16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (4168)

31. mál, fálkaorðan

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Á öndverðu þingi komu fram tvær till. varðandi fálkaorðuna. Önnur fól í sér afnám fálkaorðunnar með öllu, hin fól í sér, að hana skyldi eingöngu veita útlendingum. Allshn. fjallaði um þetta efni, og málið fór þannig í allshn. að hún klofnaði. Meiri hl. lagði til, að þeirri till., sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson hafði borið fram, þ.e. að veita eingöngu útlendingum orðuna, skyldi framfylgt, en minni hl. lagði hins vegar til, að þessu máli skyldi vísað til ríkisstj. til nánari athugunar, eins og segir þar.

Þó að ég hafi náttúrlega mikið traust á okkar ágætu ríkisstj., þá eru sum mál, sem ég vil fá fljótlega úr skorið, og þetta er eitt af þeim. Ég get nú ekki sagt allt, sem ég hefði viljað segja um þetta mál. Ég gerði það í framsöguræðu minni, og hér er stuttur tími, eins og herra forseti minntist á, en það eru örfá atriði, sem ég vil, að fram komi. Í fyrsta lagi þetta. Ég hygg, að það sé almennt viðhorf hv. þm., að veiting fálkaorðunnar hafi ekki tekizt ávallt með bezta móti, og ég hygg, að það sé skilningur hv. þm., að þar megi verða einhver bót á. Hins vegar vandast málið, þegar menn vilja gera sér grein fyrir því, hver sé lausnin. Í raun og veru eru til þrjár leiðir í þessu máli:

1. Að afnema fálkaorðuna með öllu.

2. Að veita hana eingöngu útlendingum.

3. Að hafa svipaðan hátt og verið hefur.

Hins vegar er sá gallinn á við veitingu orðunnar til Íslendinga, að það er mér vitanlega enginn mælikvarði til, sem menn geta haft við veitingu orðunnar. Og ég þarf ekki að taka fram, að úthlutun orðunnar til Íslendinga hefur verið með því móti, að ég hygg, að vert sé að koma þessari orðu út úr íslenzka þjóðfélaginu.

Sú leið að veita hana eingöngu útlendingum hefur að vísu sætt nokkurri gagnrýni. Sumum þykir, að það sé of mikið djásn til þess að veitast eingöngu útlendingum. Ég er ekki á þeirri skoðun. Álit meiri hl., þar sem að nokkru leyti var vikið frá minni upphaflegu till. um algert afnám fálkaorðunnar, stafaði af tvennu. Í fyrsta lagi taldi ég, að ef vera mætti, að fleiri hv. þm. vildu fylgja því að veita eingöngu orðuna útlendingum, þ.e. að fjarlægja hana úr íslenzku þjóðfélagi. Þá væri mikið á unnið. Svo kom einnig hitt til, að Svíar munu núna frá næstu áramótum, 1. jan. 1973, taka upp mjög svipaðan hátt. Framvegis munu orður eins og Vasaorðan, Norðurstjörnuorðan og Serafímerorðan ekki verða veittar Svíum, heldur eingöngu útlendingum og mér hefur borizt til eyrna, að svipuð sé ætlunin hjá Dönum. Meginatriðið hjá mér var það að fjarlægja orðuna úr íslenzku þjóðfélagi, og ég læt mér á sama standa, þó að þeir hengi þetta á skreiðarkaupmenn í Nígeríu.

Hins vegar áskildi meiri hl. n. sér rétt til að fylgja brtt., sem fram mundu koma og það hefur komið fram till. frá hæstv. ráðh. Magnúsi Kjartanssyni, sem er shlj. þeirri till., sem ég flutti upphaflega og ég fagna, að þessi till. skuli komin fram og ég hvet alla þm., hvar í flokki sem þeir standa, að ganga nú rösklega til verka og styðja þá till., sem ég flutti hér upphaflega og hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson hefur endurnýjað af skynsemi. (Gripið fram í.) Já, nál. líka. Nál. hljóðar svo:

Allshn. hefur haft til meðferðar tvær till. á þskj. 26 og 31, er báðar varða íslenzku fálkaorðuna, afnám hennar eða breytingar á fyrirkomulagi orðuveitinga. Nefndin hefur fengið umsögn orðunefndar um till. og formaður hennar setið fund allshn. Hann hefur veitt ýmsar upplýsingar, m.a. um breytingar á orðuveitingu, sem eru á döfinni í Svíþjóð og víðar og ganga mjög í sömu átt og till., sem fyrir liggja. Það hefur orðið að samkomulagi hjá meiri hl. allshn. að afgreiða till. á þann hátt að mæla með því, að samþ. verði till. á þskj. 31 um fálkaorðuna, en nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. Minni hl. n. mun skila sér áliti um málið.“

En ég vil bæta því við, að álit minni hl. n. var álit hæstv. ráðuneytisstjóra í utanrrn.

Að lokum vil ég hvetja alla þm. að sýna nú, að það sé dugur í þeim.