03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (3953)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, hefur nú verið rædd mjög á mörgum fundum hér í Sþ. Margir þættir þessa mikilvæga máls hafa verið dregnir fram, og mætti ætla, að ekki væri ástæða til að hafa um það öllu fleiri orð. Ég skal því ekki bæta miklu við.

Það hefur verið rakin hér saga gróðureyðingar, sem ætlað er, að fram hafi farið í landinu allt frá landnámstíð og vitnað til þess, að sagnir herma frá þeim tíma, í Íslendingabók Ara fróða, að þá hafi landið verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Nú hef ég aldrei heyrt skilgreiningu á því, hvað í þessum orðum felst eða hvort unnt sé að gera sér grein fyrir því, hvað þessi viður, sem óx milli fjalls og fjöru, hafi verið vel vaxinn og mikill. Það er þó minn skilningur á því, að hér hafi ekki einungis verið um skóg að ræða, eins og við tölum um hann í daglegu tali í dag, heldur einnig um kjarrlendi og jafnvel kvistlendi. Þetta er atriði, sem auðvitað skiptir ekki máli. Vissulega getum við búizt við því og raunar með nokkuð mikilli vissu, að þá hafi gróður verið hér mun meiri en er í dag. Þar sem gróðurinn hefur beðið afhroð síðan, er sagt, að það hafi orðið í samskiptum við fólkið í landinu, við það, að búseta hófst hér og mannfjölgun varð og þar með, að búsmala fjölgaði. Vissulega er það rétt, að þessi þáttur er sjálfsagt ekki lítill. Hinum þættinum mega menn ekki gleyma, að fleiri öfl hafa þarna að verki verið, náttúran sjálf, bæði á sviði eldgosa og öskufalls, vatna og vinda, og einnig og ekki sízt kólnandi veðurfar síðari alda. Ég hygg, að það sé staðreynd, að á seinni öldum eða a.m.k. á 17., 18. og 19. öld hafi á köflum verið mun harðara veðurfar, meiri kuldi hér á landi en gerðist á landnámstíð og næstu öldum eftir hana.

Ég þykist geta sagt það með fullri vissu, að veðurfarið hefur ekki svo lítil áhrif á gróður, og nægir að vitna til þess, að á hinum síðari árum eða síðari helmingi síðasta áratugs, þó að veðurfar kólnaði eigi mjög, þá var það þó svo, að verulega hefur séð á gróðri í ýmsum landshlutum á þessum árum miðað við það, sem áður gerðist. Því meiri ástæða er til að huga þarna að og standa vel á verði, að ekki fari um of illa fyrir gróðri okkar lands.

Ég vildi draga fram í örfáum orðum þátt veðurfarsins í þessum hlutum. Þótt ekki hafi borið á því í þessum umr., þá vil ég samt minna á, að það er mjög algengt, að fram hjá honum sé litið og bændum landsins og búaliði og þeim atvinnurekstri, sem bændur reka, sé um kennt, hvernig farið hefur. Ég vil einnig láta það koma hér fram, að svo sem ég bezt veit, þá er mjög ríkur skilningur í þessum efnum meðal bænda. Bændur hafa í undirbúningi ýmsar aðgerðir og till. um aðgerðir, er þessi mál varða, og þá ekki sízt gróðurverndarnefndirnar, sem skipaðar hafa verið í hinum ýmsu héruðum á grundvelli landgræðslulaganna frá 1965. En þó að starf þeirra kunni að vera nokkuð misjafnt, þá hafa þær a.m.k. á sumum landssvæðum unnið bæði mikið og gott starf og undirbúið vel þær aðgerðir, sem þurfa að koma með auknu fjármagni til landgræðslumála.

Ég vil geta þess hér, að mér sýnist, að í grg. till. sé í einstaka tilviki nokkuð hvasst að orði kveðið. Þar segir t.d. á þá leið, að enda þótt viðurkennt sé, að mikið hafi verið ræktað á síðustu árum, þá hafi það ekki gert meira en að mæta aukinni gróður— og fóðurþörf fyrir nautgripi. Það hafi hins vegar ekki létt á úthaganum. heldur jafnvel þvert á móti. Ég vil líta svo á, að hérna sé nokkuð um of sagt. Ég lít svo á, að ræktun síðustu ára hafi verið einn sá stórkostlegasti þáttur í því að bæta gróðurlendið og vernda úthagana, vegna þess að í síauknum mæli hefur beit færzt á ræktað land af úthaga og ræktað land hefur gefið af sér heyfóður, sem gert hefur kleift að fóðra búpeninginn á því í miklu meira mæli en áður var og létta vetrarbeitinni af úthaganum. Þetta tel ég nauðsynlegt, að komi fram og einnig það, að einn sterkasti þátturinn, sem vinnur jákvætt að þessum málum, er einmitt aukinn ræktunarbúskapur í þess orðs fyllstu merkingu, og á ég þá bæði við ræktun lands og ræktun búpenings með það fyrir augum, að hver gripur gefi af sér sem mestar afurðir og þess vegna þurfi ekki að hafa jafnmikinn fjölda í högum og áður var.

Í ræðu hv. 3. þm. Reykn. hér áðan lagði hann ríkasta áherzlu á það, að friðunin væri áhrifa mest í gróðurverndarmálum. Það má vel vera, að friðunin hafi sitt gildi á vissum svæðum. Friðun getur líka leitt til þess, að land gangi úr sér, ef þannig háttar, en friðun er ekki það, sem við eigum að stefna að, heldur hitt að bæta landið svo, að það þoli þann búsmala, sem á því gengur, og það þoli það, að búpeningi fjölgi.

Í þessum umr. hefur verið vikið að því starfi, sem hingað til hefur verið unnið í þessum málum, og það starf er vissulega mikið. Á því starfi verður að grundvalla allar framtíðaraðgerðir jafnhliða því, sem auknar rannsóknir segja til um. Í þessu starfi, sem til þessa hefur farið fram, má ekki vanmeta starf áhugamanna, sem eru boðnir og búnir að koma til liðs við þá, sem í fremstu víglínu eru, og þetta áhugamannastarf þarf einmitt í framtíðinni að nýta sem bezt og þá með því að beina því í þá farvegi, sem helzt mega til heilla verða.

Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann sagði, að lítt stoði að sá frækorni í grýtta jörð, svo að eigi nái að spretta upp af því blómleg jurt. En það þarf einmitt að beina áhugamannastarfinu í þann farveg, að það starf megi gefa ríkulegan ávöxt, þau sáðkorn, sem áhugamennirnir láta af hendi rakna, falli í frjóa jörð og megi bera ríkulegan ávöxt.

Þessi till. felur í sér, að skipa skuli nefnd til að sinna þessum verkefnum. Nefndin hefur þegar verið skipuð, og eitt af þeim atriðum, sem sú nefnd þarf að hyggja að, er einmitt að fella saman alla þessa þætti, sem að landgræðslu. gróðurvernd og landnýtingu lúta, og beina því starfi öllu í þá farvegi, að sem mest gagn megi af því hljótast og við vinnum ötullega að því að bæta okkar land og gróðurríki þess.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta. Ég tel ástæðulaust að endurtaka það, sem hér hefur komið fram um ýmsar verklegar framkvæmdir, sem fara fram á vegum hins opinbera. Það þarf mjög að gæta þess, að þær leiði ekki til landskemmda umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur, en á þessum sviðum hefur orðið veruleg breyting til batnaðar á hinum síðari árum.

Ég legg höfuðáherzlu á það, að það, sem gert verður í þessum efnum, verði gert í sem nánustu samstarfi við bændur landsins. Bændur eiga hér mest í húfi. Bændur hafa nytjað þetta land frá því að sögur hófust, og það munu ekki vel ganga neinar þær aðgerðir, sem fara í bága við þær skoðanir, sem bændur hafa á þessum málum, og í framhaldi af því vil ég ítreka það, að þeir hafa á þessu efni mjög mikinn skilning, enda eiga þeir mest sjálfir í húfi með það, að gróðurríki landsins og landið sjálft sé verndað fyrir skemmdum og það bætt.