16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (3972)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh., hefur þegar verið unnið talsvert að verið á fjárlögum tvö s.l. ár til þess að jafna aðstöðu nemenda til framhaldsnáms í landinu, og mér er það ljóst, að enda þótt sú nefnd starfaði eftir reglum, sem settar voru að beztu vitund í menntmrn. og síðan nokkuð breytt í samræmi við það, sem í ljós kom af starfi nefndarinnar, þá voru þær reglur alls ekki byggðar á svo föstum grunni sem æskilegt hefði verið. Þess vegna tel ég mig mæla þar af nokkurri reynslu, er ég tel, að það sé full ástæða til að reyna að undirbyggja slíkar reglur á sem allra sanngjarnastan og öruggastan hátt. Og það er einmitt það, sem farið er fram á með þessari tillögu.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það er þó athyglisvert, að tveir hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafa hér látið álit sitt í ljós. Hv. 3. þm. Norðurl. e. taldi þessa till. hvorki frumlega né tímabæra og eiginlega að engu hafandi, en flokksbróðir hans, hv. 5. þm. Austf., fagnaði henni og taldi hana gott innlegg til þessara mála. Ég vil hér láta það í ljós alveg tvímælalaust, að ég tek undir með þeim síðarnefnda, hv. 5. þm. Austf. Ég tel, að till. sé tímabær og þess virði, að hún hafi hér komið fram og fái jákvæða afgreiðslu.

Hv. 5. þm. Austf. minnti á það hér, að fram til þessa hefur ekki verið sinnt málefnum þess æskufólks, sem sækir nám á skyldunámsstigi. Þær fjárveitingar, sem veittar hafa verið til þessa, hafa verið bundnar við framhaldsnám, þ.e. þegar skyldunámi sleppir. Hv. þm. benti á erfiðleika ýmissa skyldunámsnemenda úti um land við það að sækja nám í heimavistarskólum og þá fjárhagslegu bagga, sem foreldrar þessa fólks þyrftu að rísa undir við það að kosta börn sín þangað. Þetta er vissulega alveg rétt og tímabær ábending, þegar verið er að leggja drög að því, að samið verði frv. og væntanlega sett lög um þetta efni hér síðar á hinu háa Alþingi. Það hefur þó verið skýring rn. og þar með ríkisvaldsins hvað þetta snertir, að þegar börn eru send til dvalar í heimavistarskólum, eigi þau ekki að bera af' því annan kostnað en þann, sem leiðir af efni til matar. Foreldrar þurfa að greiða með þessum börnum eins og efni í fæðið kostar. Annað greiðir ríkið. Og ríkisvaldið hefur sagt, þ.e. menntmrn.: Börnin þurfa að borða, hvort sem þau eru í heimavistarskóla eða heima hjá sér. Nú hef ég ekki að fullu viljað fallast á þessa skoðun og hef talið, að enda þótt heimavistarkostnaður á skyldunámsstigi sé ekki hár, þá sé það þó kostnaðarsamara fyrir foreldra, sem eiga mörg börn, að senda þau þangað til dvalar en að hafa þau í heimahúsum og annast framfæri þeirra þar. Ég sem sagt vil taka undir þá ábendingu hv. þm., að þessi atriði sé þörf á að kanna nánar.

Um það, að seint hafi verið brugðið við með flutningi till. sem þessarar, þá má auðvitað segja það og betra hefði verið, að þeir hv. ungu þm., sem að henni standa, hefðu fyrr átt setu á Alþ. En hitt er þó staðreynd, að nú þegar hafa verið veittir fjármunir frá ríkinu til þessara þarfa í tvö ár. Fráfarandi hæstv. ríkisstj. hafði tekið þetta mál upp og veitt til þess fjármagn, sem varð til þess, að fyrstu skrefin voru gengin til þess að jafna stöðu nemenda úr strjálbýli til náms, og varð þannig til þess, að þessu mikla hagsmunamáli og þessu mikla réttlætismáli var sinnt.