18.05.1972
Neðri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (4113)

45. mál, endurskipulagning sérleyfisleiða

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Samgmn. hefur fjallað um þá till., sem hér er um að ræða, en hún er frá Skúla Alexanderssyni, sem sat um skeið hér í hv. d. í vetur, og er um endurskipulagningu sérleyfisleiða. Það var áskorun til ríkisstj. um að láta athuga, hvort ekki sé tímabært að taka til rækilegrar endurskoðunar og endurskipulagningar sérleyfisleiðir langferðabifreiða. N. komst að þeirri niðurstöðu, að enda þótt hún hafi jákvæða afstöðu gagnvart till., þá telur hún samt réttast eftir atvikum, að henni sé vísað til ríkisstj. N. hafði leitað nokkurra umsagna um málið, fyrst til Skipulagsnefndar fólksflutninga, sem mælti með því, að till. yrði samþ., í öðru lagi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem einnig mælti með því, að till. yrði samþ., og í þriðja lagi til Félags sérleyfishafa, sem ekki voru jafnánægðir með till. og töldu í nokkuð löngu máli, að nánast væri ósköp litið að. En við komumst að þeirri niðurstöðu, að með því að till. bar með sér athugun á þessu og að vísa till. til ríkisstj. er nokkurn veginn það sama, að okkur fannst, þá varð n. einhuga um þessa afgreiðslu málsins.