22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

71. mál, innlent lán

Sigurður E. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ritað með fyrirvara undir nál. meiri hl. hv. fjhn. Nd. á því frv. til l. um heimild ríkisstj. til að taka innlent lán, sem hér liggur fyrir til umr. Af því tilefni hef ég kvatt mér hljóðs til að gera grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari er fólginn og hver eru helztu rök mín fyrir honum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú um alllanga tíð hefur hv. Alþ. veitt ríkisstj. hvers tíma heimild til þess að taka innlent lán með þeim hætti, sem hér hefur verið gert ráð fyrir. Fyrst er heimild veitt árið 1964, og þá voru boðin fram til sölu spariskírteini fyrir 75 millj. kr. Síðan hefur slík spariskírteinasala verið árviss viðburður, og rök ríkisstj. hafa mér vitanlega ætíð verið í aðalatriðum hin sömu. Leitað hefur verið heimilda til spariskírteinasölu á þeim forsendum, að með þeim hætti væri verið að stuðla að almennum sparnaði og afla fjár til nauðsynlegra opinberra framkvæmda. Til þessa hefur Alþ. veitt heimildir til spariskírteinasölu fyrir 787 millj. kr., eftir því sem ég fæ bezt séð. Verði nú umbeðin heimild veitt, verður það til þess, að spariskírteinasala frá upphafi nemur um 1 milljarði kr.

Rök hv. ríkisstj. nú fyrir umbeðinni heimild eru efnislega í aðalatriðum hin sömu og áður. Tilgangurinn er að efla sparnað innanlands og draga þannig úr neikvæðum áhrifum þeirrar miklu þenslu, sem nú er í efnahagslífinu. Í annan stað er tilgangurinn að afla fjár til nauðsynlegra opinberra framkvæmda.

Alþfl. hefur allt frá 1964 talið þjóðhagslega rétt og hagkvæmt að efna til sölu á verðtryggðum spariskírteinum á þessum grundvelli, og frá þjóðhagslegu sjónarmiði er hann enn sama sinnis, þótt komin sé til valda í landinu ríkisstj., sem hann á ekki aðild að. Í þessu efni sem öðrum mun hann láta það ráða öllu um afstöðu sína, hvað hann telur þjóðarhag fyrir beztu.

Við meðferð þessa máls hefur verið upplýst, að fyrstu 8–9 mánuði þessa árs hefur sparifjáraukningin í peningastofnunum landsmanna numið um 19~, og er það meiri aukning en varð á sama tíma á s.l. ári, en hins vegar hefur útlánaaukningin orðið nokkru minni. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um það, að þótt nú kæmi til sala spariskírteina, er næmi 200 millj. kr. til viðbótar þeim 103 millj. kr., er spariskírteini voru seld fyrir fyrr á þessu ári, þá næmi spariskírteinasala ársins að fjárhæð samtals 303 millj. kr. þó ekki hærri prósentu af nettóinnlánaukningu bankakerfisins á þessu ári en yfirleitt hefur verið undanfarin ár. Við meðferð málsins átti ég einnig von á því, að bankakerfið yrði mun andvígara þessari fyrirhuguðu skírteinasölu en í ljós kom, að mínu mati. Ég vil einnig fagna því, að sú breyting verður nú gerð, að skírteini verða skráð á nöfn kaupendanna.

Herra forseti. Ég legg áherzlu á það, að ég tel tvennt varða miklu um framkvæmd þessa máls, verði frv. að lögum. Í fyrsta lagi tel ég óhjákvæmilegt, að fram komi yfirlýsing af hálfu hæstv. fjmrh. um, að lánsfé þessu verði eigi varið nema eftir ákvörðun Alþ. Það kemur að vísu fram í 5. gr. frv., en ég tel þetta þó nauðsynlegt sakir þess, að í grg. þess er rætt um, að ríkisstj. muni „væntanlega“ gera till. til Alþ. um notkun þess. í annan stað tel ég brýnt, að sala spariskírteinanna verði af hálfu ríkisstj. gerð í samráði við bankakerfið, þannig að tryggt sé, að það geti staðið við áður gerðar skuldbindingar sínar og hún verði eigi til að draga úr getu þess til að annast sem áður fjármögnun atvinnuveganna. Á þessum tveimur atriðum byggist minn fyrirvari, og í trausti þess, að hér takist vel til, hef ég ritað mitt nafn undir álit meiri hl. fjhn.