08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

119. mál, verðlagsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég mátti til með að gera svolitla aths. við málflutning hæstv. viðskrh., þar sem hann sá ástæðu til þess að væna mig um það, að ég vissi ekki, hvað orðið kaupmáttaraukning þýddi. Það kemur stundum fram í máli hæstv. ráðh., að þeir líta ekki þeim augum á hv. þm., að þeir séu sæmilega skyni bornir menn. Ég ætla nú ekki að fara að þrátta við hæstv. ráðh. um þetta, en mér finnst það heldur lítil virðing, sem hæstv. ráðh. sýnir alþm. með svona málflutningi.

Það, sem ég var að segja hér, var það, að forsrh. lýsti yfir því á sínum tíma, að það hefði verið mat ríkisstj. að vel athuguðu máli, að þjóðarbúið og atvinnuvegirnir þyldu styttingu vinnutíma, lengingu orlofs, eins og segir í stjórnarsamningnum, auk 20% kaupmáttaraukningar án verðhækkana, án verðbólgu. (Gripið fram í.) Hann sagði þetta. (Gripið fram í: Er það hið sama, verðhækkun og verðbólga?) Það er spurning, hvort hæstv. ráðh. hefur einhverja sérstaka skýringu á því, hvort verðhækkanir eru ekki verðbólga, það kann að vera fróðlegt að hlusta á fyrirlestur hæstv. ráðh. um það. Hitt er svo annað mál, að nú hafa orðið kauphækkanir, sem eru innan við það, sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Samt sem áður er gert ráð fyrir verulegum verðhækkunum líka, og hæstv. ráðh. minnti á það, að hér væri við lýði kerfi, sem verðtryggði laun, þ.e. vísitölukerfi. Það merkir það, að ef verðhækkanir verða, þá hækkar kaup, og þannig koll af kolli, og þetta er það, sem nefnt er verðskrúfa eða verðbólga, þannig að það, sem hæstv. viðskrh. boðar hér, er allt annað en það, sem hæstv. forsrh. sagði, þegar hann svaraði minni fyrirspurn um það, að það væri mat ríkisstj., að þetta væri allt saman hægt að gera án verðhækkana. Það var einfaldlega þetta, sem ég var að benda á, og ég held, að hæstv. sjútvrh. eða viðskrh. geti illa sannað, að hér hafi þeir báðir sagt það sama, hann og hæstv. forsrh. Hér er um að ræða grundvallarmismun á sjónarmiðum þeirra, enda held ég satt bezt að segja, að yfirlýsing hæstv. forsrh. hafi verið byggð á óstöðugri undirstöðu.

En ég endurtek það, það er eins og fyrri daginn hér í þingsölum, að það fer eftir því, hvaða ráðh. talar hverju sinni, hvern skilning þeir leggja í þennan ágæta stjórnarsáttmála, og það fer líka eftir því, hvaða ráðh. talar hverju sinni, hvern skilning þeir leggja í stjórnarstefnuna.