12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (4068)

30. mál, stóriðja

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er um að ræða, er á þskj. 30 og hefur legið lengi fyrir hv. Alþ. Allshn. hefur rætt till., en hún gat ekki orðið sammála um að samþykkja till. óbreytta. Till. er flutt af sjálfstæðismönnum og er um það, að Alþ. kjósi sjö manna stóriðjunefnd. Hlutverk nefndarinnar skal vera: Í fyrsta lagi að kanna möguleika til aukinnar stóriðju í landinu í tengslum við stórvirkjanir í fallvötnum landsins eða aukna hagnýtingu jarðvarmaorku. Í öðru lagi að hafa samráð við þá aðila, sem tengzt gætu verkefnum nefndarinnar eða vinna að skyldum málefnum, svo sem Orkustofnun, Landsvirkjun. Iðnþróunarsjóð, Iðnþróunarstofnun Íslands og Rafmagnsveitur ríkisins. Í þriðja lagi skal nefndin gefa Alþ. skýrslur um framvindu mála og aldrei sjaldnar en í upphafi þings og fyrir þingslit og leggja fyrir Alþ. till. til framkvæmda.

Eins og kunnugt er, hefur hæstv. ríkisstj. skipað viðræðunefnd í stóriðjumálum. Það var það, sem stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. vitnuðu til og töldu m.a. af þeim ástæðum ekki eðlilegt að samþykkja þá till. óbreytta, sem hér er um að ræða. Það er og vitað mál, að stuðningsflokkar ríkisstj. höfðu afl til þess að fella þessa till. Við fulltrúar Sjálfstfl. í allshn. gengum þess vegna til samkomulags í n. um það, að n. vísaði till. til ríkisstj. með því fororði, sem segir í nál. á þskj. 617. Þar segir þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt till. á þskj. 30 um stóriðju á Íslandi og kosningu sjö manna stóriðjunefndar, eins og gert er ráð fyrir í till. Nefndin felst á þau sjónarmið, að Alþ. hafi jafnan úrslitaáhrif um stóriðju í tengslum við stórvirkjanir. Gæti því verið hagstætt, að stöðug athugun þeirra mála verði til meðferðar hjá ríkisstj. og Alþ. Slíkt þyrfti hins vegar að samræma sambærilegum nefndarstörfum og aðstæðum, sem á döfinni eru hjá ríkisstj.

Í þessu nál. er það viðurkennt, að eðlilegt sé, að Alþ. sé jafnan með í ráðum og hafi úrslitaáhrif um stóriðju í tengslum við stórvirkjanir. Þá er enn fremur viðurkennt það sjónarmið, að eðlilegt sé, að ríkisstj. hafi stöðugt samband við Alþ. um þau mál, sem á döfinni eru í stórvirkjunar— og stóriðjumálum. Þetta er sameiginlegt álit allshn. Ég mun þess vegna ekki orðlengja þetta miklu meira og ekki haga orðum mínum sem frsm. í þetta sinn á annan veg en þann, sem allir nm. gætu sætt sig við.

Það er viðurkennt af hæstv. ríkisstj. og Alþ., að það sé ekki unnt að ráðast í stórvirkjanir á Íslandi, nema því fylgi stóriðja. Að því fylgi orkufrekur iðnaður, sem kaupir orkuna. Það virðist einnig vera álit hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að nauðsynlegt sé að beita sér fyrir stóriðjuframkvæmdum. Hins vegar er nokkur skoðanamunur um það, hvernig að þessum málum skuli standa og hvernig aðgerðum skuli hagað. Skal ég ekki fara nánar út í það að þessu sinni. Við sjálfstæðismenn höfum oft lýst því, hvernig beri að standa að þessum málum, en við höfum fengið gagnrýni fyrir það, og skal ég ekki í þetta sinn fara nánar út í það, en ég tel eftir atvikum, að það sé nokkurs virði, að allshn. gat sameinazt um nál. fyrir þessari till., þótt það leiði ekki af sér samþykkt á till. í því formi, sem hún var flutt.