16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (4146)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nú óþarfi að tefja mikið umr. út af þessari till. frekar en orðið er, en ég vil þó aðeins athuga hér nokkur atriði, sem komu fram í síðustu ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. hér á dögunum. Hann þakkaði sérstaklega fyrir það, að það hefði komið fram í minni ræðu, að hann mundi hafa verið helzti ráðamaður kjördæmisins um málefni þess. Ég held, að það liggi nú í augum uppi, að fjmrh., eini ráðh. sem var í þm.—hópnum, muni hafa haft betri aðstæður til að koma fram málum en a.m.k. þeir, sem voru í stjórnarandstöðunni. Ég held, að það liggi nú í augum uppi, enda heyrðist mér á honum, þegar hann fór að ræða þetta frekar, að það mundi vera betra fyrir okkur að koma málum fram, en t.d. stjórnarandstöðu þm. Ég held, að það hafi ekki verið út í hött að telja það, að ef hæstv. fjmrh. hefði beitt sér, þá hefði hann haft betri aðstöðu, en við hinir.

Hann gat um það, að þetta hefði verið mjög vinsælt kosningamál í okkar kjördæmi. Hvers vegna var það vinsælt kosningamál? Það var vegna þess, hvernig samgöngurnar voru. Það hefði ekki verið það, ef þessi mál hefðu verið í lagi. Og svo bætir hann við: Það vildi þannig til, að vegirnir voru ófærir. Það vill bara til á hverju einasta vori. Þetta var ekkert verra eða betra, en hefur verið undanfarin vor, nema frammi í Eyjafirðinum. Þar var það heldur skárra s.l. vor, vegna þess að sumarið áður voru þar stórir kaflar malarbornir. Það voru einmitt vegirnir, sem héldu nokkurn veginn umferðinni. Það voru þeir vegir, sem höfðu fengið ofaníburð sumarið áður. En hinir voru í sama svaðinu eins og þeir hafa verið undanfarin ár. (Gripið fram í: Hvers vegna ekki að laga þá?) Hvers vegna ekki að laga þá? Já, það er nú það. Það hefði hv. þm. Lárus Jónsson kannske getað haft áhrif á, ef hann hefði barizt mjög fyrir því, því að hann átti mjög góðan aðgang að fjmrh., á meðan hann var framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga. En hann hefur kannske ekki vaknað nógu vel, á meðan hann var í starfi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er auðvitað ekki fjmrh., sem skiptir vegafénu, og það hefur alltaf verið góð samstaða á milli þm. í kjördæminu um skiptinguna á því litla vegafé, sem hefur verið fyrir hendi. Það er alveg rétt, og ég vil sérstaklega undirstrika það. Það er ekki um það, sem er deilt. Það er deilt um það, hvernig viðhorf þessara manna var í þessum málum áður. Það var ekki hægt að útvega féð. Það mátti ekki óska eftir lánsheimildum til þess, og það var ekki knúið á með það að afla nægilegs fjármagns til veganna. Það hefur komið fram annars staðar, að um 4 milljarðar af því fé sem umferðin gefur af sér, hefur farið beint í ríkissjóðinn. Það er þetta, sem við höfum átalið.

Það er alveg rétt, sem þm. sagði hér, að a.m.k. krónunum hefur fjölgað, sem hefur verið varið til þessara mála. Ef við förum nú að líta á fjárlögin, þá hefur krónunum alls staðar fjölgað, en framkvæmdamátturinn ekki aukizt að sama skapi og stefnan, sem upp var tekin, var að láta meginfjármagnið hér við þéttbýlið suðvestanlands. Ég var á tveimur fundum, fjölmennum fundum, norður í Þingeyjarsýslu núna um helgina. Þar stóð upp maður, sem sagðist hafa verið 21 ár atvinnubílstjóri í Þingeyjarsýslu eða jafnmörg ár atvinnubílstjóri og hv. þm. hefur verið hér á þingi. Og hann sagðist fullyrða það, að ástand veganna í SuðurÞingeyjarsýslu hefði aldrei verið eins slæmt og í sumar og hefði farið hraðversnandi á undanförnum árum. Og það var dálítið athyglisvert á þessum fundum, þar sem margir tóku til máls, að það var eitt atriði fyrst og fremst, sem allir komu inn á, og það var, hvernig samgöngurnar eru á Norðurlandi, að þær séu það, sem við þurfum fyrst og fremst að huga að. Þetta er sá dómur, sem sú stefna, sem fylgt var á viðreisnarárunum, fær hjá íbúum þessara héraða.

Þm. sagðist ekki muna eftir því, að við hefðum fundið að því, að við hefðum verið afskiptir. Ég man nú ekki betur, en við töluðum um það, hæstv. fyrrv. samgrh. og ég, í fyrravetur eða tvo undanfarna vetur, og ég hélt því fram, að við værum þar afskiptir, sem er allra álit, sem þekkja vegina í Norðurl. e.

Ég ætla nú ekkert að fara inn á það, sem þm. sagði, að það mundi verða tekið eftir því, hvernig við afgreiddum þessa till. Það er allt annað mál. Mér þykir það, sem þm. sagði svo ennfremur, eiginlega dálítið einkennilegt í þessu sambandi, þ.e. að það hefði ekki staðið á fjármagni við Austfjarðaáætlun, þegar áætlunin lá fyrir, eins og hann tók fram. Það var það, sem hann tók einmitt fram og það liggur nú fyrir, eða a.m.k. sagði Bjarni Bragi Jónsson það, að þessi áætlun mundi ekki liggja fyrir, fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjú misseri og þetta sagði hann um mánaðamótin ágúst—sept., og það eru nú ekki þrjú misseri síðan. Hitt er svo annað mál, að ég hef verið á þeirri skoðun, ég var, það í fyrra, og það breytist ekkert, þó að við höfum nú stjórnaraðstöðu, að það sé hægt að útvega fé í þessa vegi, það megi raða verkefnunum og það þurfi ekki endilega að bíða eftir þessum áætlunum. Það hef ég talið, en hv. þm. var á þeirri skoðun í fyrra, en er það ekki lengur, hvernig sem á því stendur.

Annars er óþarfi að karpa um þessi málefni meira hér. Ég vona það, að ef svo ólíklega vill til, að hv. þm. eigi eftir að fá stjórnaraðstöðu, breyti hann ekki aftur skoðun sinni og standi að þessum málum á sama hátt og hann gerir núna, en ekki eins og hann gerði hér s.l. vetur.