14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (4099)

174. mál, virkjun Jökulsár eystri í Skagafirði

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um rannsókn á aðstæðum til virkjunar í Jökulsá eystri í Skagafirði. Till. er að finna á þskj. 334, og er hún á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara þegar á þessu ári rækilega könnun á aðstæðum til virkjunar í Jökulsá eystri í Skagafirði.“

Ég þarf ekki að flytja ítarlega framsöguræðu fyrir þessari till. umfram þau fáu orð, sem fylgja henni í grg. Till. er einföld í sniðum og þarf ekki mikilla skýringa við. Raforkumálin koma oft til umræðu bæði manna á milli og á fundum og hér á hv. Alþ. Því að segja má, að þau komi hér til umr. í meira eða minna mæli á hverju þingi og á síðasta fundi í Sþ. voru til umr. tvær þáltill. mjög svipaðar að efni og þessi, sem voru fluttar af þm. úr Vesturlandskjördæmi, og á fundi í Sþ. þar áður svaraði hæstv. orkumálarh. fyrirspurn frá hv. 1. þm. Norðurl. e. varðandi það, hvort hæstv. ríkisstj. mundi halda áfram fullnaðaráætlun um virkjun í Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss. Og hæstv. ráðh. svaraði því á þá lund, að svo mundi gert. Ég fagnaði þessu svari hæstv. ráðh., því að satt að segja hafði flögrað að mér og ég hygg mörgum öðrum, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki í huga stór áform um virkjanir á Norðurlandi. En hvað sem um það er, þá vænti ég þess, að haldið verði áfram athugunum á virkjunaraðstæðum í þessum landshluta, og geri mér vonir um, að þessi þáltill. fái góðar undirtektir.

Á Norðurlandi er yfirvofandi skortur á raforku, svo sem kunnugt er, og raunar má segja, að þessi skortur sé þegar fyrir hendi. Í mínu kjördæmi er svo komið, að um helmingur eða jafnvel fullur helmingur þeirrar raforku, sem til nota er, er fenginn með rekstri dísilstöðva. Og þessar dísilstöðvar munu nú að miklu leyti vera nýttar til fulls. Það er því ekki seinna vænna að, að því sé alvarlega hugað, með hvaða hætti megi leysa úr raforkuþörf þessa landshluta. Ekki með því að auka sífellt notkun dísilstöðvanna, heldur með því að virkja vatnsaflið, sem við athugun kemur í ljós, að hagkvæmt sé að virkja. Í þessu sambandi leyfi ég mér að minna á, að það mun hafa verið á þingi 1963—1964, að við þm. Norðurl. v. fluttum hér frv. til l. um virkjun Svartár í Skagafirði. Þetta frv. náði ekki fram að ganga, en hefði verið ráðizt í þessa virkjun þá, má ætla, að hún hefði tekið til starfa á árinu 1966. Þessi virkjun hefði leyst dísilstöðvarnar á þessu orkusvæði fyllilega af hólmi fram að þessum tíma, og nú hefði, að ég hygg, stofnkostnaður Svartátvirkjunar verið greiddur með mismuninum á framleiðsluverði rafmagns frá virkjuninni og þess rafmagns, sem á sama tíma hefur verið framleitt með dísilafli á þessu orkuveitusvæði. Þetta dæmi virðist mér sýna glögglega, hvernig fjármunum er í raun og veru á glæ kastað með rekstri dísilstöðvanna. Á síðasta þingi voru samþykkt heimildarlög fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að láta virkja Svartá, en nú hefur það boð verið látið út ganga, að þessi heimild verði ekki notuð, og má vissulega á það fallast, að virkjun Svartár ein nægir ekki til þess að svara til frambúðar raforkuþörfinni á þessu orkuveitusvæði.

Ég sagði áðan, að rafmagnsmálin kæmu oft til umræðu, og þarf engan að undra það, því að segja má, að alhliða uppbygging alls atvinnulífs í nútíma þjóðfélagi grundvallist á orkuframleiðslu, og ég vil segja allt daglegt líf okkar og heimilishald byggist mjög á því, að við eigum kost á nægri og ódýrri raforku.

Dagana 9. og 10. sept. á s.l. ári hélt Fjórðungssamband Norðlendinga fund á Ólafsfirði, og þar komu þessi mál mjög til umræðu, og um þau var samin ítarleg ályktun. Á þessum fundi var skýrt frá athugunum, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa látið fram fara á möguleikum til virkjunar í Norðurlandskjördæmi vestra. Þar á meðal var minnzt á virkjun eða virkjanir í Jökulsá eystri í Skagafirði. Þar var talað um, að virkja mætti í fyrsta áfanga 16 mw. og kostnaðurinn mundi ekki verða meiri en sem svarar 36 aurum hver kwst. Nú vil ég taka það fram, að ég leit svo á, að þessi athugun og þessir útreikningar hafi verið algerlega á frumstigi og mér er kunnugt um, að nokkrar meiri athuganir hafa farið fram á virkjunaraðstæðum í þessari á, en ég veit ekki, hvað þær athuganir hafa leitt í ljós og þætti mér vissulega vænt um, ef hæstv. orkumálarh. gæti upplýst mig og hv. þingheim um það, hvað þessar athuganir hafi leitt frekar í ljós. Ég get sem sagt ekki lýst virkjunaraðstæðum í Jökulsá eystri í Skagafirði og m.a. þess vegna óska ég eftir því, að frekari athuganir fari fram.

Þegar við ræðum um raforkumálin, einkum nú á síðari tímum, þá hafa mjög blandazt inn í þær umræður náttúruverndarsjónarmið. Þetta tel ég vel farið, og það ber að athuga hverju sinni mjög gaumgæfilega, þegar ráðizt er í virkjanir, að til sem minnstra spjalla komi á landi okkar og náttúru. Ég fullyrði náttúrlega ekkert um það, hvort ekki kunni að koma til einhverra náttúruspjalla við virkjun Jökulsár eystri í Skagafirði, en þó hygg ég, að þau spjöll verði þar miklu minni en e.t.v. víða annars staðar. Það hagar svo til, að Jökulsá eystri rennur langan veg eftir Austurdal í djúpu gljúfri. Og ef hafizt væri handa um að virkja t.d. við Merkigil, eins og ég hef heyrt talað um, þá get ég ekki búizt við því, að sú virkjun mundi leiða til neinna náttúruspjalla. Fiskveiði er lítil sem engin í Jökulsá eystri.

Á fundinum, sem ég gat um áðan, sem haldinn var á Ólafsfirði, var samþ„ eins og ég sagði, ítarleg ályktun. Í þeirri ályktun stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþingið leggur áherzlu á, að orkuöflun verði innan fjórðungsins sjálfs, þar sem fjöldi hagkvæmra virkjunarmöguleika bíður nýtingar, og slíkar framkvæmdir sitji fyrir orkuflutningi frá stórvirkjunum á Suðurlandi.“

Ég held, að í þessari ályktun komi greinilega fram sá vilji, sem er fyrir hendi hjá okkur Norðlendingum allflestum, þ.e. að það verði kannað til hlítar, áður en ráðizt verður í það að flytja raforkuna frá Suðurlandi norður, hvort ekki sé fullt eins hagkvæmt eða jafnve hagkvæmara að ráðast í virkjanir fyrir norðan.

Það er mikið rætt um jafnvægi í byggð landsins, og það er talað um byggðastefnu. Í byggðastefnunni skilst mér, að það hljóti fyrst og fremst að felast, að nýtt verði þau náttúrugæði, sem eru til staðar í hverju byggðarlagi. Þess vegna er það, að við Norðlendingar leggjum mjög mikið upp úr því, að þessi fallvötn okkar verði könnuð og það ítarlega athugað, hvort það eigi ekki að vera fyrsta skrefið raforkumálum þar nyrðra að virkja eitthvert af þessum fallvötnum. Við höfum hins vegar ekkert á móti því og teljum það alveg sjálfsagt að, að því komi, að virkjanir sunnan fjalla verði tengdar virkjunum fyrir norðan og raunar allt rafkerfið í landinu verði tengt saman.

Herra forseti. Ég hefði nú raunar óskað þess, að þessi till. færi til hv. fjvn., því að vissulega hefur hún í för með sér kostnað, ef hún verður samþ., en þar sem till. þeirra hv. þm. Vesturl., sem ég sagði frá áðan, var vísað til allshn., þá hygg ég, að það sé rétt, að þessi till. fari einnig til þeirrar hv. nefndar.