16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (4149)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nú auðséð, að það er kominn nokkuð mikill móður í þessa síðustu hv. þm., meiri en var á s.l. vetri, til þess að sýna það í sínum kjördæmum, að nú vilji þeir fara að vinna vel að því að láta byggja upp vegina í okkar fjórðungi, og ég verð að segja það, að það gleður mig, því að betra er seint en aldrei. Í sambandi við það, að hv. 5. þm. Norðurl. v. þakkaði hæstv. samgrh. fyrir ummæli hans um þetta, vil ég benda honum á það, að ráðh. bætti einu við, sem þm. hefur ekki viljað taka tillit til eða lesa. Hann sagði, að þessi þáltill. væri alveg óþörf. Og þar er ég ráðh. sammála.

Ég má nú ekki annað, eins og herra forseti sagði, en bera af mér sakir, og þess vegna vil ég taka það fram, sem ég gerði í minni frumræðu, að ég taldi þessa þáltill. algerlega óþarfa, vegna þess að þessi hæstv. ríkisstj. væri búin að heita því að vinna að þessum verkefnum, þ.e. að hefja framkvæmdir meira en áður við uppbyggingu vegakerfisins í landinu, og þess vegna væri þessi till. algerlega óþörf. Að ég hafi verið með úrtölur um það, að farið væri í að byggja upp vegakerfið á Norðurlandi, það er náttúrlega hreinn útúrsnúningur, og það, sem verra er, það er vísvitandi útúrsnúningur.