Það er ákaflega erfitt, þó að það hafi verið reynt, bæði hér í Reykjavík og utan Reykjavíkur, að aðhæfa gömul hús, sem ekki voru byggð til þessara hluta, slíku þjónustustarfi. Af því er mjög slæm reynsla. Ég mundi þess vegna segja, að ég held, að okkur greini ekki efnislega á um nauðsyn þess, að þessi ályktun sé framkvæmd. Þörfin er fyrir hendi og síaukinn skilningur á því, hygg ég, meðal allra stjórnmálaflokka, að ríkið hafi hönd í bagga með sjálfum byggingunum. Grundvallaratriði, raunverulegt grundvallaratriði er, að til komi framlag ríkisins um sjálfan stofnkostnaðinn.

Ég ítreka svo það, sem ég sagði í upphafi, að ég fagna jákvæðum undirtektum þm. um þáltill., smærri atriði og orðaleik hirði ég ekki um að tína til, enda óþarft.

Aðalatriðið fyrir okkur báðum hlýtur að vera, að málið nái fram að ganga í einhverri mynd og að hið opinbera sýni þessu aukinn skilning.