16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3973)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki karpa lengi um þetta, en ég sé ástæðu til þess að gera svolitla aths. við það, sem hv. flm. sagði hér í síðari ræðu sinni, hv. frsm. málsins. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að ég nefndi till. hans óþarfa og síðborna, en hins vegar taldi ég það ekki meginástæðuna fyrir því, að hún væri svo, að ríkisstj. hefði í málefnasamningi sínum ákveðið að beita sér fyrir þessu máli, heldur benti ég á það alveg sérstaklega, að ég teldi þessa till. óþarfa og síðborna vegna þess, að málið er þegar komið í athugun í stjórnskipaðri nefnd. Þetta vil ég alveg sérstaklega leggja áherzlu á, að mér finnst þetta mál þannig til komið, undirbúningur þess með þeim hætti, tillöguflutningurinn er þannig, að það sé ómögulegt að gefa því aðra einkunn en þá, að þetta sé síðborið og heldur óþarft mál. Það er satt að segja mjög sjaldgæft hér á hv. Alþ., að menn flytji þáltill. um mál, sem allir vita, að eru í undirhúningi í rn. og á vegum ráðh. Þetta gerðum við, held ég, tæpast á þeim tíma, sem við vorum í stjórnarandstöðu. Þetta vildi ég nú minna á. Og það er líka misskilningur hjá hv. flm., að ég hafi talið, að þeir flm. væru að spenna bogann ákaflega hátt fjárhagslega með þessari till. sinni. Og hann fór að vitna til frv., sem ég flutti ásamt hv. þm. Sigurvin Einarssyni í fyrra um námskostnaðarsjóð, þar sem gert er ráð fyrir mikilli fjárútvegun til þessa málefnis, og ég er þess sinnis enn í dag, að það sé þörf á mjög miklu fjármagni í þessu skyni, ef þetta málefni á að nást fram, þannig að nokkurt verulegt gagn sé eða sómi að. Hins vegar er hægt að hugsa sér það, að gera megi þetta námskostnaðarkerfi þannig úr garði, að það geti aukizt stig af stigi og verið framkvæmt í áföngum, en ég er alveg sannfærður um, að það kostar marga tugi millj. kr. að koma þessu kerfi á, og jafnvel mundi mig ekki furða neitt á, þó að það yrði eitthvað á 2. hundrað millj., sem til þessa þyrfti.

Ég hef þá ekkert grunaða um það að spenna bogann fjárhagslega hátt með þessari till., það er síður en svo, en mér finnst hins vegar, að þessi tillöguflutningur þeirra sé mjög einkennilega tilkominn og í rauninni óþarfur. Till. er a.m.k. mjög síðborin, eins og ég hef margtekið fram og þess vegna og af þeirri ástæðu fyrst og fremst óþörf. Hins vegar hef ég ekkert á móti því, að þessi till. fái þinglega meðferð hér, gangi til nefndar, sé þar skoðuð, en ég held, að það liggi alveg í augum uppi, hvernig málalyktir þar verða, því að þetta mál er í endurskoðun, þetta mál er í athugun hjá stjórnskipaðri nefnd og ég sé ekki, að það sé eðlilegt eða rétt af Alþ. að sýna ekki biðlund, á meðan þessi nefnd starfar, þegar líkur eru fyrir því, að hún ljúki störfum á þessu þingi. Þetta vildi ég enn ítreka.