04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (4123)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Á s.l. þingi kom hér till. fram frá einum þáv. þm. Sjálfstfl., sem í stórum dráttum gekk inn á sama sjónarmið og hér er lýst í 1. gr. og að nokkru leyti inn á sjónarmið, sem síðar eru nefnd hérna í þáltill. Þá tók ég til máls um þetta efni og tók undir orð ræðumanns. Þessi ræðumaður, er dómari hér í borg. Hann sagði réttilega frá því, eins og hefur komið fram hér áður, að þetta væri mikið og erfitt vandamál, með eignarréttinn á landinu. Það er erfitt vegna þess, að það skortir skýlausar heimildir á pappír, sem sanna það, að viðkomandi aðilar eða sveitarfélög eigi landið. Það væri ekki svo flókið vandamál, ef þessi skjöl væru til. En það kom líka fram hjá hinum ágæta bónda og 2. þm. Sunnl., að mikið væri byggt á hefð og það hefði gengið svo mann fram af manni. Þetta er líka rétt.

Ég man nú ekki, hvernig Grágás orðar það, en í lögum um gang fisks upp til lands er sagt, að hann skuli eiga frían gang upp, ella gæti sá, sem ætti vatn við ósa, veitt þar sem hann lysti. Menn sáu þegar í fornöld, að það þyrfti að tryggja eignarrétt eða skiptingu landsgæða á milli aðila. Það er ekki víst, að lögformleg skil hafi verið gerð önnur en Grágás segir frá, en við í dag þurfum að hafa þetta skýlausara en þar stendur og verið hefur í gegnum hefð. Það er einmitt þess vegna, sem málinu var hreyft á síðasta þingi og er hreyft enn þá, og Bragi Sigurjónsson, sem sat líka á síðasta þingi, hreyfði málinu í svipuðum anda og við gerum hér.

Það er nauðsyn tímans að fá úr því skorið, með hvaða hætti afnotaréttur af landi skal tryggður. Enginn okkar flm. ætlar sér þá dul að svipta þá, sem setið hafa á jörðunum, afnotarétti, og er mikill munur þar á. En það má benda á í leiðinni, að eignarréttur á fallvötnum og veiðivötnum er víða í ríkiseign og meira að segja í hinu há kapitalíska landi Norður-Ameríku, á Norðurlöndunum og víðar. En réttur bóndans er tryggður fyrir því, og hann er það vel tryggður, að hann er miklu betur tryggður en hér á landi. Hann er tryggður þannig, að bóndinn verður ekki ofurliði borinn af fjármagninu, og það er grundvallaratriði í þessari till. líka. Þeir hefðu mátt minna á það báðir bændurnir, sem hér stóðu upp á undan, að síaukin ásókn er í vissar jarðir og á hverju einasta ári eru þær keyptar upp af fjársterkum mönnum, sem kaupa þær á margar milljónir. Og ef svo heldur fram sem horfir, þá er það mín spá, að um aldamótin verði þeir taldir í hundruðum eigendur að slíkum jörðum, sem búa í borg. Þá væri betra að hafa tryggt í tæka tíð rétt ábúandans á jörðinni, eins og var gert í vatnalögunum í dag og í lax- og silungsveiðilöggjöfinni, að veiðiréttur fylgi staðnum, en lendi ekki í braskinu.

Þetta er auðvitað viðkvæmt mál. Sá staður, þar sem þetta er lang viðkvæmast, er Árnessýsla. Allt vatnasvæði landsins, eins og mætur maður í búnaðarstétt hefur sagt við mig, væri eiginlega ekkert vandamál, væri Árnessýslu sleppt. Þar er hver höndin upp á móti annarri og hefur verið í langan tíma. Það þekkja margir, því miður. Þar hefur ekki náðst samstarf sem víða annars staðar um að gera eitt sameiginlegt átak til hagsmuna, vegna þess að veiðiréttur manna fer þar á mis, þannig að sumir veiða í net og aðrir hafa hagsmuni af stangarveiði. Það er nauðsyn að taka þessi mál alvarlegum tökum. Þar sem eignarrétturinn liggur skýlaust fyrir, verður hann auðvitað tryggður. Engum dettur annað í hug. En ein jörð á Norðurlandi telur sig eiga svæði, sem er stærra en Árnessýsla. Uppi eru raddir um stórkostlega virkjun á Austfjörðum, breytingu fallvatna, stórkostlega rannsókn á hálendi landsins og borun eftir hitaorku. Hvað gerist nú, ef í þetta er eytt tugum milljóna og allt í einu skapast þarna hreyfing á dulinni eign eða dulinni orku, sem er metin á mörg hundruð milljónir, að tilstuðlan ríkisins? Hver á þetta? Bóndinn, sem segist samkv. gamalli hefð eiga landssvæði, sem er stærra en Árnessýsla? Er ekki kominn tími til þess, að hv. Alþ. setji um þetta einhver lágmarkslög og eitthvert lágmarksöryggi um það, að nokkrir aðilar geti ekki fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins skyndilega orðið milljónerar eða tug milljónerar? Málið verður alltaf viðkvæmt, það er ekkert nýtt. En til þess erum við kjörnir að tryggja rétt hins almenna borgara og leysa ákveðin vandamál. Við getum líka sagt, að það sé viðkvæmt að mega ekki fiska hér ýsu í soðið handa Reykvíkingum með vissum veiðarfærum. Þeir verða að fara suður í Garðsjó og koma með ýsu merkta GK. Til hvers er það gert nema í þágu almenningsheilla? Það verður alltaf þannig, að við verðum að taka af skarið í vissum tilfellum, það er ekki hægt að komast hjá því. En það snertir þá hagsmuni einhverra. Þessi till. mun ekki svipta neinn bónda þeim afnotarétti, sem hann hefur haft. En hann gæti kannske ekki braskað frjálst með jörð sína. Ég vil ekki fullyrða á þessu stigi neitt um löggjöfina, en svo gæti farið, að slíkt yrði látið fara eftir ákveðnum reglum.

Það var fyrst og fremst 3. liður og svo sá andi, sem var í 1. lið, að lýsa allt hálendi landsins alþjóðareign, sem virtist ekki koma heim við hugsanir þessara ágætu manna, er töluðu hér áðan. En þetta er sett fram í athugunarskyni og sem viðmiðunarsjónarmið. Veiðirétturinn er mjög viðkvæmt mál og um hann þarf að fjalla af mjög færum mönnum. en það er óeðlilegt að tryggja hann ekki í umráðarétti þeirra manna, sem búa á jörðunum. Það er óeðlilegt, og undir það hljóta þessir ágætu málsvarar bændastéttarinnar að taka. En í dag er það ekki tryggt, því miður. Það er ekki tryggt í dag.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tel, að málið sé þess virði, að því sé hreyft hér á Alþ. æ ofan í æ og Alþ. taki afstöðu um það, hvort öll lög og réttur um afnotarétt hálendisins eigi áfram að vera í jafnmikilli óvissu og verið hefur. Það var sagt hér, að menn hefðu frjálsan aðgang að landinu, en það er nú svo. Á hverju einasta hausti koma tilkynningar um, að þetta og þetta sé bannað, bæði berjatýnsla, rjúpnaveiði og ýmislegt annað, á landi, sem er þó í hreinum óbyggðum og enginn fer um nema gangandi. Samt sem áður telja margir sig geta bannað slíka umferð, en margir vildu ganga um landið, þó að ekki sé til veiða.