17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

119. mál, verðlagsmál

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorð, en ég tel rétt, að fram komi hér annað sjónarmið varðandi hlutverk og stöðu kvenna í þjóðfélaginu í dag. Eins og hv. 12. þm. Reykv. tók fram, þá er nú mikil hreyfing í þá átt, að þær seilist til aukinna áhrifa í þjóðfélaginu, en ég hygg, að hv. 12. þm. Reykv. hafi nokkuð misskilið, á hvern hátt ætlazt er til þess, að þær geri það. Enda þótt ég hafi fullan skilning á því starfi, sem Kvenfélagasamband Íslands gegnir í þessum málum, þá vil ég taka fram, að till. hennar gengur í afturhaldsfarveg og stefnir að því að festa konur í sessi húsmæðra, gera þær sjálfkrafa án tillits til nokkurs annars að neytendum, fulltrúum neytenda, í stað þess að ætla þeim önnur hlutverk jafnframt.

Ég er ekki svo kunnug starfi verðlagsnefndar, að ég geti talað þar af fullum myndugleik, en ég vil benda á, að það er engan veginn útilokað, að Kvenfélagasamband Íslands gæti tilnefnt fulltrúa, sem væri úr hópi framleiðenda, því að samfélagið er nú þegar breytt frá því, sem var, þegar Kvenfélagasamband Íslands var stofnað.