11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (4141)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Við heyrðum hér áðan lýsingu á vegunum í Norðurl. e. á s.l. vori, og við heyrðum hér um daginn lýsingu hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., Jóhannesi Guðmundssyni, á vegunum í Húnavatnssýslu á s.l. vori, og mér dettur ekki í hug að efast um réttmæti þessara lýsinga. En við verðum bara að varast það að ímynda okkur, að þetta sé eitthvað sérstakt fyrir þessa vegi. Því miður er svo ekki, því að þetta er raunverulega ástand íslenzkra vega víða um land og í flestum kjördæmum, þar sem annað en hraun er undir, og ég held, að þeir hv. Suðurnesjamenn, sem kunna að halda, að verstu vegir og torfærustu á landinu hafi legið frá Hafnarfirði til Keflavíkur, hefðu gott af því að sitja einhvern tíma fastir í forarvilpum íslenzkra þjóðvega í öðrum landshlutum, því að íslenzkir alþm. eiga óneitanlega að vita, hvernig ástatt er í samgöngumálum þjóðarinnar. Vegakerfið þolir ekki það, sem á það er lagt. Gamlir vegir, sem gerðir voru fyrir hesta og hestakerrur, eiga að bera þungaflutninga eins og þeir gerast í dag og þessir vegir eru víða það slitnir, að þeir eru heflaðir niður í mold og stórgrýti. Ég ætla ekki að fara að endurtaka lýsingar hv. þm. á vegum á Norðurlandi, enda er nú fyrri ræðan komin á prent, en þar sem sú lýsing á við vegi í öllum landshlutum, þá verða hv. alþm. að líta á þessi mál ekki sem héraðsmál heldur sem landsmál, sem þjóðmál. Ísland er vanþróað land í vegamálum, og því verður það að vera menningarstarf íslenzkra stjórnarvalda á komandi árum m.a. að afla fjár, draga fé frá daglegri eyðslu og binda það í uppbyggingu varanlegra vega í enn ríkara mæli en gert hefur verið undanfarið.

Svokölluð Vestfjarðaáætlun hefur nokkuð dregizt inn í þessar umr. Mig langar ekki til að innleiða hér karp og brigzl um liðna tíð, því að meira þykir mér nú vert að horfa til þess, sem fram undan er. En þó held ég, að saga þess máls geymi nokkurt hugleiðingarefni, sem hagnýtt geti orðið við samningu og framkvæmd byggðaáætlana framvegis og hvernig að þeim málum er staðið.

Það var árið 1963 hinn 19. apríl, að Alþ. samþykkti svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands að semja fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við stjórn Atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórnir til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Einkum skal miða áætlunina við það, að framkvæmdirnar verði liður í uppbyggingu þeirra staða, sem fólksfækkunin gerir illkleift að halda í byggð, þótt öll skilyrði séu þar til góðra lífskjara, ef búið væri að þeim á borð við aðra staði. Skal áætluninni lokið fyrir lok þessa árs og hún þá lögð fyrir Alþ. ásamt till. um fjáröflun.“

Þarna var Alþ. að segja til um röð á áætlunum. Framkvæmdir gengu svo, að eftir nokkur ár, ég held, að þau hafi verið fjögur, vitnaðist, að búið væri að setja saman samgöngumálakafla þessarar Vestfjarðaáætlunar, og hann hefur að verulegu leyti verið framkvæmdur. Þó mega menn vita það, að meðal þeirra vegaframkvæmda, sem áætlunin tók til, voru jarðgöng gegnum efsta hrygginn á Breiðadalsheiði milli Ísafjarðarkaupstaðar og Önundarfjarðar. Gerðu menn ráð fyrir því, að eftir tilkomu þeirra yrði bílfært yfir heiðina allan ársins hring nema rétt dag og dag í verstu vetrarbyljum. Þegar svo farið var að athuga málið betur, virtist verkfræðingum, að jarðgöngin mundu verða miklu dýrari en ráð hafði verið fyrir gert, og það var horfið frá gerð þeirra, svo að í stað þess, að þarna sé bílfært flesta daga ársins, var heiðin ófær öllum bílum sjö mánuði næst síðasta vetur. Og hún er ófær snjóbílum líka, því að landslag og snjóalög eru þannig. Þarna finnst mér, að hafi orðið verulegt frávik frá gerðri áætlun, verulegar vanefndir á ráðagerðum. Og vegna þess að ég hef orðið var við það, að sumir menn, sem búa fjarri Vestfjörðum halda, að þar sé búið að gera allt, sem gera þarf í vegamálum, skal ég bæta því við, svona til að fylla upp í lýsingar á þjóðvegum á Íslandi, að í Skutulsfirði, Önundarfirði og Dýrafirði urðu vegir ófærir öllum bílum s.l. vor, þó að oftast nær væri böðlazt yfir þá á jeppum, og hið sama átti sér stað miklu víðar.

Eins og menn heyra á þeirri þáltill., sem ég las áðan og á níu ára afmæli 19. apríl n.k. var ætlazt til þess, að Vestfjarðaáætlun yrði fyrst og fremst um atvinnumál og hún átti að vera samin árið 1963, lögð fyrir Alþ. 1964 ásamt till. um öflun fjár til framkvæmda hennar. Framkvæmdinni átti svo að ljúka á næstu fimm árum. Þessi atvinnumálaáætlun er ósamin enn, og fólki á Vestfjörðum fækkar ár frá ári. Hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, sagði hér, að þessar áætlanir fyrir Vestfirði og Vesturland í öðru lagi mundu verða unnar einhvern tíma síðar meir, en annað yrði látið ganga fyrir. Samkv. því verður þessi margnefnda og langþráða Vestfjarðaáætlun tæpast samin fyrir 10 ára afmælið. Ég veit, að unnin hefur verið atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland, og ég veit það líka, að t.d. fræðimaður frá Veiðimálastofnuninni hefur ásamt verkfræðingi ferðazt um Norðurland til að athuga skilyrði til fiskeldis og fiskræktar, en enginn tími verið aflögu til að gera slíka athugun nokkurs staðar á Vestfjörðum. Ég vil ekki telja eftir það, sem gert hefur verið af viti fyrir Norðlendinga, en ég sé ekki, að það sé nokkur dyggð að sitja hér þegjandi, þegar talað er um Vestfjarðaáætlun, að öðrum þræði í þjóðsögustíl, en að öðrum þræði eins og hún geti beðið eitthvað fram eftir öðrum áratugnum frá því að ákveðið var að gera hana, þó að Vestfirðingum fækki um 100 manns á ári hverju.