17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

119. mál, verðlagsmál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja örlitla brtt. við þetta mál. sem hér er á dagskrá. Það varðar ekki þann þátt þess, sem hér hefur helzt verið um deilt. Mér er að sönnu ekki sérlega geðfelld sú skipan, að ákvörðun verðlagsmála sé í höndum sérstakrar opinberrar nefndar, fjarri því. En mér er ljóst, að þingmeirihluti er fyrir því, að svo verði áfram. Ég vil því gera ýtrustu tilraun til þess að hæta þetta mál örlítið.

Brtt. er fólgin í því, að ég legg til, að einn fulltrúanna í verðlagsnefnd verði skipaður samkv. tilnefningu Kvenfélagasambands Íslands. Núna er nefndin þannig skipuð, að af neytenda hálfu eru fjórir fulltrúar af níu nefndarmönnum alls, og eru þessir fjórir tilnefndir af launþegasamtökunum. Þessir fjórir menn eiga að vera í nefndinni sem fulltrúar neytenda í landinu, og vissulega eru þeir það.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að Kvenfélagasamband Íslands hefur sérstaklega í sínu starfi unnið að málefnum neytenda, og það með meiri og merkari hætti en ég vil segja, að nokkur annar aðili í landinu hafi gert, á því svíði, sem þar er um að ræða. Ég hef þar bæði í huga þátt Kvenfélagasambandsins í húsmæðrafræðslu almennt á öllu landinu og þá ekki síður starf Leiðbeiningarstöðvar húsmæðra hér í Reykjavík. En ég hygg, að væru til skýrslur um öll þau þúsund, sem sú starfsemi hefur sparað neytendum með hlutlausri upplýsingastarfsemi, þá sæjust sannarlega í þeim skýrslum merkar staðreyndir. Ég tel þarna vera um starfsemi að ræða, sem er eðlilegt, að tekið sé mark á og reiknað með, þegar rætt er um það, að fulltrúar neytenda eigi að mega sín einhvers, en svo tel ég einmitt eiga að vera um verðlagsmál.

Fulltrúar neytenda eru núna þrír fulltrúar frá ASÍ og einn fulltrúi BSRB. Mér finnst eðlilegt, að í stað hinna þriggja fulltrúa frá ASÍ yrðu þeir tveir, en einn kæmi frá Kvenfélagasambandi Íslands, frá BSRB yrði áfram einn og aðrir nm. eins og segir í frv.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þessi till. hljóti skilning hv. þdm. Hún er engan veginn fram sett til þess að beina spjótum gegn ASÍ, það er svo fjarri því, enda mun sú skipan, sem þarna er á höfð nú, fyrst og fremst vera til þess að hafa jafnvægi milli neytenda annars vegar eða öllu heldur verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og vinnuveitenda hins vegar og stjórnvalda. Ekki er svo að skilja, að allir þessir aðilar séu ekki neytendur, en sá aðili, sem mér finnst með réttustum hætti vera fulltrúi neytenda í landinu, er sá, sem kemur fram sameiginlega fyrir hönd allra húsmæðra á Íslandi, og það er Kvenfélagasamband Íslands.

Á þessum dögum, þegar mönnum verður svo tíðrætt um það, að konur eigi að hafa meiri áhrif og meiri rétt í þjóðfélaginu en hingað til hefur verið, — og sannarlega eru íslenzkar konur alltaf að sækja sig á því sviði — má telja mjög eðlilegt, að hv. alþm. sýni vilja sinn í þessum efnum og sinn hug til kvenþjóðarinnar í landinu, til húsmæðranna í landinu, til fræðslu um rekstur heimila í landinu, sinn hug til þeirra, sem hafa það efst á sinni stefnuskrá að sjá um hag heimilanna í landinu og eru fróðastir um neytendamál. Mér sýnist allt þetta mæla með því, að hv. Alþ. samþykki þessa brtt., sem hér hefur verið lögð fram og miðar að áhrifum Kvenfélagasambands Íslands á verðlagsmál.