25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (4040)

107. mál, sjómælingar

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 138 er till. til þál. um sjómælingar. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að sjómælingum við Ísland verði hraðað svo sem unnt er. Jafnframt verði stefnt að því að afla sem gleggstrar alhliða vitneskju um landgrunnið allt, svo sem viðáttu þess, dýpistakmörk, botnlag og hvers konar notagildi. Kostnaður sá, er af ályktun þessari leiðir, greiðist úr ríkissjóði.“

Till. þessari var vísað til fjvn., og hefur n., eins og fram kemur í nál, á þskj. 538, rætt málið á fundum sínum. Eins og fram kemur í grg. fyrir till., beinast sjómælingar fyrst og fremst að gagnasöfnun á hafinu umhverfis landið. sem á megi hyggja við útgáfu sjókorta og annarra upplýsinga í þágu sjófarenda. Till. þessi til þál. um sjómælingar var send til umsagnar Sjómælingum Íslands, sem nú er sjálfstæð stofnun. Í svari forstöðumanns stofnunarinnar koma fram margvíslegar upplýsingar varðandi þetta mál. Svo sem kunnugt er, byggjast þau sjókort, sem fyrir hendi eru og ná yfir hafsvæði við strendur landsins allt út á 200 metra dýpi, á sjómælingum, sem danska sjómælingastofnunin gerði upp úr síðustu aldamótum. en hafa síðan verið aukin og endurbætt. Samt sem áður vantar enn mikið á, að sjómælingar og sjókortagerð yfir svæði við strendur Íslands séu komin í viðunandi horf. Þvert á móti má segja, að hér sé um ótæmandi verkefni að ræða.

Með stækkun landhelginnar og yfirlýsingum Íslendinga um óskoraðan rétt sinn yfir öllu landgrunninu og hvers konar auðæfum þess ber okkur vissulega skylda til að kanna þau verðmæti. sem hér getur verið um að ræða, en án nákvæmra sjómælinga verður ekki unnt að, að hafast neitt í þeim efnum. Það kemur fram í grg. sjómælingastofnunarinnar, að þau sjókort, sem nú eru fyrir hendi, byggjast að langmestu leyti á mælingum, sem gerðar voru af Dönum eftir síðustu aldamót og það við mjög frumstæð skilyrði miðað við þá tækni, sem hægt væri að beita í dag. Fjárveitingar til sjómælinga hafa á undanförnum árum verið af allt of skornum skammti til þess, að þar væri hægt að gera nokkurt átak, sem um munaði. Í fjárlögum yfirstandandi árs er fjárveitingin 5 millj. 875 þús. kr., en auk þess hefur stofnunin um 1.5 millj. kr., sem eru áætlaðar tekjur vegna sölu á sjókortum eða öðru því skyldu. Það er álit forstöðumanns Sjómælinga, að sú könnun landgrunnsins, sem fram undan er, sé ekki aðeins nauðsynleg vegna sjókortagerðar, heldur einnig til þess að afla jarð— og jarðeðlisfræðilegrar vitneskju um sjávarbotninn. Þá væri eðlilegt, að verkið væri skipulagt með samvinnu fleiri aðila í huga. En til þess að bæta aðstöðu Sjómælinga frá því, sem nú er, telur forstöðumaðurinn m.a. nauðsynlegt:

1. Að fjölga starfsfólki við stofnunina til þess að flýta fyrir kortagerð og útgáfustarfsemi.

2. Hann telur bráðnauðsynlegt, að stofnunin fái til umráða litið skip, 40—50 smálestir, sem væri sérstaklega byggt fyrir þessa starfsemi. Byggingarkostnaður slíks báts er talinn vera um 1—12 millj. kr. og gert er ráð fyrir. að á þessum sjómælingabát verði sex manna áhöfn og séu það sjómælingamennirnir, svo að útgerðarkostnaður yrði þá í lágmarki.

3. Þá telur forstöðumaðurinn nauðsynlegt að fá til afnota færanlegt radíóstaðsetningarkerfi, sem mundi auðvelda mælingar og flýta fyrir, þar eð framkvæmd mælinganna yrði þá ekki eins háð skyggni og veðri eins og nú á sér stað. Auk þess mundi mögulegt að nýta nýjustu tækni til mælinga, sem er notkun rafeindareiknis, en með því er um mjög mikinn tímasparnað að ræða. Heildarathuganir á landgrunninu eru varla taldar framkvæmanlegar án þess að hafa til notkunar slík staðsetningarkerfi. Verð þeirra tækja, sem hér um ræðir, er að sjálfsögðu nokkuð mismunandi eftir notagildi eða 4—10 millj. kr.

Við athugun fjvn. á þessu máli kom það einnig fram, að ríkisstj. væri nú með mál þetta í sérstakri athugun. M.a. var upplýst, að til boða stæði að fá fullkomin mælitæki frá Bandaríkjunum til þess að vinna að mælingum með, en þá vantar það, sem enn skiptir miklu máli, hentugt skip til að vinna með, en þess verður að vænta, fyrst þessi mælitæki standa til boða án nokkurs kostnaðar, að þá muni hæstv. ríkisstj. sjá sér fært að ráða bót á því, sem á vantar, þ.e. að útvega Sjómælingum skip til starfseminnar. Ég veit ekki betur en að t.d. skip eins og Albert gæti verið mjög hentugt í þessu skyni og það er einmitt núna ekki við nein sérstök störf. Þess vegna væri hentugt og heppilegt að ráðstafa því skipi nú sumarlangt til þessarar starfsemi, sem er brýn nauðsyn á, að verði hraðað sem fyrst, eins og fram kemur reyndar í nál. fjvn., því að þar segir, eftir að skýrt hefur verið frá þeim umsögnum, sem n. bárust: „Fjvn. telur, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, sem hraða beri framkvæmdum á.“ En með hliðsjón af því, sem ég hef hér sérstaklega vikið að varðandi það, að hæstv. ríkisstj. hefur verið með þetta mál til sérstakrar athugunar og þá með tilliti til þess, hvað hér er um brýnt verkefni að ræða, þá er það till. fjvn., að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj.