07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3936)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hygg nú sannast mála, að þetta mál um landgræðslu og gróðurvernd, sem hér liggur fyrir, sé með meiri háttar málum, sem komið hafa hér upp á Alþ. þetta haustið. Það byggist á þeirri forsendu, að við báðir flm. teljum, að þetta sé framhald á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, á hinni efnahagslegu baráttu þjóðarinnar. Sem betur fer þarf ekki að rökstyðja þessa þáltill. mikið eða fara mörgum orðum um hana. Þessi hin stórfellda gróðureyðing, sem blasir við í flestum byggðum landsins, í uppsveitum þess, örfoka land, foksvæði, uppblásnir melar, auðnir og sandar, allt er þetta lýsandi vitni um, hvernig jarðvegseyðingin hefur lagt gróðurlendið að velli. Hver ferðalangur, sem fer hér um sveitir, kemur auga á rofabörð, stundum tveggja metra há, sem skýra nánar en orð fá lýst, hvernig komið er fyrir gróðrinum, og hvert stefnir. Staðreyndin er sú, og byggi ég þar á sérfræðingum, að helmingur gróðurlendisins er ofnýttur og um 220 þús. ærgildi eru umfram beitarþol gróðurs á öllu landinu, og hallar stöðugt undan fæti. Vafalaust mun engum koma í hug að ráða bót á þessum vanda með því að skera niður búfé landsmanna, því að það er lausn, sem ekki er unnt að fallast á. Hér er því aðeins eitt til úrlausnar og það er að stórauka landgræðslu og gróðurvernd, bæði með auknum fjárveitingum og framlagi einstaklinga og ríkisvalds. Gróðurvernd og landgræðsla er eitt af mestu nauðsynjamálum þessarar þjóðar. Gróður landsins er eins og fiskur hafsins fyrir Íslendinga. Við stöndum frammi fyrir mikilli baráttu fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar til að vernda fiskimið okkar og afstýra gereyðingu fiskistofna. Öllum Íslendingum er ljóst, að hér er háð barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, en þessi sjálfstæðisbarátta, sem ég minntist á í upphafi ræðunnar, lýtur einnig að gróðurverndinni, og hér er ekki einungis um náttúruverndarsjónarmið að ræða, verndun náttúrunnar fyrir sakir uppruna og fegurðar, hér er til að dreifa undirstöðu landbúnaðar í landinu. Ég vil taka enn dýpra í árinni og segja, að gróðurinn sé beinlínis ásamt fiskinum uppspretta og grundvöllur íslenzks þjóðlífs og menningar.

Í málefnasamningi ríkisstj. er því heitið að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu, og þessi þáltill. er auðvitað flutt til þess að ýta á eftir framkvæmdum, því að við flm. teljum, að þetta mál þoli enga bið. Landgræðsla er að vísu eilífðarverkefni, en það verður ekki unað við það, að setið verði auðum höndum, á meðan Íslendingar eru að éta sig út á gaddinn.

Að svo mæltu vænti ég þess, að þetta,mál fái byr hjá Alþingi.