27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3943)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti: Þegar ég kvaddi mér hljóðs áðan, veitti ég því athygli, að þessu máli muni verða vísað til n., sem ég á sæti í, og fæ því tækifæri til að fjalla um það, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég mun því m.a. af þeirri ástæðu ekki hafa mörg orð um málið, en auk þess hefur síðan ég kvaddi mér hljóðs sumt verið fram tekið af öðrum af því, sem ég hefði viljað segja hér, og m.a. hefur verið borin fram fsp. varðandi framkvæmd nýju náttúruverndarlaganna, sem ég hefði haft hug á að koma hér á framfæri. Því hefur þegar verið svarað af hæstv. ráðh.

Meðal þjóðarinnar og hér á hinu háa Alþingi er náttúruvernd og landvernd mjög á dagskrá, og er það vissulega vel, að svo skuli vera. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið á stefnuskrá sína að gera heildaráætlun um almenna landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. Og eins og skýrt var frá í ræðu fyrr á fundinum, þá hefur ríkisstj. þegar skipað nefnd til þess að fjalla um þessi mál og leggja þar á ráð, og nú er hér fyrir þinginu þessi till. á þskj. 94 um landgræðslu og gróðurvernd, þar sem gert er ráð fyrir, að Alþ. feli stjórninni að skipa fimm manna landgræðslunefnd á sérstakan hátt eftir tilnefningu þingflokkanna, en þingflokkarnir eru fimm.

Nú ætla ég ekki að ræða þessa till. eða grg. hennar, m.a. af þeirri ástæðu, að ég fæ tækifæri til að fjalla um hana á öðrum vettvangi, en aðeins minna á örfá atriði. Það stendur í fornum fræðum, og mun það vera Ari fróði, sem sagði frá því í Íslendingabók, að landið hefði, þegar það var numið, verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Nú er það ekki lengur svo. Landið er ekki lengur viði vaxið milli fjalls og fjöru. En menn ræða mikið um orsakirnar til þess, að svo er ekki, og orsakir þess, að gróður hafi minnkað í landinu frá því, sem var í öndverðu. Í því sambandi er oft minnzt á fyrri tíðar menn og þeirra sögu í þessum málum. að þeir hafi eytt gróðrinum að verulegu leyti, þó að í grg. þessarar till. sé að vísu sagt, að þar séu fleiri orsakir að verki. Ég held, að það sé of mikið úr því gert. of mikið gert úr þeim spjöllum, sem fyrri tíðar menn hafi unnið á gróðri landsins. Það er að vísu rétt, að nokkuð var gert af því að höggva skóga til eldiviðar, og hafði það að sjálfsögðu sín áhrif, en ég held samt, að miklu meira af gróðureyðingunni og meginhluti hennar hljóti að vera af völdum náttúrunnar sjálfrar, af völdum veðráttu, af völdum vinda, vatns og elds. Og það er reyndar auðsætt og þarf ekki miklar rannsóknir til að gera sér grein fyrir því, að það, sem mestu veldur, er náttúran sjálf, sem hefur eytt gróðrinum. en ekki fyrst og fremst manneskjurnar, sem í landinu hafa búið. Við sjáum þetta glöggt t.d. á Norðausturlandi, þar sem sandar eru á öræfum, hvernig langvarandi þurr sunnanátt ýfir upp sandinn, þannig að hann gengur í bylgjum og eyðir gróðrinum. og svo aftur, hvernig sandurinn grær upp á ný í votviðrasumrum. Hann gengur í öldum eins og veðurfarið. Og enginn vafi er á því, að mannvist í landinu hefur einnig orðið til þess að bæta landið, mannvist og tilvera búpenings í landinu orðið til þess að bæta það, a.m.k. graslendið. Í seinni tíð síðan ræktun hófst í stórum stíl, sem hér var nú rætt um all mikið áðan af fyrrv. landbrh., þá hefur, eins og hann sagði, beit minnkað mjög mikið á úthaga, þar sem beitt er nú miklu meira á ræktað land en áður var. Sums staðar er t.d. kúm eða nautpeningi nær eingöngu beitt á ræktað land, en jafnframt hefur að miklu leyti lagzt niður heyskapur á útengjum. Hann hefur að mjög miklu leyti lagzt niður. Við sjáum það glögglega, að því fer fjarri, að graslendið batni við það, að hætt er að heyja á útengjum. Það er síður en svo. Landið fer í sinu, og sinan bælir niður gróðurinn, þannig að þar sem uxu tvö strá, vex nú ekki nema eitt upp í ljósið. Þetta er allt annað land og verra en engjalöndin voru, sem áður voru slegin. Hvernig á að ráða bót á þessu, þar er ég ekki maður til þess að segja fyrir um. Sennilega tökum við ekki upp aftur heyskap á útengjum, en þarna er ekki um neina landbót, ekki um neina gróðurbót að ræða.

Þar sem hér var um það spurt einhvern tíma í þessum umr., hvernig við ættum að nota landið okkar, þá hef ég nú á því fyrst og fremst þá skoðun, að við eigum að nota landið til að byggja það. Við eigum að byggja landið, hafa fólk í landinu og sem víðast í landinu. Og ég held, að okkur takist því betur að vernda gróðurinn sem landið verður betur byggt. Því fleira fólk, sem verður í sveitum landsins. og því meira af búpeningi, hentugum búpeningi, því betur gangi að varðveita gróðurinn. En auðvitað þarf að fara að því öllu með gát og ekki beita þau lönd. sem viðkvæmust eru fyrir beitinni. En það er annað, sem mér kemur í hug og sem ég gjarnan vildi skjóta hér fram, af því að það eru almennar umr. um þetta mál hér á þingi og af því að Austfirðingar standa nú töluvert að þessum umr. núna eða þm. af Austurlandi, þessum umr., sem nú fara hér fram, og það er, hvað menn álíta um það að beita villtum fénaði á öræfi landsins. Ég á þar við hreindýrin, en þau eru nú sem kunnugt er eingöngu á öræfunum upp af Austurlandi.

Ég held, að það geti vel átt eftir að koma í ljós við nánari athugun, að tilvist þessa dýrastofns, sem lifir eingöngu á því að eyða viðkvæmum gróðri, sé ekki heppileg fyrir gróðurverndina. En það er atriði, sem væri fróðlegt að athuga, hvort ekki er nauðsynlegt að takmarka mjög fjölda þessara dýra, sem eingöngu lifa á gróðri öræfanna.

Það er eitt atriði enn, sem ekki hefur komið fram hér í umr., en sem oft hefur verið minnzt á hér á Alþ., og það eru þau spjöll, sem síðari tíma menn, ekki fyrri tíma menn, heldur síðari tíma menn, hafa valdið á landinu með mannvirkjagerð og þá sérstaklega einni tegund mannvirkja, vegagerðinni. Með vegagerð er, síðan jarðýtan kom til sögunnar, búið að valda ákaflega miklum spjöllum á gróðurlandi. Þetta hefur ekki verið gert að nauðsynjalausu. Vegina urðum við að fá og vinna að þeim með hinum stórvirku vélum, en þjóðin hefur ekki tekið afleiðingum af þessari breytingu í vegagerð, sem orðið hefur, á þann hátt, sem þurfti að vera. Og ég vil beina því til manna, sem forustu hafa í þessum málum, hvort ekki væri ástæða til þess að beita sér fyrir því, að annaðhvort Landgræðslan eða Vegagerðin fengi miklu meira fé til umráða en nú er til þess að græða þessi sár, sem hinar stórvirku vélar valda á gróðurlendi með vegagerðinni. Það er svo takmarkað fé, sem varið er til vegagerðar, að þess er varla að vænta og ekki æskilegt, að klipið sé af því á hverjum stað til þess að græða þessi sár. Það verða að koma til aðrir fjármunir að minni hyggju, og þegar talað er um auknar aðgerðir í landgræðslu, þá held ég, að það ætti að vera eitt af því allra fyrsta, að gera þarna myndarlegt átak.

Eins og ég sagði, ætla ég ekki að vera fjölorður um þetta mál. Ég fagna því eins og fleiri, að þessi landverndarmál og gróðurverndarmál skuli vera rædd; að þau skuli vera svo mikið á dagskrá sem þau nú eru. Það er vonandi, að framkvæmdir fari þar eftir, en um þessi mál verður að ræða á raunsæjan hátt.