02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (4061)

30. mál, stóriðja

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég missti af fyrri hluta þessara umr., þar sem ég áleit, að það væru mörg önnur dagskrárefni, sem yrðu fyrr tekin fyrir, og var bundinn við önnur skyldustörf hér áðan. En þótt svo hafi verið, vil ég aðeins rifja upp nokkur atriði í sambandi við þær umr., sem ég hef hlýtt á, og bið þá afsökunar, ef ég endurtek eitthvað, sem hér hefur áður verið sagt.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt. að það komi fram að gefnu tilefni, ummæla hæstv. iðnrh., að þegar Landsvirkjunarstjórn stendur frammi fyrir því, hvaða virkjun hún á að velja og biðja um leyfi til að fá að bjóða út, þá eru valkostirnir annars vegar 150 mw. virkjun í Sigöldu og hins vegar 150 mw. virkjun í Hrauneyjafossum. Nokkrum vikum áður, en þessi ákvörðun var tekin í Landsvirkjun um Sigölduvirkjun, barst tilkynning um það á stjórnarfund Landsvirkjunar, að hæstv. iðnrh. ætlaði sér að láta endurskoða eldri virkjunarvalkosti í virkjunarmálum og m.a. þann valkost, sem hann flutti till. um á síðasta þingi, um virkjun í Brúará, 22—30 mw. Landsvirkjunarstjórn fékk ekkert að heyra um niðurstöðu af þeirri endurskoðun, á smávirkjanaleiðinni. Enda var það skoðun í stjórninni, að smávirkjanaleiðinni hefði verið hafnað þegar á Alþ. 1966 og það, að engar fréttir bárust frá hæstv. iðnrh. til Landsvirkjunarstjórnar um niðurstöðu af endurskoðun á smávirkjanaleiðinni, hefur í mínum huga verið sönnun þess, að Alþ. valdi rétt 1966. Þegar stórvirkjanaleiðin var farin, að frumkvæði fyrrv. ríkisstj. og að nú með endurskoðuðum áætlunum væri það enn svo, að rétt væri að halda stórvirkjunum áfram.

Það er rétt, að Landsvirkjunarstjórn tekur ákvörðun um stórvirkjun, um Sigölduvirkjun í þessu tilviki, án þess að full vissa sé um orkusölusamning til stóriðju. En valið á Sigöldu umfram Hrauneyjafossa er vísbending um, að í huga Landsvirkjunarstjórnar er þetta tengt saman, að samningar takist um stóran orkusölusamning við erlendan aðila. Það liggur alveg ljóst fyrir, að jafnvel þótt húshitun aukist að mun, getur hún ekki orðið til þess að bera uppi Sigölduvirkjun með óbreyttu rafmagnsverði. Hún getur aukið markaðinn að einhverju leyti, en þó ekki fyrr en eftir allmörg ár. Og hefði það verið svo, að ekki væri hugsað til annars en virkja annaðhvort Sigöldu eða Hrauneyjafossa og þá annan hvorn staðinn í áföngum, t.d. 50 mw. áföngum, sem er auðvitað langtum dýrara, þá hefði verið rökrétt og var samhljóða álit í Landsvirkjunarstjórn, að velja fremur Hrauneyjafossa á undan. Þetta veit hæstv. iðnrh. Ég er ekki að gagnrýna hann fyrir það að hafa ekki gripið í taumana. Ég er honum þakklátur og virði, að hann gerði það ekki, því að þessi ákvörðun Landsvirkjunarstjórnar og eftirfarandi leyfi iðnrh. til þeirrar virkjunar er í raun og veru yfirlýsing um það, að sækjast verður eftir sölusamningum raforku í stórum stíl við erlendan notanda. Hvort það er svo hagkvæmara eða aðstaða Íslendinga betri að sækjast eftir slíkum samningi eftir að virkjun er ákveðin eða á undan, um það vil ég fullkomlega draga í efa, að nokkur regla sé undir öllum kringumstæðum til, því að svo getur auðvitað farið, ef við höfum þegar ákveðið og hafið framkvæmdir við stórvirkjun, að við getum lent í þeirri aðstöðu, að við þurfum fyrir hvern mun að leita samninga og við verðum þá, þegar út í framkvæmdina er komið, að sætta okkur við lélegri samningsskilyrði, en ef við gengjum frá samningum fyrirfram.

Í þessu tilviki var ekki um það að ræða, að unnt væri að ganga frá raforkusölusamningum við erlenda aðila fyrir fram og það er þess vegna ekkert gagnrýnisefni af minni hálfu gagnvart hæstv. iðnrh. eða ríkisstj. í heild. En ég ítreka og legg áherzlu á, að ég trúi ekki öðru en hæstv. iðnrh. hafi gert sér grein fyrir því, að höfuðröksemd í ákvörðun Landsvirkjunarstjórnar fyrir vali á Sigöldu umfram Hrauneyjafossa var einmitt sú, að takast mætti að selja raforkuna með stórum orkusölusamningi, þannig að þá tækist ekki eingöngu að virkja við Sigöldu 150 mw. í einum áfanga, heldur mætti í beinu áframhaldi halda áfram með virkjun Hrauneyjafossa á eftir, annarra 150 mw. Ef takast á að virkja 300 mw. í beinu áframhaldi á næstu árum, þá liggur í augum uppi, að við þurfum á stórum raforkusölusamningum að halda. Þetta ætti hæstv. iðnrh. að vera ljóst. og þess vegna er ég mjög ánægður, að hann hefur óbeint lagt blessun sína á slíka stefnu, sem er Íslendingum mjög mikið hagsmunamál.