27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3941)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Náttúruvernd er órjúfanlega tengd því efni, sem er til umr. hér í Sþ. í dag. Öll starfsemi að náttúruvernd hlýtur að fara fram í nánum tengslum við starfsemi varðandi gróðurvernd og landgræðslu. Á s.l. vetri afgreiddi Alþ. ný lög um náttúruvernd. Þau höfðu verið undirbúin af nefnd, þar sem fulltrúar allra þáv. þingflokka áttu sæti og voru, ef ég man rétt, afgreidd með almennu samkomulagi og samþykki þm. Þessi nýja löggjöf um náttúruvernd gerir ráð fyrir stórfelldum breytingum á allri skipan náttúruverndarmála. Þess vegna er mikið nauðsynjamál, að framkvæmd þessara laga sé hiklaus og að þeim sé fylgt eftir í hvívetna. Mig langar því til þess að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. menntmrh., sem er staddur í þinginu í dag, hvað framkvæmd náttúruverndarlaganna liði.

Lögin voru samþ. 3. apríl á s.l. ári. Samkv. þeim áttu sýslunefndir, bæjar- og borgarstjórnir að kjósa náttúruverndarnefndir fyrir 3. des. s.l. Ég hef heyrt, að þetta hafi verið gert á nokkrum stöðum, en fróðlegt væri að vita, hvort það muni almennt hafa verið gert í landinu. Þá gera þessi nýju lög ráð fyrir náttúruverndarþingi, sem á að koma saman þriðja hvert ár, og þar sitji fulltrúar frá margvíslegum starfsgreinum og öllum landshlutum, fulltrúar, sem ætla má, að hafi sérstakan áhuga á þessum málum. Þetta þing á samkv. lögunum að koma saman fyrir 3. apríl n.k., og eru því aðeins fáar vikur til stefnu, en opinberlega hefur lítið heyrzt um undirbúning þessa þings.

Ein meginbreyting laganna frá því fyrirkomulagi, sem áður var og almennt tíðkast, er sú, að náttúruverndarþing, þar sem væntanlega sitja helztu áhugamenn um þau mál í landinu, á að kjósa nýtt náttúruverndarráð, allt nema formanninn. Hér verður veigamikil stofnun kosin utan veggja Alþingis, og er það nokkurt nýmæli og fróðlegt að sjá, hvernig til tekst. Þá gera lögin ráð fyrir því, að náttúruverndarráð fái fasta skrifstofu og fastan starfsmann í fyrsta skipti, og vildi ég gjarnan spyrjast fyrir um það, hvort nokkuð hafi verið gert til þess að framkvæma þessi ákvæði laganna. Ýmislegt fleira er í lögunum, sem aðkallandi er, að komist til framkvæmda, en þetta eru hin skipulagslegu grundvallaratriði, sem ætlazt var til, að væru komin í hið nýja horf innan eins árs frá því, að lögin tóku gildi. Fjárveitingar til náttúruverndarmála á fjárlögum fyrir liðandi ár voru því miður skornar við nögl. Till. um að hækka þær voru miskunnarlaust felldar af meiri hl. ríkisstj. Þessi fjárveiting bar því miður ekki vott um mikla umhyggju fyrir náttúruverndarmálum af ríkisstj. hálfu, þegar þess er gætt, hversu fjárveitingar voru auknar til allflestra starfssviða hins opinbera í hinum háu fjárlögum. Ég vildi vænta þess, að hæstv. ráðh. sæi sér fært að gefa þingheimi einhverja hugmynd um gang þessara mála, en ég stend fyrst og fremst upp til þess að minna á þessi nýju lög og minna á, að það er knýjandi nauðsyn, að framkvæmd þeirra verði sem allra bezt.