15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (3982)

61. mál, verðtrygging lífeyrissjóða verkafólks

Flm. (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um verðtryggingu lífeyrissjóða verkafólks. Eins og ég tók fram í grg. með nefndri till., voru lífeyrissjóðir verkafólks stofnaðir samkv. samningum milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga frá 19. maí 1969. Iðgjaldagreiðslur hófust frá og með 1. jan. 1970. Með tilkomu þessara lífeyrissjóða var stigið skref til aukins réttlætis, eða svo virtist vera. Þá þegar höfðu ýmsar stéttir í þjóðfélaginu átt hlutdeild í lífeyrissjóðum, sem bættu þeim, mökum þeirra og börnum upp tekjumissi, er þeir höfðu orðið fyrir vegna elli, örorku eða dauða. Lífið er áhættusamt, en við tökum þátt í því, og á vegi okkar verða ýmsar hættur, svo sem slys og sjúkdómar, og enginn veit, hvenær hann missir starfsorku sína til tekjuöflunar langan eða skamman tíma. Elli fylgir nær alltaf lækkun vinnutekna eða alger missir þeirra. Þá er fráfall fyrirvinnu fjárhagslegt áfall fyrir þá, sem notið hafa framfærslunnar. Einstaklingar hafa löngum reynt að tryggja sig fyrir slíkum áföllum með því að eignast varasjóð á einn eða annan hátt, en tekizt misjafnlega eftir ástæðum. En skilningur fólks á samhjálp og samábyrgð hefur aukizt. Almannatryggingar voru stofnaðar til þess að taka við verstu áföllunum, tryggja ellilífeyri, örorkulífeyri, makabætur, fjölskyldubætur, mæðralaun og barnalífeyri fyrir þau börn, sem misst hafa foreldri sitt, annað eða bæði. Því miður hafa almannatryggingar ekki valdið þessu hlutverki sínu til fulls. Við viljum skapa okkur meira öryggi, og hver hópurinn á eftir öðrum stofnar sinn lífeyrissjóð, og er hlutverk þeirra á margan hátt náskylt hlutverki almannatrygginga.

Um 40 þús. manns munu vera í lifeyrissjóðum landsmanna, þegar lífeyrissjóður bænda er tekinn með. Samkv. upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni munu vinnutekjur þjóðarinnar, þar með taldar tekjur atvinnurekenda, hafa numið árið 1970 um 23 milljörðum kr. og árið 1971 eru þær áætlaðar um 25.5 milljarðar. Nú er ekki greitt iðgjald til lífeyrissjóða af öllum þessum tekjum. Hjá flestum lífeyrissjóðum eru greidd 10% af fastalaunum. Ef gert er ráð fyrir, að einungis sé greitt af 70% af heildarvinnulaunum þjóðarinnar, er ekki óraunhæft að gera ráð fyrir, að eftir 3—4 ár verði heildargreiðslur til lífeyrissjóða árlega um 2 milljarðar kr. Og þá er ekki reiknað með frekari verðþenslu. Á nokkrum árum mun því ráðstöfunarfé þeirra nema tugum milljarða kr. Þetta sýnir, hve gífurlegt fjármagn er á þennan hátt sparað saman til þess að gegna því hlutverki, sem lífeyrissjóðunum er ætlað, og um leið mikilvægi þess að ávaxta þetta fjármagn á þann veg, að sjóðirnir verði færir um að standa við skuldbindingar sínar. Þeir verða að verðtryggja sig á einn eða annan hátt.

Lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna eru verðtryggðir af ríkinu, sjóðir bæjarstarfsmanna af viðkomandi bæjum og bankamanna af viðkomandi bönkum. Auk þess er gerð þessara sjóða á þann veg, að þeir gegna hlutverki sínu mjög vel, eins og vera ber. Greiðsla til lífeyrisþega í þessum sjóðum ákvarðast sem hundraðshluti af launum þeim, sem fylgja því starfi, sem sjóðfélagar gegndu síðast, eins og þau eru á hverjum tíma. Augljóst er, að verðtryggðir lífeyrissjóðir eru, meðan verðbólga stendur yfir, öðrum sjóðum mun hagstæðari fyrir sjóðfélaga, enda bera þar allir skattgreiðendur þjóðarinnar allar viðbótargreiðslur vegna verðbólgu. Hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins námu þær árið 1969 37.5 millj. kr. eða 47.2% af heildarlífeyrisgreiðslum sjóðsins, árið 1970 nær 68 millj. og árið 1972, þegar síðasti samningur starfsmanna ríkis og bæja verður framkvæmdur að fullu, er áætlað, að ríkið verði að greiða 140 millj. eða nálægt 70% af heildarlífeyrisgreiðslum sjóðsins eða 115% miðað við það, sem sjóðurinn sjálfur getur greitt. Sjóðurinn sjálfur mun geta greitt 65 millj. það ár. Í verðtryggðum lífeyrissjóðum er áætlað, að séu um 8 þús. manns í mjög misjöfnum launaflokkum. og þar af leiðandi greiðir ríkið þeim mesta uppbót vegna verðbólgu og raunverulegra kauphækkana, sem hæstu launaflokkunum fylgja.

Verkafólk hefur oftast orðið að sækja rétt sinn með harðri baráttu í hendur atvinnurekenda og óvinveittra valdhafa. Það hefur ávallt orðið að slá af kröfum sínum í samningum og eru lífeyrissjóðir eitt dæmi um það. Þeir eru óverðtryggðir, og gerð þeirra fullnægir ekki kröfunni um upprunalegan tilgang. Greiðslur eru miðaðar við meðaltal grundvallarlauna næstu fimm ár áður en taka lífeyris hefst og breytist ekki eftir það, þó að kauphækkanir verði í því starfi, sem lífeyrisþegi hafði síðast. Hann fær því hvorki bættar raunverulegar kauphækkanir eða verðbólgu. Það fé, sem sparað var til þessa lífeyris, getur orðið lítils virði. Með því að bera saman greiðslur úr verðtryggðum lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og óverðtryggðum lífeyrissjóði verkafólks munum við sjá óréttlætið blasa við okkur. Við skulum taka dæmi. Félagi í lífeyrissjóði verkafólks er með 300 þús. kr. í árstekjur við upphaf töku ellilífeyris. Hann hefur aflað sér 30 ára réttinda. Þá fær hann 60% af meðaltali grundvallarlauna síðustu fimm ára, sem mundi verða 150 þús. á ári og breytist ekkert eftir það, hvernig sem kaupgjalds— og verðlagsmál verða. Ríkisstarfsmaður, sem einnig hefur sömu árslaun við töku ellilífeyris eða 300 þús. kr. og hefur aflað sér 30 ára réttinda, fær í upphafi 60% af þeim launum. sem hann hefur, þegar greiðslan hefst, eða 180 þús. kr. á ári. Kaupþensla er áætluð 8%, sem er mun lægri en verið hefur s.l. 8 ár. Þá var hún um 13%. Eftir 14 ár verður lífeyrir þessa félaga í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna orðinn 450 þús. kr. á ári. Lífeyrir hins, sem er í óverðtryggða lífeyrissjóðnum, verður eftir þessi 14 ár eins og í upphafi 150 þús. kr. á ári. Það verður orðinn 300 þús. kr. mismunur á ári á lífeyri þessara tveggja manna, sem hófu töku lífeyris á sömu launum. og þennan mismun greiða allir skattgreiðendur þjóðarinnar.

Með því að sýna fram á þennan mismun vil ég benda á það óréttlæti, sem látið er ríkja í þessum málum, að þeir, sem standa undir þjóðarframleiðslunni, skuli ganga með svo skarðan hlut frá borði. En þá komum við að spurningunni, hver á að greiða verðtryggingu þessa sjóðs? Ég er búin að geta þess, hve gífurlegar fjárupphæðir eru sparaðar hjá þjóðinni með tilkomu allra þessara lífeyrissjóða. Atvinnuleysistryggingasjóður er einnig sparnaður af launatekjum verkafólks, og þetta er þegar orðinn voldugur sjóður, og þegar tekst að halda uppi blómlegu atvinnulífi, vex þessi sjóður hröðum skrefum. Í sjóðum launafólks mun vera saman kominn stærsti hluti af sparnaðarfé þjóðarinnar, og ég veit ekki, hvort það er fjarstæða að hugsa sér, að þessi sparnaður af launatekjum landsmanna muni í framtíðinni eiga stærstan hluta í uppbyggingu þjóðarinnar. Lífeyrissjóðirnir taka þegar stóran þátt í uppbyggingu húsnæðis landsmanna, en til að halda í við þá uppbyggingu er áætlað, að þurfi 2.5 milljarða á ári. Launafólk á þessa sjóði. Það hefur samið um þá við atvinnurekendur í samningum um kaup og kjör, og það er mikils um vert, að það hafi sjálft ráðstöfunarrétt yfir þessu fjármagni og hið pólitíska vald sé í höndum fulltrúa þeirra á Alþ. Ef tekst að ávaxta þetta fjármagn til arðbærrar uppbyggingar landsins, ætti að vera hægt að verðtryggja lífeyri allra launþega.

Eins og ég hef áður tekið fram, eru um 40 þús. manns í lifeyrissjóðum landsins, þar af um 8 þús. í verðtryggðum sjóðum. Við vitum þegar, hvað ríkið verður að greiða til verðtryggingar á lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. En það er ekki raunhæft að reikna út frá þeim greiðslum. Í fyrsta lagi hafa nýgerðir samningar þeirra þar mikil áhrif, þar sem laun vissra hópa hækka gífurlega, svo að í þessum hópi eru lang tekjuhæstu einstaklingar þjóðarinnar, og einnig þeir, sem hafa nú þegar lífeyrisgreiðslur upp á nokkur hundruð þús. á ári, þeir hæstu með yfir 600 þús. Í öðru lagi er enn þá svo langt þangað til verulegar greiðslur hefjast úr lífeyrissjóðum verkafólks, og við skulum vona, að það takist að hafa meiri hemil á verðþenslu hér eftir en hingað til. Í þriðja lagi er ekki ólíklegt, að skilningur fari vaxandi á jöfnuði á meðal þegnanna, og þá e.t.v. að sameina alla lífeyrissjóði í einn sjóð með sömu réttindum til allra.

Ég held, að hv. alþm. muni við nánari athugun skilja, að það misræmi, sem í þessum málum ríkir, verður ekki til lengdar þolað og þess vegna þurfi að fara fram alvarleg athugun á lausn þessa vanda. Ég tel ekki óeðlilegt, að ríkið og þá e.t.v. Atvinnuleysistryggingasjóður verðtryggi hlut launþega eða 4%, en atvinnurekendur sinn hlut eða 6%. Ég veit, að þetta eru gífurlegar greiðslur. En þó tel ég óhjákvæmilegt, að við stefnum að því að samræma verðgildi lífeyris allra landsmanna og stuðla að því, að allir mætist á jafnréttisgrundvelli, því að hvar annars staðar getum við mennirnir mætzt?

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til heilbr.— og félmn.