02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (4059)

30. mál, stóriðja

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Við höfum nú heyrt erkibiskups boðskap. Hæstv. iðnrh. olli mér sannarlega miklum vonbrigðum með því að byrja sitt mál með því, að hann teldi þessa till. vantraust á sig. Það á að vera vantraust á hæstv. iðnrh., að lagt er til, að Alþ. kjósi sérstaka stóriðjunefnd, um leið og ég undirstrika það, að mér finnst mjög eðlilegt, að hæstv. ráðh. hafi sett á laggirnar ráðuneytisnefnd í stóriðjumálum. Það fer náttúrlega eftir því, hvernig ráðh. finna til sín, hvort þeir telja tillöguflutning vantraust eða ekki vantraust. Á sama hátt á það að vera vantraust á hæstv. utanrrh., að borin er fram till. um það, að þeir menn, sem vilja vinna og standa að því að vera aðilar að lýðræðislegri vestrænni samvinnu gegn ofbeldinu, þeir bjóða fram að starfa með utanrrh., að tilnefna mann, þá á það að vera vantraust á ráðh. Sumum finnst það nefnilega dálítið meira og raunverulegt vantraust á ráðh., ef ráðh. á í þessum öryggis— og varnarmálum þjóðarinnar ekki að geta farið ferða sinna nema spyrja fyrrv. og núv. kommúnista ráða í þeim efnum. En það mál verður sérstaklega rætt hér og ég skal ekki eyða tíma í það nú.

Hæstv. iðnrh. talar svipað eins og hann gerði svo oft og einatt hér í þinginu, og hv. þm., sem þá voru hér í þingsölum, kannast við, en reyndar hefði mátt búast við því, að hann talaði með nokkuð öðrum hætti, þó að hann væri ekki búinn að vera iðnrh. nema skamman tíma. Hann talar um, að slíkur samningur verði aldrei gerður eins og samningurinn við svissneska álfélagið. Það er náttúrlega hægt að taka svona upp í sig og fullyrða slíkt. En sannast að segja væri nú eðlilegra, a.m.k. þegar af hálfu ráðh. er talað, að það væri reynt að finna einhverjum slíkum stóryrðum stað. Það á að vera dæmi um það, hversu samningurinn er háskasamlegur, að það er samið um hærra en framleiðsluverð, þegar samið er. Ég legg einnig áherzlu á það, að raforkusamningar við stóriðjufyrirtæki eru ekki það eina, sem líta ber á, heldur yfir samningana í heild. En hæstv. iðnrh. segir hér nú og hefur sagt í Þjóðviljanum: „Ég hef verið að bjóða erlendum aðilum framleiðslukostnaðarverð fyrir rafmagnið, 35 aura, þegar rafmagnið kostar 35 aura.“ Og þeim finnst það ekkert merkilegt. En svissneska álfélaginu var boðið verð, sem er undir framleiðslukostnaðarverði, og það hefði hvorki verið samið við svissneska álfélagið né nokkur önnur álfyrirtæki um 35 aura rafmagnsverð á kwst. 1966 eða á þeim tíma, sem um var samið. Það veit þessi hæstv. ráðh. alveg fullkomlega. Þess vegna er þetta barnalegt dæmi að vera að segja: Ef það hefði verið samið um verð, sem útilokað var að semja um þá, ættum við núna nokkrum milljörðum kr. meira fyrir rafmagnið eftir svo og svo mörg ár. — Nei, það var spurning um það að sjálfsögðu og sérstaklega var vandi á höndum við fyrstu stóriðjuna hér að geta boðið þau kjör, sem aðilar vildu ganga að og auðvitað verður það jafnan svo, að aðilar meta aðstöðu sína, erlendir aðilar, til þess að semja um raforku eða annað hér miðað við aðstöðuna að öðru leyti. Og er líklegt, að þeir vilji frekar borga hærra verð fyrir raforku, þar sem þeir sitja við sjálfan markaðinn á framleiðsluvörunni, en að fara hér norður undir Íshaf og stunda þar framleiðslu sína.

Ef við hefðum átt að byggja fyrir innanlandsmarkaðinn, eins og hinn stórhuga iðnrh. nú vill eingöngu takmarka sig við, þá hefðum við ekki verið búnir að byggja Búrfellsvirkjun núna og það mundi bíða lengi, að henni yrði lokið í þeim mæli, sem hún er. Það mundi muna a.m.k. 10—15 árum, og á sama tíma höfum við stórkostlegan hagnað af rafmagnssölunni við Búrfell. Og á árinu 1970 hefði raforka með áfangavirkjunum, 35 mw, eins og reiknað var út, kostað fimm sinnum meira fyrir Íslendinga frá Búrfellsvirkjun í því formi en hún gerði árið 1970 og á næstu árum þremur til fjórum sinnum meira. Og þó að við förum allt fram til ársins 1980 með því háttalagi, hefði hún kostað 75% meira en eins og virkjað var í stórum áfanga og á þann hátt að semja við stórfyrirtæki. Ég held, að annar eins spekingur hafi sjaldan komið fram í sölum Alþingis og hér birtist áðan, sem hælir sér af því að leggja í stóra virkjun og hafa engan orkunotanda. Það er aðalvinningurinn. Og það er þetta nýja, sem ríkisstj. leggur á borð með sér, og fólk á að falla fram og tilbiðja ríkisstj. fyrir að leggja í virkjanir, án þess að hafa notanda. Það má ekki semja um notandann fyrir fram. Ég sé, að Björn á Löngumýri, sem er góður bóndi, brosir.

Hæstv. ráðh. hefur eftir mér þau orð eftir mína ræðu, að ég hafi talið sjávarútveginn ómerkilegan atvinnurekstur. Var nokkur annar hv. þm. sem heyrði þetta í minni ræðu? Það held ég ekki, ekki einn einasti, enda var ekkert orð um það. Ég hef hins vegar verið að reyna að gera mér grein fyrir, eins og hæstv. ráðh. þarf sýnilega að gera, hvernig mismunandi atvinnugreinar verka á þjóðarbú okkar efnahagslega miðað við það, hvaða áherzlu ber að leggja á eina atvinnugrein öðrum fremur. Mér er það alveg fullkomlega ljóst, að sjávarútvegurinn er og hefur verið aðalatvinnugrein okkar og verður um langa framtíð og það er fráleitt að það finnist nokkurs staðar nokkru sinni, hvorki í þessari ræðu, sem ég flutti áðan, né endranær nokkurt orð af minni hálfu um það, að sjávarútvegurinn sé ómerkilegur atvinnuvegur, fjarri því. Hins vegar hefur hæstv. iðnrh. sem fyrrv. ritstjóri verið að reyna að segja fólki ósatt um þetta mörg undanfarin ár og er nú farinn að trúa þessum ósannindum sjálfur.

Hann segir, að sjávarútvegurinn hafi verið afræktur af fyrrv. ríkisstj., af því að hún hafi ekkert séð nema stóriðju. Og það hafi verið reiknað út, að hann yrði að vera afræktur, af því að við þyrftum mannafla úr sjávarútveginum í stóriðju. Stóriðja var einmitt valin til þess að renna fleiri stoðum undir okkar atvinnulíf, m.a. vegna þess, að hún er þess eðlis, að í sjálfu sér þarf hún hlutfallslega lítinn mannafla. Hins vegar spinnur hún á ýmsan hátt utan um sig og hefur hliðarverkandi áhrif, þannig að í raun og veru hefur hún miklu meiri þýðingu fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar en mannaflinn, sem vinnur við hana beint, segir til um.

Það er ekki í annan tíma, sem meiri vöxtur hefur verið í sjávarútvegi en á síðasta áratug. Ég er ekki með tölur núna fyrir framan mig um það. En það var geysilegur vöxtur í fiskiskipaflota okkar Íslendinga. Við gersamlega byggðum hér spánnýjan fiskiskipaflota með betri tækjum og betur búinn með betri veiðarfæri en nokkurs staðar annars staðar þekktist. Hins vegar er það rétt, að sjómennirnir, útgerðarmennirnir og einstaklingarnir, sem réðu ferðinni, ákváðu fyrst og fremst að miða þennan fiskiskipaflota við síldveiðina, eins og hún var þá og gerðu ráð fyrir, að hún mundi haldast. Þar af leiðandi óskuðu þeir ekki, sem að þessum atvinnuvegi stóðu, eftir því að endurnýja á þessu tímabili með neinum hraða, síður en svo, togaraútgerð og nýbyggingar togara á Íslandi. En það var ekki ríkisstj. sök. Við eignuðumst á þessum tíma flota, sem er, þó að hann hafi verið byggður upp einmitt með það fyrir augum að vera á síldveiðum, það vel úr garði gerður, að mikið af þessum skipum veiða sem togskip eins og togarar og eru í þeim efnum miklu afkastameiri en eldri togarar á sínum tíma voru hjá okkur, ekkert sambærilegt við togara af sömu stærð, eins og allir þekkja til. Að öðru leyti hefur svo þessi mikli floti sótt á fjarlægari mið, þegar síldin brást hér og þeir menn, sem að rekstri hans hafa staðið, bæði útgerðarmenn og sjómenn, hafa sýnt einstaka atorku og dugnað við að laga sig að breyttum kringumstæðum, bæði með því að sækja á fjarlægari mið, sem þeir sóttu ekki á áður, til síldveiða, og eins hafa menn að miklu leyti umskapað veiðiaðferðir og lagt rækt við aðrar fiskveiðar, en áður var til stórkostlegs hags fyrir þjóðarbúið í heild.

Ég hef svolítið vikið að, hvernig þessi gerbreytta stefna núv. hæstv. ríkisstj. er í orkumálunum, en það er fyrst og fremst að hafa ekki markað fyrir raforkuna, sem á að framleiða. Hæstv. iðnrh. segir hér, að við Sigöldu fáist raforkan á 35 aura kwst. Er þetta rétt? Við hvað er þá miðað? Er þá miðað við Sigölduvirkjun framkvæmda í einum áfanga, 150 megawött og fullnýtingu 150 megawatta, eða við hvað er miðað? Kostar rafmagnið 35 aura kwst. frá Sigöldu, ef hún er byggð í smá áföngum, þremur áföngum? Og hvenær verður fullnýting jafnvel í smá áföngum, og eru ekki þessir 35 aurar miðaðir við fullnýtingu á orkunni, þeirri orku, sem framleidd er á hverjum tíma? Þetta er mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um. Það er kannske erfitt að átta sig á slíku eða ætlast til þess, að menn svari því í umr., en þetta er auðvitað verulega mikið atriði fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að fá allar upplýsingar um það, hvað það er, sem fram undan er. Fólk heldur nefnilega, almenningur í þessu landi, að það geti fengið á næstu árum nægjanlega raforku til húsahitunar fyrir 35 aura kwst. Ég veit ekki, að hve miklu leyti er sambærileg virkjunaraðstaðan við Sigöldu og við Búrfell á sínum tíma. Auðvitað var stórátakið við Búrfell, byrjunarátakið, miklu erfiðara. Sigölduvirkjun er auðveldari núna í mjög ríkum mæli, vegna þess að Búrfellsvirkjunin er til og vegna þeirrar vatnsmiðlunar, sem þegar er orðin til í Þórisvatni. En miðað við það, sem raforkan hefði orðið dýrari frá Búrfellsvirkjun, ef hún hefði verið byggð í smá áföngum, þá eru það engir 35 aurar á kwst., sem fólkið getur hitað hús sín upp við á næstu árum, verði virkjað í smá áföngum við Sigöldu.

Í sumar kom hæstv. iðnrh. fram í útvarpi, eins og flest allir ráðh. Ég man ekki, hvort Magnús Torfi Ólafsson, hæstv. menntmrh., var einn í kippunni, en hann er þá sá eini, sem ekki kom í júlí mánuði, þegar sjónvarp var ekki, og það voru sífellt viðtöl við þessa hæstv. ráðh. Út af fyrir sig skal ég ekkert hafa við það að athuga. Ef stjórn er mynduð, þegar þing situr ekki, þá virðist manni að vísu, að eðlilegt sé, að hæstv. forsrh. geri grein fyrir stjórnarmynduninni og það er sá háttur, sem hér hefur áður verið hafður á, en það þurfti nú hver að gera grein fyrir sér. Það var að vísu aldrei sagt frá þrífætinum með þessari ráðherranefnd í öryggismálunum í sumar. En þá sagði hæstv. iðnrh., að það fengist sönnun fyrir því, hvað raforkusamningurinn við álfélagið hefði verið óhagstæður, vegna þessa 35 aura kwst. kostnaðar á virkjuninni frá Sigöldu. Auðvitað sannar það ekki neitt, hvað hinn raforkusamningurinn var óhagstæður, vegna þess að sú orka, það verð, sem samið var um, var fyrir ofan kostnaðarverð þar, en hérna er kostnaðarverðið 35 aurar, rétt og slétt kostnaðarverð. En þá sagði hæstv. ráðh. annað og meira. Hann sagði það og lýsti því yfir, að ég sem fyrrv. iðnrh. hefði margoft sagt það, að það væri ekki hægt að virkja Sigöldu nema með stóriðjusamningi, samningi um stóriðju. Þetta hefur svo Þjóðviljinn síendurtekið, og í viðtali við Þjóðviljann sagði hæstv. ráðh. ekki alls fyrir löngu, — ég man ekki, hvaða dag það var, — þá endurtók hann þessi ósannindi, og ég leiðrétti þau þá. Og ég leiðrétti þau enn, og mér þykir vænt um, að hæstv. iðnrh. hefur komið hér einmitt í Alþ. og sagt þessi ósannindi, því að ég lýsi hann hér ósannindamann að þessu. Það er ekki orð um þetta í umr. um Sigölduvirkjun á Alþ. á s.l. vetri. Það var vitnað í viðtal, sem ég átti við Morgunblaðið. Spurt var, hvort það væri skilyrði fyrir Sigölduvirkjun, að það yrðu samningar um stóriðju. Ég sagði, að ef virkjunin ætti að ganga hratt og virkja ætti stóran áfanga, þá þyrfti auðvitað stóriðju. En það er ekki orð um það, að það sé ekki hægt að virkja Sigölduvirkjun án þess að stóriðjusamningur sé. Það er hægt að gera það eins og við gerðum á undanförnum árum. Virkjuðum smám saman fallvötn okkar, en þá er það með miklu dýrari raforku en ella. Og það er þetta, sem ég lagði áherzlu á. Með stóriðju er hægt að framkvæma stórvirkjanir í slíkum stíl í fallvötnum landsins, að það verður bæði til stórkostlegra hagsbóta fyrir þjóðarbúið og almenningur í landinu fær miklu ódýrari orku. Hitt eru alger ósannindi, að ég hafi marglýst því yfir, að það væri ekki hægt að virkja Sigölduvirkjun nema með samningi um stóriðju. Hins vegar var ég sömu skoðunar og Landsvirkjunarstjórnin, þegar hún bað ráðh. um leyfi til þess að mega hagnýta lög frá Alþ. um virkjun við Sigöldu, að það væri hagkvæmara að hafa raforkusamning um stóriðju, því að stjórn Landsvirkjunar lagði mikla áherzlu á það, að hún mundi freista þess að reyna að ná samningum um orkufrekan iðnað til þess að gera okkur Íslendingum betur kleift að ráðast í þessa virkjun og rísa undir kostnaðinum og fá ódýrari raforku sjálfir. Það skilur þess vegna ekki á milli mín og stjórnar Landsvirkjunar í þessu máli, en það skilur svolítið á milli mín og hæstv. iðnrh.

Hæstv. ráðh. segir, að það muni aldrei verða samið aftur þannig, að útlendingar einir eigi fyrirtæki hér og það á að hans mati eða eftir hans ræðu áðan að vera eitthvað nýtt, að nú vilji ríkisstj. semja við erlenda aðila. Jú, að vísu. Einu sinni voru þeir nú óalandi og óferjandi og þá mátti ekki hafa neina erlenda aðila hér með einu móti eða öðru. Nú er þó sagt, að það megi semja við erlenda aðila, ef við erum með í fyrirtækinu og eigum meiri hluta í fyrirtækjunum. En þetta er bara ekkert nýtt, alls ekki neitt nýtt. Ég hef látið í ljósi á opinberum vettvangi, að langflestar af þeim margháttuðu viðræðum, sem fóru fram við erlenda aðila, meðan ég veitti iðnrn. forstöðu, byggðust á sameiginlegri eignaraðild okkar og þeirra og eftir atvikum annaðhvort þannig, að útlendingarnir ættu minni hl. í fyrirtækjunum eða e.t.v. ef aðstæður væru þannig, að þeir ættu meiri hl., en Íslendingar eignuðust smám saman meiri hl. eða fyrirtækin öll í heild. Hér er þess vegna ekki neitt nýtt á ferðinni. En hins vegar varð að meta aðstöðuna í sambandi við álbræðsluna, og það kom til álita, að við værum eignaraðilar að álbræðslu, bæði í sambandi við samningagerðarumleitanir við Svisslendingana og eins við önnur álfyrirtæki, sem við áttum aðild að. Ég man t.d. eftir einu álfyrirtæki, sem sagði: Þið byggið álbræðsluna, eigið hana sjálfir, 100% íslenzk eign. Það er eins og stendur Dansk ESSO á einhverju stóru ESSO — fyrirtæki í Danmörku. Það vita allir, að Danir eiga ekki neitt í því. Al íslenzkt álfyrirtæki, við látum ykkur fá alla peningana, sem til þess þarf, við fjármögnum verksmiðjuna, og þið borgið okkur svo með því, að við fáum alla álframleiðsluna frá ykkur með því verði, sem um semst hjá okkur. Þetta er ein leiðin til þess að semja við aðila. Það er hægt að gera þetta svona. Í fyrsta lagi með því að eiga ekkert í fyrirtækinu sjálfu, en fá lánað fé eingöngu frá öðrum álfyrirtækjum, sem tryggja sér svo alla hrááls framleiðsluna. En það er nú ekki búið til hráál úr engu, svo að það þarf hráefnið. Það er ekki til hér á landi. Bauxítinu þarf að breyta í súrál, sem er svo flutt hingað núna, og þetta er stór slagur um gervallan heim á milli stóru álfyrirtækjanna að eignast bauxítnámur í Afríku og Ástralíu og öðrum stöðum utan Evrópu og Ameríku, þar sem fyrirtækin eru þegar búin að nota svo og svo mikið af þessu bauxíti eða þessu hráefni, og í þessa glímu gat verið nokkuð erfitt fyrir okkur að ráðast, ekki stærri en við erum og með eina álbræðslu. Hitt var svo líka, að það er ekki nóg að framleiða hráálið, það þarf að selja það. Þar eru stórir risar einnig á heimsmarkaðinum varðandi söluna og kaupin á hráálinu og ég hef sagt frá því, að ég held, hér í þinginu á sínum tíma, að við hefðum einmitt og ég hefði gert mér sérstakt far um það að leita ráða hjá Norðmönnum, sem var nú vitnað til hér áðan, um það, hvort þeir teldu ráðlegt fyrir okkur að vera aðilar að verksmiðjum, hluthafar í verksmiðjum með einhverjum aðilum eða taka þann hátt, sem við gerðum í álsamningunum, að erlendi aðilinn ætti allt fyrirtækið, allt hlutaféð í fyrirtækinu, eins og ég sagði áðan, en við hefðum svo það hagræði, sem við að öðru leyti teldum, að við gætum skapað okkur af því í sambandi við skattgreiðslu fyrirtækisins hér, raforkusölu og önnur viðskipti, bein og óbein.

Það voru ráðleggingar góðra manna og mjög reyndra í Noregi, sem ég átti viðræður við og ekki sízt vegna þeirrar reynslu, sem þeir þá nýverið höfðu haft af viðskiptum um stofnun hlutafélags í Husnes með Svisslendingunum, að það væri miklu ráðlegra fyrir okkur með eina slíka verksmiðju og öruggara að fara þannig að, eins og við gerðum. Nú getur þetta í sjálfu sér verið matsatriði, og ég skal ekki gera mikið veður út af því eða fara að deila um það hér. En auðvitað er þetta matsatriði á hverjum tíma og þó að hæstv. iðnrh. segi núna, að það yrði aldrei gerður samningur á svipuðum grundvelli aftur hér, þá veit ég ekki, ef honum á eftir að verða langra lífdaga auðið í stóli iðnrh., nema sú tíð kynni að renna upp, að honum sýndist nú kannske þetta snjallræði, hvernig þeir fóru að Jóhann Hafstein og félagar hans í gamla daga, og ætli það sé ekki bezt, að ég semji bara á þeim forsendum.

Við skulum bara taka eitt lítið dæmi. Við getum byggt eitt stærsta orkuverið á Austurlandi með því að veita vötnum, ef menn vilja það — nú er ég ekki endilega að segja það, því að þá verða nú kannske sumir ekki glaðir hér, — veita vötnum austur í Fljótsdalshéraðið og nýta það mikla fall, sem þar fengist. Og það væri hægt að fá mjög ódýra orku, sem væri nægjanleg fyrir við skulum segja, eins og 5—6 álbræðslur af þessari stærð, sem við höfum hérna. Eða 14, segir þm. Austf., segjum 14, já. Aðalatriðið er það, að þarna væri hægt að virkja stórkostlega, en auðvitað ekki til húsahitunar. Ég býst við, að þeim hv. þm., sem greip fram í, sé það líka alveg ljóst. En það væri hægt með stórkostlegri álframleiðslu t.d. eða kannske annarri efnavinnslu. Og mér þætti mjög ólíklegt, ef menn ættu þess kost, að menn teldu þá ráðlegt, að Íslendingar settu sig í þá stórkostlegu áhættu, sem því væri samfara að eiga svo og svo mikinn hluta af eða vera meðeigendur í slíkum álbræðslum og teldu sig þá miklu öruggari að geta fengið sjálfir ódýrustu orku, sem þeir eiga völ á, samið til tiltekins tíma, jafnvel þótt það væru 25 ár, og gætu þá skrúfað fyrir orkuna fyrir hin erlendu álfyrirtæki, þegar þar að kemur, því að það getum við gert við álbræðsluna.

Því hefur stundum verið haldið fram, að okkur liggi ekkert á og við eigum ekki að vera að selja útlendingum orkuna, því að við þurfum sjálfir á henni að halda eftir 60—70 ár, allri virkjanlegri orku í fallvötnum okkar. Hvað sem því nú líður, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að við gerum slíka orkusölusamninga til takmarkaðs tíma, til 25 ára. Þá breytast þeir, e.t.v. einhverja framlengingu o.s.frv., en allra lengsti tími í orkusölusamningnum við Svisslendingana eru 25 ár + endurskoðaðir samningar til 10 ára + 10 ára eða 45 ár. En þá erum við lausir allra mála. Þá getum við hagnýtt þessa orku með einhverjum öðrum hætti, ef okkur finnst það hagkvæmara, samið okkur inn í álbræðsluna þá, vegna þess að þeir standa nú ekki vel að vígi, þegar við getum skrúfað fyrir rafmagnið og látið storkna í öllum kerunum á einni nóttu. Svisslendingarnir vildu semja við okkur um, hvernig ætti að fara að, að þessum tíma liðnum. Ég sagði, að við skyldum ekkert vera að hugsa um það. Það væri nóg, að þeir menn, sem tækju við af okkur þá, stæðu við kranann og semdu við þá upp á þau býti eða með þeirri aðstöðu að geta sjálfir skrúfað fyrir rafmagnið. Og ég öfundaði þá ekkert að standa í slíkri samningagerð og það væri miklu betra, að við semdum ekkert nú. Þeir voru ekkert ánægðir yfir því, en við það varð að sitja.

Nei, ég held, að við séum allir sammála um það, að í langflestum tilfellum væri mjög æskilegt að geta samið um eignaraðild okkar í fyrirtækjunum og sennilega oftast langæskilegast, að við gætum haft meirihlutaaðild eða a.m.k. eignazt hana. En ég vil aðeins vekja athygli manna á því, að menn ættu vel að hugsa um, að álframleiðsla er að þessu leyti ákaflega sérkennileg og einkennileg, vegna þess að hér er aðeins um framleiðslu á hrááli að ræða, sem er liður í langri framleiðslukeðju, ótrúlega langri, frá því að námurnar eru nýttar og bauxítið unnið og þangað til hinar ótrúlega margvíslegu framleiðslueiningar á álinu eða framleiðsluvörur koma á markaðinn, eins og nú er orðið, því að það er farið að nýta þetta efni í miklu fleiri hluti en áður var. Auk þess er þarna við mikla erfiðleika að glíma á erlendum markaði, samkeppni, eins og ég vék að og þetta mundi sjálfsagt allt koma til athugunar. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði mikill ágangur á okkur, að erlend álfyrirtæki óski eftir álbræðslum hér alveg á næstu árum, vegna þess hvernig álmarkaðurinn er. En við skulum vona, að við getum gert samninga við erlenda aðila um orkunotkun hjá okkur, hagkvæma orkunotkun og þess vegna fagnaði ég því, að hæstv. ráðh. hefur fengið sér ráðunauta til þess að stuðla að því. Hann segir að vísu, að þetta sé engin stóriðjunefnd. Ég geri ráð fyrir því, að þetta sé þó fyrst og fremst nefnd, sem á að athuga möguleikana á því og ráðleggja hæstv. ráðh. um það, hvernig hægt sé að ná hagkvæmum samningum um nýjan, orkufrekan iðnað á Íslandi, sem geri okkur betur kleift en ella að framkvæma á skemmri tíma stórvirkjanir og með hagkvæmari raforku í fallvötnum okkar en ella væri.

Ég sagði í upphafi máls míns, að það hefðu verið mér vonbrigði, að hæstv. ráðh. skoðaði þessa till. sem vantraust á sig. Eins og hann sagði sjálfur, höfum við oft deilt um þessi mál fyrr og síðar hér í þinginu og erum að gera og eigum sjálfsagt eftir að gera. En ég flyt ekki þessa till. sem vantrauststillögu á hæstv. iðnrh., og ég vil biðja hann að endurskoða hug sinn, því að mér hefði þótt vænna um, að hann hefði tekið því með glöðu geði, að það er lagt til, að Alþ. leggi til í þeirri baráttu, sem við eigum fram undan, fasta stóriðjunefnd, sem kosin er, eins og lagt er til, reglulega að afloknum hverjum þingkosningum og sem ætti að geta orðið bæði þessari hæstv. ríkisstj. og öðrum ríkisstj. til styrktar í þessum þýðingarmiklu málum, bæði nú og í framtíðinni. Út frá þessu sjónarmiði óska ég eftir, að hæstv. iðnrh. líti á þennan tillöguflutning og ég bið hv. þm. að taka tillöguflutninginn frá þessu sjónarmiði, þannig að við megum gera okkur vonir um, að slík till. eins og þessi fái góðan byr í gegnum Alþ. og hún er engan veginn vantraust á ráðh. Till. á að styrkja þann aðila, sem hefur forgöngu í þessum málum nú, sem er hæstv. iðnrh. og það hefur aldrei hvarflað að mér, að slík nefnd, ef hún kæmist á laggirnar, yrði neinn hemill á hæstv. iðnrh., heldur yrði hún honum til styrktar. Sjálfur fann ég oft til þess, að okkur var mjög áfátt. Við höfðum litlu liði á að skipa og það mundi vera til styrktar að fá Alþ. strax með í spilið, ekki á síðara stigi málsins, sem ég þó stuðlaði að í sambandi við álsamningana, heldur að það væri hér á hverjum tíma fastanefnd, sem bæði getur fylgzt með því, sem er að gerast, og haft frumkvæði að því að gera hluti, sem ella væru ekki gerðir. Ég vil leyfa mér þess vegna að vonast til þess, eins og ég sagði í minni frumræðu, að þessi till. geti fengið afgreiðslu í þinginu og þurfi ekki að valda ágreiningi, því að henni er engan veginn ætlað að verða vantraust á einn eða annan.