04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (4120)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Áður en þetta mál gengur til n., langar mig að segja örfá orð um það. Ég hef orðið var við nokkurn áhuga í sambandi við hálendi landsins á undanförnum árum. Það hafa verið fluttar hér fyrr á þingi till., sem stefna í þá átt, að Alþ. lýsi yfir eign ríkisins á öllu hálendi landsins. Þessi till. gengur öllu lengra en aðrar till. hafa áður gengið í þessa átt, og ef efni hennar yrði lögfest, þá sýnist mér, að hér væri gerð alger bylting á sviði eignarréttarins. Í raun og veru boðar till. slíka byltingu, því að ef gengið væri inn á það, sem hér er farið fram á í sambandi við hálendið og í sambandi við veiðirétt í vötnum í byggð og óbyggðum, þá er ekki víst, hvar staðar yrði numið. Komið gæti þá til síðar, að ríkið vildi eignast fleira en þetta, þessi auðæfi, og hvar ætti þá að nema staðar?

Svo er það annað, sem ég undrast nokkuð mikið í sambandi við svona tillögugerð. Það er það, hvað ætlar ríkið að gera við eignarrétt á þessum svæðum? Hvað ætlar það að hafa upp úr honum, og til hvers eru slíkar till. fluttar? Ég hef orðið var við, að ein af þeim rökum, sem flutt eru fyrir þessu, séu þau, að hálendið eigi að vera öllum frjálst til umferðar. Ég hef aldrei orðið var við það, að það væri nokkurs staðar nokkurt ferðafrelsi takmarkað á afréttum eða hálendi landsins. Ég veit ekki betur en víða um óbyggðir landsins séu nú ýmis félög búin að byggja sér sína skála, þar sem þau hafa bækistöð. Það var byggður skóli uppi í Kerlingarfjöllum og virkjað vatnsfall fyrir hann, og mér er ekki kunnugt um neina árekstra við viðkomandi sveitarfélag.

Enn er annað, að um hálendi landsins er það þannig og það er nú raunar tekið hér fram í þessum 1. lið, að það skuli taka fyrst og fremst það af hálendinu, sem ekki liggi fyrir skýlausar eignarheimildir um, en það er dálítið einkennilegt um eignarréttinn á eftir, þegar þetta væri búið, því að víða er það þannig, að sérstakar jarðir eiga óvefengjanlega lönd allt inn í jökla. Ég t.d. man eftir einni jörð í Árnessýslu, sem á land inn í Langjökul. Það er það forna höfuðból Úthlið í Biskupstungum. Hún á land alla leið inn í Langjökul. Og ég veit, að hér á nærliggjandi svæðum, t.d. Ölfusingaafrétti, þar eru vissar jarðir, sem eiga geilar í gegnum afréttinn, en aðrir partar hans eru svo í eigu sveitarfélagsins, þar sem jarðirnar í sveitarfélaginu eru taldar eiga hver sinn hlut í til nytja. Sama er að segja um ýmsa aðra afrétti. Það hefur staðið svo lengi sem ég veit til í fjallskilareglugerðum á Suðurlandi, að þeir eigi afrétt, sem að fornu hafi átt. Og þar er átt við jarðirnar, hverja jörð. Hún á sinn vissa part í afréttinum. Það eru hlunnindi, sem fylgja jörðinni og hún má nota. Og meira að segja var svo áður ákveðið, að það var skylt að nota þessi hlunnindi, það var skylt að reka fénað í afrétt. Nú er það að vísu ekki lengur. Mikið af afréttum á Suðurlandi er þannig að mínu viti eign jarðanna sjálfra. Svo eru enn aðrir afréttir, sem eru eign sveitarfélaga, sérstakra sveitarfélaga, og í þriðja lagi eru svo afréttir og afréttarhlutar, sem eru eign einstakra jarða. Það mun t.d. vera mjög mikið um það hér á afréttum Borgfirðinga, að sérstakar jarðir eða sérstök sveitarfélög eiga þar afrétti, sem skýlausar heimildir liggja fyrir um, að sveitarfélögin hafa keypt af stórum jörðum, sem ekki þurftu á þessu landi að halda og gátu ekki nýtt sér það. Þess vegna seldu þær sveitarfélaginu þetta land. Mér sýnist þess vegna, að hér sé boðuð mjög mikil og róttæk bylting á sviði eignarréttar í landinu, sem ég sé ekki fyrir endann á, til hvers muni geta leitt. Og verkefnið hlýtur að vera alveg gífurlegt, ef hér á að ráðast í þetta fyrirtæki, því að ég hygg, að enn sé það svo, að víða í landinu séu mörk ekki glögg, bæði á milli afrétta og heimalanda og eins innbyrðis milli afrétta. Þar séu merki óglögg, en venjur hafa skapazt um smalamennsku á þessum svæðum. Nú er það þannig, að í lögum um afréttarmálefni er það skýlaus skylda að smala þessi lönd, hvort sem þau eru nytjuð til upprekstrar eða ekki. Og sú kvöð er lögð á jarðeignirnar. Bóndi, sem býr á jörð eða á jörð eða hefur jörð til umráða, þó að hann hafi enga sauðkind, er skyldur til þess að leggja fram fé til þess að smala afréttinn, og hann er skyldur til þess að leggja fram fé til þess að hreinsa afréttinn af refum. Hann er skyldur að leggja fram fé eða sveitarfélagið til þess að refaveiðar séu stundaðar, svo sem lög mæla fyrir um. Allt eru þetta skyldur, sem eru vitanlega bundnar þeim réttindum og þeim eignarrétti, sem hlutaðeigendur hafa á þessum svæðum.

Þá kem ég að 3. liðnum í þessari till„ sem hljóðar þannig:

„Hvort veiði— og fiskiræktarréttur í stöðuvötnum og fallvötnum í byggðum skuli ekki fremur bundinn viðkomandi sveitarfélögum en einkaeigendum jarða.“

Það er spurningin um það í þessum lið, hvort ekki sé rétt að taka allan þennan veiðirétt af eigendum hans og færa hann í eign sveitarfélaga. Ég man nú ekki fyllilega og hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér það, en mig minnir, að það sé eitthvað á sjötta hundrað jarðir á Íslandi, sem eiga veiðirétt í ám og vötnum. Og það er að færast sífellt í vöxt, að þessi réttindi, þessi eignarréttur sé að verða meira og meira virði, og við höfum það í lögum, að það má ekki selja veiðiréttinn undan jörðunum. Hann verður að fylgja þeim. Og ég tel það rétta stefnu, að þessi veiðiréttur eigi að fylgja jörðunum. Ef veiðirétturinn væri tekinn undan ýmsum jörðum, væru þær mjög lítils virði á eftir. Sumar jarðir yrðu svo að segja einskis virði, þegar veiðirétturinn væri skilinn frá þeim. Nú skal ég játa það, að sveitarfélögunum ríður mikið á að afla sér tekna og nýta allt, sem hægt er, sér til tekna. En víða er það þannig, að veiðibændurnir, mennirnir, sem eiga veiðiréttinn, eru duglegustu gjaldendurnir í sveitarfélaginu, af því að þeir hafa þessi hlunnindi eða hafa tekjur af þessum hlunnindum. Áður var það svo, að þessi hlunnindi voru eins konar matarbúr fyrir þær jarðir, sem þetta áttu. Lax— og silungsveiði var stunduð og hefur verið stunduð allt frá því að landið var byggt til þess að afla búsílags handa heimilunum og ekki aðeins þeim heimilum, sem áttu réttindin, heldur einnig til þess að bjarga öðrum frá sulti. Um þetta höfum við öflugar og öruggar heimildir fornar og raunar nýjar. Nú er þetta að vísu breytt, og þessi réttindi eru nú meira notuð til tekjuöflunar á annan hátt, með því að selja veiðiréttinn á leigu og hafa upp úr honum peningatekjur. Og mér er kunnugt um það, að hjá ýmsum bændum er þetta meginstofninn í þeirra tekjum, því að jörð getur verið góð veiðijörð og mikilsverð veiðijörð, þó að hún sé léleg búskaparjörð að öðru leyti. Mér þykir þess vegna vera hugsað til að seilast langt til eignarréttar manna, og ég trúi því ekki, að það eigi fylgi að fagna, hvorki með þjóðinni og þá enn síður hér á hinu háa Alþingi, að þetta eigi fylgi að fagna.

Ég ætla ekki að ræða mjög um aðra liði í þessari þál. Ég get verið sammála því, að það sé eins og hv. 1. flm. sagði í sinni frumræðu, að það sé nauðsynlegt að koma sem mest í veg fyrir jarðabrask í landinu, og ég get fallizt á, að það þurfi ýmislegt að gera í því efni, og ég hygg, að ef Alþ. hefur hug á því og getur náð samstöðu um skynsamlegar leiðir að því marki, þá verði það mjög þarft verk að koma á einhvern hátt í veg fyrir það, að jarðir gangi í braski og verð þeirra fari það mikið hækkandi, eins og nú lítur út fyrir, a.m.k. á sumum svæðum landsins, að ungir menn eigi orðið ómögulegt með að taka jörð til búskapar, og það er ekki orðið hægt að búa á ýmsum jörðum, vegna þess hve landið sjálft er orðið dýrt. Þetta er málefni, sem þarf sérstakrar athugunar við. En sú athugun á að mínu viti að byggjast á allt öðrum forsendum en þeim, sem hér eru lagðar til í þessari till. Ég tel t.d. eins og talað er um í 5. lið, að athuga þurfi um jarðhitann. Ég tel, að það sé eðlilegt, að það sé athugað að setja einhver takmörk fyrir því, hvað eignarréttur viðkomandi jarðar nái djúpt í jörðu niður á því sviði hvað hitann snertir. Eins er um það, sem hér er rætt nokkuð um, ýmis verðmæt efni, sem kunna að finnast í landinu, en um þetta höfum við nú skýr lög. Við höfum lög frá árinu 1909 minnir mig, námulög, og það er ekki hægt að gera neitt í sambandi við námugröft hér eða námuvinnslu eða námuréttindi öðruvísi, en að hafa til þess fullt leyfi frá viðkomandi stjórnarvöldum hér, svo að ég hygg, að við séum að því leyti vel settir. Ég tel eðlilegt, að ef gull eða málmar finnast hér í jörðu, þá njóti ríkið verulegra hlunninda af því. En þá tel ég um leið eðlilegt, að eigandi jarðar, þar sem slík hlunnindi eða verðmæti fyndust, hefði þó eitthvert gagn af.

Ég verð að segja það, að ég hef ekki séð boðaða hér á hinu háa Alþingi síðan ég kom hér því líka byltingu á sviði eignarréttarins eins og mér finnst felast í þessari till. Ég vil sérstaklega vara við þeirri stefnu, sem fram kemur að þessu leyti í till., en ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð nú, en vildi aðeins segja þetta, áður en málið gengi til nefndar.