27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3944)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr. hér, sem eðlilegt er, um þessa merku till. til þál., sem er til umr. Ég hef nú ekki hugsað mér að lengja þær umr. mikið, en mér finnst rétt að vekja hér aðallega athygli á einu atriði í sambandi við landeyðinguna, atriði, sem hér hefur ekki enn þá komizt til tals, svo að ég hafi tekið eftir. Annars vil ég taka undir það, sem sagt hefur verið um ofbeitina. Ég þykist vera það vel kunnugur á Suðurlandi a.m.k., að ég geti fullyrt það, að þar sé um ofbeit að ræða á sumum afréttum. Ég hef enn fremur síðan hestaeign jókst mjög í ýmsum kaupstöðum tekið eftir ofbeit af völdum hrossa á vissum svæðum, og er illt til þess að vita, að land skuli vera eyðilagt á þann hátt og algerlega óþarft, því að við höfum nóg land fyrir þessa hrossaeign kaupstaðabúanna, ef þannig væri búið um hnútana, að landinu væri sá sómi sýndur, að það gæti gefið af sér fullan gróður, en það gerir landið ekki nema það fái einhverja örvun með áburði. Mig langar að segja frá því, að ég sá fyrir tveimur árum það, sem mér þótti til fyrirmyndar í sambandi við hestaeign. Það var í Reykjaneskjördæmi, suður í Leiru. Þar sá ég, að hestamannafélag frá þeim í Keflavík hafði tekið land til uppgræðslu og borið þar á og búið þar til mjög ákjósanlega hrossahaga. Þetta fannst mér vera til fyrirmyndar, og þeir, sem hafa hug á því að eiga hesta sér til yndis og ánægju í bæjunum, þurfa að koma hér til liðs við gróðurverndina og uppgræðsluna í landinu og leggja fram sinn skerf til þess að græða landið upp í staðinn fyrir að leggja ýmis svæði í hálfgerða eða algera örtröð af ofbeit með hrossaeldi. Ég vildi koma þessu að í sambandi við þær umr., sem eru hér um þetta mál.

Nú vil ég einnig vekja athygli á öðru, að búfjáreign landsmanna hefur á síðustu áratugum vaxið allmikið. Það er ekki orðið hægt að búa í sveit og njóta þeirra þæginda, sem við krefjumst, nútímamenn, nema hafa stórbú og mikla framleiðslu. Og þetta kostar það, að þá þarf meira land en áður, jafnvel þó að menn rækti og rækti og búi til stór tún. Búsmalinn þarf líka óræktað land. Það hefur komið í ljós, að það er t.d. ekki hægt að ala íslenzka sauðféð innikróað á ræktuðum túnum allt sumarið. Ég minnist þess, að á Skógasandi undir Eyjafjöllum, sem hefur verið græddur upp og er eitt fyrirmyndartún nú orðið, þar var reynt að ala sauðfé fyrstu árin. Vegna þess að það voru landþrengsli undir Eyjafjöllum. var reynt að ala sauðfé á þessu áborna landi. En það reyndist ómögulegt. Það þreifst ekki á landinu, og það varð að hætta við þetta. Og það hefur víðar komið í ljós, þar sem ég þekki til, að ef nota á ræktað land til sauðfjárbeitar, þá þarf einnig að hafa með óræktað land, féð þarf að hafa aðgang að óræktuðu landi með ræktaða landinu. Þannig er um okkar íslenzka fjárstofn.

Þá ber þess að geta, að á síðustu áratugum hefur meðferð við fóðrun sauðfjár batnað mjög mikið og yfirleitt fóðrun alls fjár eða allra gripa, hvort sem það eru nautgripir, hross eða sauðfé. Bændur fara yfirleitt orðið mjög vel með þessar skepnur í fóðrun, og niðurstaðan er sú, að skepnurnar hafa þyngzt mjög mikið. Þær hafa stækkað og þyngzt. Þegar ég var ungur og að byrja að búa, þá var algengt, að ærnar vigtuðu á haustnóttum 40—50 kg. a.m.k. í lágsveitum á Suðurlandi. Nú er ærþunginn á haustnóttum um 60—65 kg, þar sem ég þekki til. Það sjá allir sjálfir, að eftir því sem skepnan er stærri og þyngri, þess meira land þarf hún, þess meira étur hún. Og þó að ekki hefði vaxið bústofninn að tölu til, heldur bara stækkað og þyngzt eins og hann hefur gert, þá þyrfti hann miklu meira land en hann þurfti bara vegna þess eins, að hann þarf miklu meira að éta og notar miklu meira fóður en hann gerði áður. Til þessa er yfirleitt ekki tekið tillit, þegar verið er að tala um landið, sem bústofninn þarf til beitar. Ég er sannfærður um það, að 100 kindur nú þurfa allverulega meira land til beitar en 100 kindur þurftu fyrir 30—40 árum, vegna þess að þær eru miklu stærri og þyngri nú. En auk þess er það, að féð er miklu frjósamara en það var, og þess vegna miklu fleira í sumarhögum nú en áður var. Þetta var um þennan þáttinn. Ég er allkunnugur flestum afréttum sunnanlands. Ég hef farið um þá flesta og þekki þetta nokkuð, og er sannfærður um, að það er veruleg ofbeit á Suðurlandi og hætta á uppblæstri og jarðvegseyðingu af þeim sökum. En þetta er nú mikið rætt, og ég get ekki lagt þar neitt til mála annað en það, sem aðrir hafa gert.

En mig langaði til þess að drepa á einn þátt enn í þessu máli, og til þess kom ég hér upp í ræðustólinn. Það er sú jarðvegs— og landeyðing, sem verður hér og fer mjög vaxandi af völdum straumvatna. Ég álít, að víða sé mjög mikill háski búinn af þessum þætti landeyðingar á Íslandi og hafi farið í vöxt. Og það er ýmislegt, sem orsakar það, að þetta er að gerast í auknum mæli. Ég hygg t.d., að allbreytt tíðarfar eigi sinn þátt í þessu. Þegar ég var ungur og man fyrst eftir mér, lágu ár og vötn oft undir ísi hreyfingarlaus mánuðum saman yfir veturinn. Síðan brotnaði ísinn af þeim með sólbráð, þegar kom fram á útmánuði og fram undir sumarmál. Nú gegnir allt öðru máli. Tíð er miklu umhleypingasamari að minni hyggju nú orðið en var. Ýmist eru árnar að verða ísilagðar eða það koma þíðukaflar, sem ryðja af þeim ísnum sitt á hvað allan veturinn. Þetta orsakar feikileg umbrot í vatnsfarvegunum og jarðvegseyðingu og landbrot. Og ég hef tekið eftir því á minni ævi, að þar sem ég þekki til, þá hefur orðið alveg feikilega mikil landeyðing af þessum sökum. Þá hef ég einnig komizt í kynni við þetta nú á síðustu árum, sem ég hef setið hér á Alþ., þar sem ég hef verið í fjvn. og hef orðið var við þær síauknu umsóknir og kvartanir hingað og þangað að af landinu, þó sérstaklega af Austur– og Suðurlandi um ágang af völdum straumvatna og beiðnir um fjárveitingar til þess að reyna að hefta þennan ófögnuð. Hér er einn þáttur í náttúruverndar– og landgræðslumálum, sem þarf að gefa mikinn gaum, og ég vildi ekki láta þessar umr. fara svo fram, að ég benti ekki á þennan þátt. Þeir, sem eru nú að starfa í mþn. að landverndarmálum, einnig sú n., sem fær þetta mál til meðferðar hér á hv. Alþ., þeir þurfa, þessir aðilar, að gefa fullar gætur að þessum þætti í landeyðingarmálunum. Og ætla ég svo ekki á þessu stigi að fara fleiri orðum um þetta mál.