27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (3946)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að það er ánægjulegt, að svo miklar og gagnlegar umr. skuli hafa orðið um þetta mikla mál. Á því leikur ekki nokkur vafi, að þetta er eitt mesta mál, sem við höfum nú við að glíma, þetta stóra vandamál um gróðureyðinguna í landinu og um landgræðsluna. Ég vil sérstaklega þakka hv. 1. þm. Austf. fyrir þær ágætu undirtektir, sem hann hafði við till. þessa. Eins vil ég þakka honum hans ágætu og upplýsandi ræðu.

Hann skýrði frá því, sem raunar var vitað, að ríkisstj. hefði skipað eða landbrh. öllu fremur hefði skipað nefnd sjö manna til þess að hefjast þegar handa um rannsóknir og undirbúning framkvæmda í þessu máli. Ég fagna því, að þessi nefnd hefur þegar tekið til starfa, því að þegar og ef sú nefnd verður kosin, sem lagt er til í þáltill. okkar hv. 3. landsk. þm., munu þau verk, sem nú eru unnin af þessari nefnd, vitanlega koma að fullu gagni, þegar þau yrðu lögð upp í hendur henni. Og eins vil ég taka það fram, að það er sérstaklega ánægjulegt, að maður eins og hv. 1. þm. Austf. hefur tekið við forustu í þessari nefnd, að hann hefur sérstakan hug í þessu máli og hug til þess að hrinda málum fram.

Hv. 1. þm. Sunnl. lét þess getið í upphafi máls síns, og því miður er hann ekki viðstaddur nú, en ég sé nú ekki annað fært samt en að víkja að hans máli. Hann lét þess getið í upphafi máls síns, að till. væri kannske góðra gjalda verð, en það væri svo annað mál, hvort hún væri í því formi, sem æskilegast hefði verið. Lét þess svo að engu getið, í hvaða formi æskilegast hefði verið að hafa hana. Hann minnti á, að sett hefði verið ítarleg löggjöf um þetta mál árið 1965, landgræðslulögin. Ég hef kynnt mér þessi lög, og ég verð að segja, að þau eru alltyrfin, og ég held, að reynslan hafi sýnt, að enda þótt þau hafi haft inni að halda allmörg nýmæli, þá hafi reynslan sýnt samt sem áður, að þau hafi ekki í framkvæmdinni orðið til þess, sem þeim kannske var ætlað. Og það er höfuðmál um lög, ekki það, að þau séu til, heldur hvernig þau gagnist í framkvæmdinni, að þau nái tilgangi sínum. Eftir sem áður er það bláköld staðreynd, þrátt fyrir þennan ítarlega lagabálk, að landið heldur áfram að blása undan fótum okkar. Og sjö ára eru þessi lög, og eftir sem áður blasir við sú staðreynd, að enn sígur stórlega á ógæfuhlið í þessu máli. En öll viðbrögð við þessari till. og aðrar umr„ sem fram fara um þetta mikla vandamál, benda til þess, að nú verði mjög spyrnt við fótum og jafnvel snúið við frá því, sem stefnt hefur.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það væri út í hött að tala um ofbeit, og lét þess getið, að því hefði verið haldið fram, að það þyrfti að fækka sauðfé um 280 þús. ærgildi, til þess að um ofbeit yrði ekki að tefla. Ég hef að vísu mitt vit allt úr sérfróðum mönnum. Ég hef talað við allmarga þeirra og hlustað á enn fleiri, og næstum því allir eru sammála um það, að um stórkostlega ofbeit sé að tefla. En ég held, að hv. 1. þm. Sunnl. misskilji þetta að því leyti, að ég veit ekki til, að menn hafi lagt til, að skorinn yrði niður búsmali manna til þess að forðast ofbeitina, heldur verður að vinna málið frá hinni hliðinni, að rækta nægjanlega upp, svo að ofbeitin verði ekki til þess tjóns, sem sérfróðir menn telja, að hún sé, og stuðli e.t.v. meira að gróðureyðingu en nokkuð annað, þar sem mögur jörð er ofbeitt, og verði til þess að myndast rofabörð og uppblástur.

Þegar hafa verið kortlögð um 70% af yfirborði landsins, og eftir þeim upplýsingum. sem sú kortlagning gefur, þá er svo að sjá, sem mjög víða, aðallega á Suður—, Suðvesturlandi og Vesturlandi, sé um verulega ofbeit að tefla. Það vill svo til, að Austurland er einn af fáum landspörtum. þar sem um ofbeit virðist ekki vera að tefla, og því er það, að ég hygg, að við þurfum ekki að gera okkur neinar sérstakar áhyggjur vegna hreindýrahjarðar, sem þar gengur og hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á, enda er öllum Austfirðingum og auðvitað landsmönnum öllum mjög sárt um þann stofn villtra dýra, enda hefur nú fátt eitt bent til þess, að hann hafi komizt af með þeim hætti, að ástæða sé til að óttast, að honum fjölgi um of. Það verður að gá allra helzt að því, að honum verði ekki útrýmt. En svo heppilega vill til, að á Austurlandi þykjast menn sjá þess glögg dæmi, að um ofbeit sé ekki að tefla.

Hv. 1. þm. Sunnl. vildi meina, að um prentvillu væri að ræða, þar sem segir í grg. með till. okkar, að undanfarin ár hafi verið græddir upp 20—25 km2. Ég held mig nú við þessa tölu, þangað til hann leggur fyrir aðrar skýrari sannanir fyrir því, að hér sé um prentvillu að tefla, af því að þetta er sú tala, sem ég hef fengið upp gefna fra þeim mönnum, sem ég hef ástæðu til að treysta líka, því að ég treysti fleirum en hv. 1. þm. Sunnl. En ef það kemur á daginn, að fyrir verða lagðar upplýsingar, sem færa manni heim sanninn um, að þetta sé röng tala, þá mun þetta vitanlega verða leiðrétt, aðeins yfir, að tvöföldun þessarar tölu sé rétt án þess að færa frekari rök að því máli.

Það er tekið fram hér í grg. með frv., að gróðureyðingin sé með þeim hætti frá landnámstíð, að það hefur glatazt meira en helmingur af gróðri og jarðvegi landsins af svæði, sem svarar til um það bil þriðjungs af heildarflatarmáli þess. Ég rakst á, að Þorleifur Einarsson hefur dregið þær ályktanir af frjókornarannsóknum sínum, að 3/4 hlutar landsins hafi verið grónir á landnámsöld og 2/3 hlutar alls gróins lands hafi orðið uppblæstri að bráð. Þetta kemur fram í riti eftir hann, grein eftir hann, Vitnisburður frjógreiningar um gróður, veðurfar og landnám á Íslandi, í Sögu 1962. En hvort sem þetta er rætt lengur eða skemur, þá blasir samt sem áður sú augljósa staðreynd við, að um stórkostlega gróður– og landeyðingu er að tefla. Um það verður ekki deilt.

Miklar rannsóknir hafa farið fram á því, með hvaða hætti land yrði grætt upp, sér í lagi í nokkurri hæð frá sjávarmáli, og mjög fróðlegar tilraunir hafa verið gerðar í þessu sambandi, til að mynda af dr. Sturlu Friðrikssyni.

Björn Pálsson, hv. 3. þm. Norðurl. v., varaði við því, að farið yrði að ausa áburði upp um fjöll og firnindi. . Það er alveg rétt. Allt, sem gert er í þessu efni. verður að byggjast á grundvölluðum rannsóknum. Þess vegna er okkar till. fram komin, og þess vegna hygg ég, að landbrh. hafi brugðið við skjótt og skipað menn til þess að hefja undirbúning að því, að lokið verði þeim rannsóknum. með hvaða hætti bezt og skeleggast verði að þessum málum staðið. Og ég verð að segja, að ég fagna því, að ég þykist sjá, að flutningur þessarar þáltill. okkar hv. 3. landsk. þm. muni hafa orðið til þess þegar í stað, að brugðið var svo myndarlega við með skipan þessarar nefndar, sem ég veit, að muni skila góðu starfi, sem verður svo til undirstöðu fyrir framhaldsvinnu að þessu mikilvæga verkefni.