17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að svara hér tveimur fsp., sem til mín hefur verið beint.

Annars vegar spurði hv. 5. landsk. þm. um það, hvert mundi verða markmið ríkisstj. varðandi verðlagningarmál eða hvaða reglur hún mundi setja í þeim efnum, og hann spurði um þetta jafnhliða því, að hann lýsti yfir því, að það væri skoðun hans, að nú þyrfti að standa hér vel gegn öllum verðhækkunum. Ríkisstj. hefur að vísu engar sérstakar reglur sett varðandi þessi mál enn þá, en ég get lýst yfir því, að það er stefna hennar að standa gegn öllum verðhækkunum, sem hún telur mögulegt að standa gegn, en hins vegar gerir hún sér ljóst, að það er ekki hægt að komast hjá því í sumum tilvikum að leyfa einhverjar hækkanir. Eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, þarf hér að reyna að rata réttan meðalveg. Það er eflaust nokkur vandi á höndum í þessum efnum, en eins og ég hef áður í umr. hér um þessi mál sagt, er það ákveðið í lögum, að það sé skylda að haga verðlagsmálum á þá lund, að vel rekin fyrirtæki hafi starfsgrundvöll. Það er sem sagt meiningin að standa gegn öllum verðhækkunum, sem tök eru á að standa gegn, og leyfa ekki aðrar verðhækkanir en þær, sem talið er alveg óhjákvæmilegt að veita. Þar undir falla t.d. hækkanir á erlendum vörum, sem við fáum ekki við ráðið. Einnig ef um slíka hækkun á kostnaðarverði hér innanlands er að ræða, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að þeir, sem með þjónustuna hafa að gera, geti tekið þá hækkun algjörlega á sig, þá auðvitað yrði einnig þar um einhverja verðlagshækkun að ræða.

Þá spurði hv. 2. landsk. þm. um það, hvað væri ætlunin að gera varðandi skipun á formanni í verðlagsnefnd, þar sem gert væri ráð fyrir þeirri breytingu, að ráðh. geti skipað formann í stað þess, að áður var gengið út frá því, að ráðuneytisstjórinn í viðskrn. væri formaður nefndarinnar. Ég held, að ég hafi sagt það hér áður, að helzt kysi ég, að ráðuneytisstjórinn fengist til að taka þetta starf að sér áfram, og verði þess kostur, þá mun ég skipa hann formann. En þar sem hann hefur færzt undan því að gegna þessu starfi, þá er það til athugunar að velja annan mann úr viðskrn. til þess að gegna starfinu. Mér hefur ekki komið til hugar að skipa neinn af þeim mönnum, sem ég þykist vita, að bæði fyrirspyrjendur og aðrir eigi við, þar sem þeir eru að tala um einhvern pólitískan fulltrúa ráðh., en hins vegar get ég auðvitað ekki varizt að geta þess um leið, að þess hefur oft verið getið hér, m.a. af fyrirrennara mínum hér sem viðskrh., að þessi oddamaður væri fulltrúi ríkisstj., og bæri auðvitað að skrifa verk hans þannig á reikning ríkisstj. Þetta er öllum ljóst, að hann er pólitískur fulltrúi, hver svo sem hann er að þessu leyti til, svo að það þýðir ekki að líta út af fyrir sig fram hjá því. En það hefur verið ætlun mín að halda þarna sama formanni áfram, ef þess yrði kostur, — ég vil hins vegar ekki þvinga hann til þessara starfa hér með lagasetningu, — en annars að skipa þá annan fulltrúa úr viðskrn. til þess að gegna þessu starfi, og ég vænti þess, að það verði unnið á svipuðum grundvelli og áður hefur verið.