16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3968)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Flutningur þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, sýnir virðingarverðan áhuga á mikilsverðu máli, sem hreyft hefur verið oft áður hér á Alþ. og sem betur fer við vaxandi undirtektir á síðari árum, þótt þær væru því miður dræmari en skyldi í fyrstu. Flutningur þáltill. gefur mér einnig kærkomið tækifæri til að gera þingheimi nokkra grein fyrir, hvernig þetta mál er á vegi statt af hálfu menntmrn. Svo er nefnilega mál með vexti, að sú athugun, sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi þáltill., að fram fari, er að verulegum hluta, ef ekki kannske öllu leyti, þegar að hefjast eða hafin á vegum menntmrn. Ástæðan til þess er sú, eða upphafið að þeirri athugun er það, að Alþ. samþykkti 5. apríl á þessu ári þáltill. um rannsókn á aðstöðu æskufólks til framhaldsnáms, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að stjórnir sveitarfélaga í landinu rannsaki hver í sínu umdæmi, hvort og þá hversu margir unglingar, sem luku skyldunámi vorið 1970, eru án skólanáms á yfirstandandi skólaári og af hvaða ástæðum það er. Skýrsla um niðurstöður þessarar rannsóknar skal lögð fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Flm. þessarar till. voru þáv. alþm. Vestf. Sigurvin Einarsson og núv. hæstv. utanrrh. Þessi till. kom til framkvæmda í menntmrn., og þar var tekin sú ákvörðun, að athugunin og rannsóknin, sem gert er ráð fyrir þar, yrði allmiklu víðtækari og ítarlegri. Fyrir því liggja ýmis rök, sem ég mun gera stuttlega grein fyrir.

Í ályktuninni er ríkisstj. falið að hlutast til um, að stjórnir sveitarfélaga kanni, hver fyrir sitt umdæmi, hversu margir unglingar hættu námi að loknu skyldunámi vorið 1970 og þá af hvaða ástæðum. Af mörgum ástæðum var talið, að sú málsmeðferð að senda aðeins spurningaskrár til sveitarstjórna væri dæmd til að mistakast, svör mundu berast misjafnlega ört og jafnvel verða misbrestur á, að nokkur kæmu, og erfitt að fá heildargrundvöll, sem sambærilegur væri, varðandi tölu og ástæður til þess, að unglingar hyrfu frá námi. Niðurstöður af slíkri könnun yrðu því mjög örðugar til úrvinnslu. Því var lagt til í menntmrn., að sá háttur yrði hafður á, þó að tímafrekara yrði og dýrara reyndist, að unninn verði úr nemendaskrá Hagstofu Íslands fjöldi nemenda, sem ljúka átti skyldunámi vorið 1970, og hann greindur eftir sveitarfélögum. Unnið verði á sama hátt, hverjir ofan greindra nemenda voru ekki í skólum árið 1970—1971, og listi með nöfnum þeirra skrifaður út fyrir hvert sveitarfélag. Þessi listi verði síðan sendur viðkomandi sveitarfélögum ásamt leiðbeiningum um, hvernig merkja beri á hann, hvaða ástæður séu til þess, að skólagöngu hafi ekki verið haldið áfram. Hugsanlegar ástæður yrðu áður kannaðar og flokkaðar, þannig að úrvinnsla yrði auðveld. Til viðbótar ofangreindu yrði svo bætt við ýmsum upplýsingum beint úr nemendaskrá eða síðar úr þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í menntmrn., t.d. um stærð skóla, lengd skólagöngu, hvort beint framhaldsnám hafi staðið til boða heima fyrir og ýmislegt fleira. Með þessu móti yrði saman dregið efni, sem gefið gæti svör við margvíslegum spurningum, sem ofarlega hafa verið á baugi og eru utan við það afmarkaða svið, sem markað var í þáltill., sem lesin var. Til að mynda mætti þar fá upplýsingar, sem kæmu að haldi við meðferð mála eins og hugmynda um lengingu skólaskyldu, fjölgun nemenda og væntanlega heimavistarþörf vegna lengingar skólaskyldu, gagnsemi litlu skólanna til móts við stærri sameiningarskóla, nemendaáætlanir fram í tímann, kostnaðaráætlanir um skólahald og einnig margt fleira.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því í þessu sambandi, að nemendaskrá Hagstofu Íslands er líklega fullkomnasta skrá um streymi nemenda innan skólakerfis, sem til er í nokkru landi. Hún nær nú yfir nemendur, sem verið hafa í skólum frá 1967, og gæti, ef rétt er á haldið, veitt margs konar þjónustu, bæði í sambandi við skýrslugerð, einstök rannsóknarverkefni og undirbúning löggjafar. Hún hefur til þessa varla verið nýtt að telja megi. Þetta verkefni, sem ég hef hér lítillega lýst, getur því orðið mikilvægur prófsteinn á notagildi skrárinnar, gefið vísbendingu um, hvaða not má þegar hafa af henni og hvaða endurbætur unnt er að gera á þessari skrá. Það er ætlun þeirra, sem að athuguninni vinna í menntmrn., að unnt verði að leggja fyrir Alþ. bráðabirgðaskýrslu um það bil tveimur mánuðum hafið á vegum menntmrn. starf að öðrum aðalþætti endanlega skýrslu fyrir lok þessa þings. Þá er einnig eftir að hafizt verður handa, þ.e. í des. eða jan., og þess máls, sem þáltill. fjallar um, sjálfri aðstoðinni við nemendur til að jafna aðstöðu þeirra til skólagöngu.

Því var lýst yfir við stofnun þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að eitt meginmarkmið sitt í menntamálum teldi hún vera að vinna að jöfnun aðstöðu til skólagöngu, þar þurfi ekki búseta fjarri skólastöðum eða þröngur efnahagur að hindra nemendur í að ljúka því námi, sem hugur þeirra stendur til. Á síðasta þingi hafði einnig verið flutt frv. um þetta efni. Flm. voru tveir, annar sá sami og að þáltill., sem áðan var lesin, Sigurvin Einarsson, þáv. þm. Vestf. Hinn flm. var Ingvar Gíslason, hv. 3. þm. Norðurl. e. Þegar sýnt var, að þetta frv. næði ekki afgreiðslu á síðasta þingi, varð það að samkomulagi milli flm. þess og þáv. menntmrh., að skipuð yrði á vegum menntmrn. nefnd til að semja frv. til l. um aðstoð við skólanemendur til að jafna aðstöðu þeirra til skólagöngu. Sá háttur var hafður á, að þingflokkarnir voru beðnir að tilnefna hver af sinni hálfu einn mann í þessa nefnd, og síðan skipaði menntmrn. tvo menn í nefndina. Nefnd þessi hefur nú verið skipuð og er tekin til starfa. Í hana voru skipaðir af hálfu þingflokkanna Helgi Seljan alþm. af hálfu Alþb., Ingvar Gíslason alþm. af hálfu Framsfl., Kári Arnórsson skólastjóri af hálfu SF, Kristján J. Gunnarsson skólastjóri af hálfu Sjálfstfl. og Sigurþór Halldórsson skólastjóri af hálfu Alþfl. Síðan skipaði menntmrn. í nefndina Sigurvin Einarsson fyrrv. alþm. og formann Runólf Þórarinsson stjórnarráðsfulltrúa.

Það gefur auga leið, að þar sem rætt er í fyrirliggjandi þáltill. um nýjar reglur fyrir úthlutun styrkja og aukna aðstoð við skólanemendur, þá hljóta þau efni að koma til athugunar þeirrar nefndar, sem þegar er tekin til starfa. Sömuleiðis má gera ráð fyrir, að sú nefnd sinni einnig athugun á námskostnaði og fjárhagslegri getu æskufólks í strjálbýli.

En úr því að farið er að ræða um þessi mál, vil ég nota tækifærið til að drepa á atriði, sem oft og tíðum gleymast. Það eru þau, að efnahagur nemenda, bágur efnahagur, sem kann að varna skólagöngu, er alls ekki bundinn við búsetu eingöngu. Þar eru aðrir þættir einnig mikilsverðir, það er efnahagur nemenda og heimilisaðstæður og efnahagur framfærenda. Og í öðru lagi, það sem kann að valda miklu um að torvelda nemendum að ljúka því námsstigi, sem hugur stendur til og efni standa til, kann æði oft að stafa af því, hvað kennsla er mismunandi í skyldunáminu; undirbúningsmenntunin, sem skyldunámið veitir, er svo misjöfn vegna styttri skólagöngu og verri kennsluaðstöðu á þeim stöðum, þar sem nemendur njóta alls ekki þess kennslutíma og þeirra kennslugæða, sem gert er ráð fyrir í fræðslulögum.

Loks vil ég, úr því að þetta mál er hér á dagskrá, gefa alþm. yfirlit yfir það, hversu þeim styrkjum, þeim fjárhæðum til styrkja, hefur verið varið, sem veittar hafa verið á skólaárunum 1969—1970 og 1970—1971. Árið 1969—1970 voru nemendur í gagnfræðaskólum, menntaskólum, Kennaraskóla og sérnámsskólum. sem um er að ræða, 11.536. Þar af hlutu 1.430 styrki, þ.e. 12.39%. Skólaárið 1970—1971 voru nemendur í þessum skólum 12.330. Þá voru veittir 2.128 styrkir, og hundraðstala nemenda í þessum skólum. sem styrki hlutu, var 17.25%.

Hér hef ég einnig í höndum frekari sundurliðun á þeim fjárhæðum, sem komið hafa í hvers hlut. Skólaárið 1969—1970 voru veittir 1.430 styrkir. Upphæðin, sem til úthlutunar var, nam það ár 10 millj. 8 þús. 350 kr. Meðalstyrkur var því 6.998,85 kr. Skólaárið 1970—1971 lagði menntmrn. til, að veitt yrði 21 millj. kr. til þessara styrkja. Við afgreiðslu fjárlaga varð úr, að 15 millj. voru veittar, en þegar að úthlutun kom, reyndist sú upphæð svo ófullnægjandi, að fengin var 2 millj. 499 þús. kr. viðbótarfjárveiting. Skólaárið 1970—1971 komu því til úthlutunar 17 millj. 499 þús. 250 kr. Það ár voru veittir 2.128 styrkir, og meðalfjárhæð hvers styrks var 8.223,35 kr.

Að síðustu vil ég geta þess, úr því að þetta mál er til umr., að ein af þeim fjárveitingum, sem gert er ráð fyrir verulegri hækkun á í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., er einmitt fjárveitingin til þessara svo kölluðu dreifbýlisstyrkja. Þar er gert ráð fyrir, að hún hækki í 25 millj. kr.